Jól í anda samveru
Jól í anda samveru
Árið 2025 var sannkallað viðburðaár hjá Unni Kristinsdóttur, íþrótta- og tómstundafulltrúa í Suðurnesjabæ, og fjölskyldu hennar. Það einkenndist af stórum tímamótum, fjölskylduhátíðum og ferðalagi sem gaf nýjar minningar, allt frá fermingu og Íslandsmeistaratitli til 60 ára afmælis og langt frís í Portúgal. Þegar líður að jólum tekur hún hins vegar meðvitað skref í rólegri takt: aðventan, hefðirnar, góðu stundirnar með sínum nánustu og þessi einstaka jólastemning sem verður til þegar tónlistin ómar og samveran fær að vera í forgrunni.
Hvernig var árið 2025 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Árið 2025 hefur heldur betur verið viðburðaríkt bæði í lífi og starfi hjá okkur fjölskyldunni! Árið hófst á fermingarundirbúningi þar sem Ólöf Hlín, eldri dóttir okkar, var fermd 27. apríl og við héldum veislu í tilefni af því. Síðan varð fermingarstúlkan okkar Íslandsmeistari með liðinu sínu í 2. flokki í fimleikum. Mamma mín fagnaði 60 árum í byrjun júní og héldum við fjölskyldan upp á það með henni. Í júlí fórum við í langt og gott fjölskyldufrí til Portúgal og nutum þess að skoða og kynnast menningunni þar. Haustið hefur verið nýtt í að eiga góðar stundir með fólkinu okkar og njóta saman sem fjölskylda.
Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?
Jólin eru okkar með Baggalút, Valdimar Guðmundssyni og BRÍET, það er eitt af þessum jólalögum sem ég get hlustað á aftur og aftur en hátíðlegasta jólalagið er Heims um ból sungið í Keflavíkurkirkju á aðfangadagskvöld, þá koma jólin mín.
Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?
The Holiday er algjörlega ómissandi í aðdraganda jólanna og það skemmir ekki fyrir ef það er jólakósýkvöld hjá okkur mæðgum þegar við horfum á hana.
Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?
Ég á nokkrar uppáhalds jólahefðir: sörubakstur með vinkonum mínum, leitin að „rétta“ jólatrénu með fjölskyldunni minni og svo er það Ris ala mande grautur í hádeginu á aðfangadag heima hjá mömmu og pabba. Það sem einhver er svo heppinn að fá möndluvinninginn sem er nú oftast spil eða eitthvað til þess að stytta stundirnar í biðinni eftir jólunum.
Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?
Rólegheit, góður matur og samverustundir með fjölskyldu og vinum er það besta við jólin.
Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum – hvort sem það var sem þú gafst eða fékkst?
Ég gleymi því aldrei þegar ég fæ fyrstu jólagjöfina mína frá eldri dóttur minni, jólakúlu sem hún hafði málað sjálf á leikskólanum og þá aðeins tæplega tveggja ára.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir, áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Ég á margar skemmtilegar jólaminningar en minnisstæðustu eru jólin 2003 sem við héldum í skíðakofa í Wisconsin í Bandaríkjunum. Við bjuggum í Kanada á þessum tíma og ákváðu foreldrar mínar að við myndum verja jólunum þar. Við skíðuðum mikið, fórum í inni- rennibrautagarð og í jólamatinn var íslenskt KEA hangikjöt. Svo eru það auðvitað öll jólin sem ömmur mínar og afar hafa verið með okkur á aðfangadagskvöld, það eru dýrmætar jólaminningar.
Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð? Áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?
Mér finnst gaman að blanda saman gömlu og nýju jólaskrauti, ég hef í gegnum tíðina fengið í gjöf og erft nokkra georg jensen-óróa frá ömmum mínum og finnst mér mjög dýrmætt að hengja þá á jólatréið okkar á hverju ári. Jólaskrautið sem stelpurnar mínar hafa föndrað á líka alltaf sinn stað þegar við skreytum fyrir jólin.
Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?
Jólin breyttust mikið eftir að ég varð móðir, maður upplifir jólin í gegnum börnin sín. Tilhlökkunin, spennan og eftirvæntingin er svo mikil hjá þeim og...
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum? Eru einhverjar ómissandi uppskriftir á þínu heimili?
Hjá okkur eru engar fastar venjur hvað í matinn á jólunum en sænska jólaskinkan frá Kjörhöllinni er uppáhalds og er alltaf í boði í kringum jólin. Reyktur lax, grafið lamb, graflaxsósa, konfekt, malt og appelsín, smákökur, heitt súkkulaði, hangikjöt og alls konar ostar er svona eitthvað sem er alltaf til yfir hátíðirnar.
Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?
Í raun er mér alveg saman hvar ég er á jólunum svo lengi sem ég er með fjölskyldunni minni og það væri ekki verra ef stórfjölskyldan myndi vera þar líka.
Trúir þú enn á jólaandann? Og hvað þýðir hann fyrir þig?
Já, ég reyni að skapa sjálf fallegan jólaanda og rými til að njóta. Mér hefur alltaf þótt mjög vænt um aðventuna, að skreyta fyrir jólin, versla jólagjafir, eiga góðar samverustundir, baksturinn, borða góðan mat, mæta í kirkjuna mína og njóta hversdagsins.
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
Að eiga friðsæl og góð jól með stelpunum og manninum mínum.
Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?
Kærleika og að minna fólk á gullnu regluna: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“
Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?
Ég set mér alltaf áramótaheit: árið 2026 ætla ég að rækta sjálfan mig, labba á fleiri fjöll og vera meira í náttúrunni. Mér finnst áramótin alltaf skemmtilegur tími, nýtt upphaf og svo spennandi að vita ekki hvað nýtt ár ber í skauti sér. Það er margt framundan sem við vitum af, þá má helst nefna fermingarferð, ferðalög erlendis, að fagna 100 ára afmæli afa míns og svo margt fleira. Annars tek ég fagnandi á móti nýju ári og hlakka til ársins 2026 og allra þeirra tækifæra sem það mun bjóða upp á!






