Ásgeir Elvar býður sig fram í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins
Ásgeir Elvar Garðarsson hefur ákveðið að bjóða sig framí leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ 31. janúar 2026. Ásgeir hefur undanfarin ár stýrt Bílaleigunni Geysi en hann er fæddur og uppalinn í Keflavík.
„Samfélagið okkar í Reykjanesbæ stendur á krossgötum. Við búum yfir einum mestu tækifærum landsins með aðgengi að einstökum innviðum í kringum alþjóðaflugvöll og stórskipahöfn en því miður hefur okkur ekki tekist nógu vel að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf í bænum,“ segir hann í aðsendri grein sem sjá má á vf.is.
Ásgeir á ekki langt að sækja áhugann á samfélaginu og bæjarpólitík.
Faðir hans, Garðar Ketill Vilhjálmsson, var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins 2006-2010.
Þá var afi Ásgeirs, Vilhjálmur Ketilsson, bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins 1986-1994 og bæjarstjóri 1986-1988.
Ólafur Björnsson, langafi han,s var einnig í framlínu Alþýðuflokksins í Keflavík, bæjarfulltrúi í aldarfjórðung og varaþingmaður um skeið.







