Minnisstæðar jólagjafir
Minnisstæðar jólagjafir
Í fyrsta sinn á ævinni er staðan þannig hjá okkur fjölskyldunni, rúmri viku fyrir jól, að næstum allar jólagjafir hafa verið keyptar og afhentar. Og það gerðist meira að segja fyrir rúmum tveimur vikum! Þetta er þó nokkuð afrek finnst okkur þar sem Þorláksmessu- og aðfangadagsreddingar hafa oftar en ekki verið normið með tilheyrandi stressi.
Ég er mikið jólabarn og er fyrst til að viðurkenna að mér finnst gaman bæði að gefa og fá jólagjafir – velja af kostgæfni eitthvað sem vonandi fellur í kramið hjá viðtakendum – og sjá þegar mitt fólk hefur líka lagt sig fram um að velja eitthvað fallegt handa mér.
Jólagjafakaup voru einfaldari hér áður fyrr. Ef ég lít til baka til þess þegar ég var barn þá til dæmis fékk ég til dæmis nánast eingöngu bækur í jólagjöf. Ein jólin minnir mig að ég hafi fengið ellefu bækur, þar af þrjár um brúðustrákinn Pál Vilhjálmsson. Ég var alsæl.
Þorgrímur bróðir minn var alltaf svolítið séður í sínum jólagjöfum. Hann til dæmis gaf mér Tinnabækur ár eftir ár – löngu áður en ég var byrjuð að geta flett bókum! En þær geymdust vel og ég naut þeirra síðar. Og fyrst ég er byrjuð að tala um Þorgrím þá held ég að besta jólagjafamóment hans hafi verið þegar hann gaf mömmu okkar forláta Marantz-heyrnartól til að tengja við plötuspilarann í stofunni. Hann hafði lengi haft augastað á þessum heyrnartólum sjálfur en mamma hafði ekki leyft honum að kaupa þau – en þarna fann hann snilldarlausn! Mamma notaði heyrnartólin auðvitað aldrei en ég held að Þorgrímur eigi þau enn þá sem sýnir óneitanlega hversu framsýnn hann var.
Sumar jólagjafir varðveitast betur en aðrar, eins og til dæmis gjöfin sem langafi minn Sigurður Þ. Jónsson gaf langömmu minni, og alnöfnu mömmu minnar, Hólmfríði Guðmundsdóttur, árið 1894, þegar þau voru í tilhugalífinu. Fyrir valinu varð bókin „Ljóðmæli“ eftir Steingrím Thorsteinsson, sem prentuð var árinu áður í Kaupmannahöfn. Bókin var falleg, innbundin í lit ástarinnar, slegin með gylltu letri og í hana hafði verið teiknuð falleg blómamynd og þar skrautrituð orðin: „Jólagjöf 1894 - til Hólmfr. Guðmundsdóttur frá Sig Þ Jónssyni”. Ég fékk þessa fallegu bók að foreldrum mínum látnum og þykir afar vænt um hana. Ekki síst þegar við grúsk eiginmanns míns komu í ljós skemmtileg tengsl móður- og föðurfjölskyldna minna sem ég hafði ekki vitað af. Þannig að það má sanni segja að þessi fallega jólagjöf hafi verið sannkallaður örlagavaldur í fjölskyldunni. Blessuð sé minning þeirra.
Ég sendi lesendum Víkurfrétta mínar allra bestu jóla- og nýársóskir.




