Nýjar reglur, nýir samningar og áframhaldandi uppbygging í Grindavík
Lagabreytingar, framtíðarsamningar um húsnæði og áframhaldandi uppbygging í Grindavík voru meginmál á 11. upplýsingafundi Járngerðar sem haldinn var á Teams í gær.
Guðbjörg Eyjólfsdóttir hóf fundinn á því að greina frá því að dómsmálaráðuneytið hafi birt áform um breytingar á kosningalögum, sveitarstjórnarlögum og lögum um lögheimili vegna aðstæðna í Grindavík eftir jarðhræringarnar. Þeir sem áttu lögheimili í Grindavík 9. nóvember 2023 eiga samkvæmt drögunum að fá val um að kjósa annaðhvort í Grindavík eða á núverandi lögheimilistað, og kjörgengi helst út kjörtímabilið. Áformin eru komin í samráðsgátt og hvatt er til umsagna. Jafnframt var greint frá uppfærðu rýmingarkorti fyrir Grindavík á grindavik.is.
Örn Viðar Skúlason fór yfir stöðu hollvinasamninga og gistisamninga. Um 230 hollvinasamningar eru virkir og um 115 þeirra eru með gistiheimild. Fyrirkomulagið gengur vel að hans sögn og ekki stendur til að hætta hvorki hollvinasamningum né gistisamningum. Stefnt er að framlengingu gistiheimilda inn á næsta ár og að nýtt samningsform taki við um mitt ár. Nýir svokallaðir endurkast- eða endurkaupasamningar eru í vinnslu í nánu samráði við stjórnvöld, fjármálastofnanir og fulltrúa Grindvíkinga.
Allir íbúar eiga samkvæmt vinnunni að fá forgang að fyrra húsnæði sínu, óháð því hvort þeir hafi áður merkt við forgangsrétt. Gert er ráð fyrir þriggja ára aðlögunar- og reynslutíma í samningunum, þannig að fólk geti losnað út úr þeim ef aðstæður breytast vegna náttúruváar.
Guðbjörg minnti á umfangsmikla könnun Maskínu fyrir Grindavíkurnefnd um hagi og áform íbúa. Skarphéðinn Berg Steinarsson lagði áherslu á að sem flestir svöruðu, enda nýtist könnunin bæði til stefnumótunar og rýnihópavinnu.
Fannar Jónasson bæjarstjóri sagði frá því að fyrri umræða um fjárhagsáætlun fari fram í næstu viku, en beðið hafi verið um frest til 31. janúar fyrir síðari umræðu til að byggja á sem traustustum forsendum. Unnið er út frá fimm sviðsmyndum um þróun íbúafjölda og þjónustuþörf, frá fólksfækkun til öflugrar uppbyggingar, og valin millileið til forsendugerðar.
Rætt var um viðgerðir á sprungum í bænum og jarðvinnuverkefni sem nú eru komin í útboð. Sigurður A. Kristmundsson fór yfir hafnarstörf og sagði 1.200 tonnum hafa verið landað í nóvember, lítillega undir væntingum, en árið 2025 engu að síður í takt við heildarvæntingar.
Ámundínus Örn Öfjörð frá Bláa lóninu greindi frá uppbyggingu nýs bílastæðis, gönguleiða og móttöku, auk þess sem íbúum fjölgar í nýrri blokk fyrirtækisins í Grindavík. Hann endurnýjaði áhyggjur af umferðaröryggi við gatnamót að Bláa lóninu og hvatti ökumenn til að draga úr hraða þar til úrbætur Vegagerðarinnar verða að veruleika.

