Arion
Arion

Pistlar

Verður árið 2026 ár stungunnar?
Mánudagur 19. janúar 2026 kl. 17:26

Verður árið 2026 ár stungunnar?

Árið 2025 er liðið og sól tekin að hækka á lofti. Moskító-flugan er komin til landsins. Hún stingur og ræðst fyrirvaralaust að fólki. Auðvitað óþægilegt að verða fyrir en menn jafna sig venjulega á slíkum stungum. Smá sviði og óþægindi, en lífið heldur áfram. Stungur mannfólksins geta verið verri.

Árið 2025 var að mörgu leyti ár ómennsku á samfélagsmiðlunum. Stungurnar gengu í allar áttir á netinu og sumar hverjar höfðu þann tilgang einan að sundra, særa og meiða. Stungur mannfólksins beindust fyrst og fremst að fólki með ákveðinn uppruna, ákveðna kynvitund og kynhneigð, fólki frá öðrum hlutum heimsins. Viðri menn skoðanir sínar á umdeildum málum á netinu er hætt við stungum. Rökræðan þar sem skipst er á skoðunum byggða á staðreyndum virðist vera á undanhaldi og stóryrði í anda götustráka að verða eitthvað norm hjá þeim er hæst láta.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Ekki er ég miðill en ég spái því að árið 2026 gæti orðið ár stungunnar. Næg verða tilefnin fyrir nettröllin og siðfræðinginn, nú þegar tekist verður á um ýmis þau úrlausnarefni samfélagsins sem taka þarf á og hver framtíð okkar á að vera. Sveitarstjórnarkosningar og hugsanlegar aðildarviðræður okkar við ESB gætu orðið stór mál þar sem við hvert og eitt verðum að setja okkur inn í málin og ákveða hver afstaða okkar verður. Þá afstöðu verðum við hvert og eitt að fá að taka á sem sönnustum upplýsingum frekar en stóryrðum án innihalds eða rökstuðnings.

Málið er að öll lifum við í sama samfélagi sem við viljum öllum hið besta. Öll höfum við okkar skoðanir á því hvernig við höldum að málum sé best fyrirkomið. Við höfum rétt á því og engin skoðun er réttari en önnur. Tökumst á með rökum og staðreyndum en sleppum að kalla hvert annað ónefndum eða gera því upp skoðanir. Leyfum sólinni að koma upp og finnum hlýju í garð hvers annars í stað þess að skapa sundrungu skoðananna vegna. Látum ekki árið 2026 verða ár stungunnar.