Viðreisn 2026
Viðreisn 2026

Mannlíf

Fjör á Þorrablóti Keflavíkur - myndir
Valdimar Guðmundsson flutti nokkrar af perlum sínum á Þorrablóti Keflavíkur 2026.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 22. janúar 2026 kl. 16:33

Fjör á Þorrablóti Keflavíkur - myndir

Keflvíkingar þjófstörtuðu að venju þorra með veglegu þorrablóti í Blue-höllinni 17. janúar. Um átta hundruð manns mættu prúðbúin til leiks og nutu þorramatar og skemmtidagskrár.

Páll Orri Pálsson veislustjóri opnaði kvöldið með því að minnast Magnúsar Haraldssonar sem lést fyrr þennan dag. Magnús var mikill Keflvíkingur og var m.a. í fyrsta Íslandsmeistaraliði Keflavíkur 1964.

Skemmtidagskrá var vegleg og var hún í höndum heimafólks. Brekkusöng stýrðu þeir Hjörleifur Már Jóhannsson og Eiður Eyjólfsson og var vel tekið undir hjá þeim félögum.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Keflvíkingurinn Valdimar Guðmundsson tók nokkur lög og Baldur og Júlíus, synir Rúnna Júll komu fram með Diljá Pétursdóttur söngkonu og hljómsveit. Sveitin flutti keflvísk lög sem langflestir þekkja og fjölmenntu gestir á dansgólfið og tóku undir í lögunum. Unga hljómsveitin Nostalgía lokaði kvöldinu.

Hér má ekki gleyma flutningi annáls Keflavíkur og fóru þeir félagar sem hann gera mikinn og fengu hjálp frá gervigreindinni við hin ýmsu mál sem vakti mikla kátínu. Lokalag annálsins - „Sönn í Keflavík“, með texta annálshöfundarins Sævars Sævarssonar, og söng Sigurðar Eybergs Jóhannessonar og Kórs Keflavíkurkirkju, hitti í mark eins og kvöldið allt.

Hér fylgja nokkrar myndir og svo eru fleiri í myndasafni með fréttinni. Þá er einnig innslag með lokalaginu. 

Páll Orri Pálsson var veislustjóri.

Aðalhöfundur annáls, Sævar Sævarsson í upphafsatriðinu.

Veislugestir tóku vel til matar síns á þorramat frá Soho.

Baldur og Júlíus Guðmundssynir ásamt hljómsveit.

Hljómsveitin Nostalgía lokaði kvöldinu.

Þorrablót Keflavíkur 2026