Palóma
Palóma

Mannlíf

Þröstur flutti Monroe og Bogart suður í Garðinn
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 19. desember 2025 kl. 18:13

Þröstur flutti Monroe og Bogart suður í Garðinn

Rithöfundurinn og tónlistarmaðurinn Þröstur Jóhannesson sendir nú frá sér sína þriðju skáldsögu, Elsku Monroe og Bogart. Þar mætir Bogart suður í Garð með Monroe „upp á arminn“ og af stað fer skáldsaga sem gerist suður með sjó, í Garðinum og Keflavík, laust fyrir aldamótin 1900. Á kápunni trónir mynd sem minnir á gamla Garðskagavitann og Suðurnesin leika stórt hlutverk í allri frásögninni.

Segðu okkur frá nýju bókinni, Elsku Monroe og Bogart. Hvernig kviknaði hugmyndin?

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

„Hún á svolítið óvæntan uppruna. Ég var að fylgjast með listamanni sem tók gamalt listaverk, styttu sem stóð úti á víðavangi, og færði hana inn í allt annað samhengi, inn í hús. Þetta fannst mér svo skemmtileg hugmynd að ég fór að hugsa: „Hvar gæti ég sjálfur tekið einhverjar persónur og skellt þeim í nýtt samhengi?“

Þá fæddist hugmyndin um Bogart og Monroe – að setja þau ekki í Hollywood heldur í Garðinn. Þaðan þróast sagan; þau koma suður í Garð, stofna heimili, fyrirtæki og útgerð og allt fer á flug út frá því.

Í káputextanum er talað um „fyndna sögu með harmrænum undirtóni“ og sterka mynd af tíðarandanum suður með sjó. Hvernig myndirðu sjálfur lýsa bókinni?

„Þetta er í grunninn ævisaga og sjómannasaga, en sögð sem skáldsaga. Við fylgjumst með upp- og niðursveiflum ævintýramannsins Bogarts og hans íðilfögru Monroe í gegnum frásögn sonar þeirra, hann er sögumaðurinn og hann dregur ekkert undan.

Ég er mikið fyrir ævisögur og sjómannasögur, og hér er ég að leika mér bæði með hetjusögurnar og tíðarandann. Þetta er létt og gamansöm saga, en með alvöru undirtón, sem minnir okkur á hvað lífsbaráttan gat verið hörð.

Sögusvið um og eftir seinna stríð

Hvenær gerist sagan?

„Sagan er að gerast um og eftir seinna stríð. Sögusviðið í Garðin er ekki Garðurinn sem fólk þekkir í dag, heldur samfélag sem er að mótast, með allt öðrum aðstæðum og kjörum. Garðskagavitinn, sem kápumyndin vísar í, er líka hluti af þessari ímynd og kápumyndin sjálf á sér sína sögu; hún er sprottin úr listaverki þar sem tengdadóttir mín gerði nokkra svona „klippimyndavita“. Eitt af þessum verkum hefur alltaf minnt mig á vitann í Garði og endaði svo sem kápumynd bókarinnar“.

Sjómannasaga, fjölskyldusaga og tíðarandamynd

Hvernig byggirðu söguna upp? Hver er þessi sögumaður sem segir frá?

„Sögumaðurinn er sonur Bogarts og Monroe, hann er í raun svolítið skrautlegur karakter, með sterkar skoðanir og eigin rödd. Í gegnum hann segi ég sögu fjölskyldunnar, sjómennskunnar og samfélagsins.

Sagan byrjar í Garðinum, fer þaðan til Keflavíkur, síðan til Reykjavíkur og víðar. Þetta er ekki beint nakin ævisaga mín, en ég byggi mikið á eigin reynslu, tengingum við mína ævi og því sem ég hef heyrt og lesið. Þannig verður til svona tíðarandamynd: hvernig hlutirnir voru, hvernig fólk talaði, hvernig það þurfti að bjarga sér.

Hetjur sjómennskunnar – og smá grín í bland

Hvernig heldurðu að sjómannslífið hafi verið á þessum tíma sem sagan gerist?

„Ég efast ekkert um að þetta hafi verið gífurlega erfitt líf. Ég er alinn upp við sögur úr Garðinum af því hverslags hetjur sjómenn voru og hvað þær hetjur voru oft líka bara fólk sem þurfti að lifa af.

Í sjómannasögum og ævisögum er oft ákveðin upphafning: þar voru menn mestir og bestir, bráðnauðsynlegir og ómissandi. Mér finnst gaman að gera svolítið grín að því, leika mér með þennan stíl, án þess að gera lítið úr fólkinu. Við Íslendingar erum mikið „þetta reddast“-fólk, en í gamla daga var það bara staðreynd, þú varst að redda þér, annars lifðirðu ekki af“.

Garðurinn, Keflavík og bókmenntalegar tengingar

Þú talar um að sagan sé mikil Suðurnesjasaga. Hvernig nýtirðu þér Garðinn og Keflavík í frásögninni?

„Mér finnst Garðurinn frábært svið til að velta lífsbaráttunni fyrir mér, hvað fólk þurfti að ganga í gegnum. Ég hef lesið heilmikið af sögum og ævisögum í kringum þetta, og þar finnur maður þessa nærveru við hafið og harðræðið.

Svo tek ég líka inn Keflavík og tengi þetta við mitt eigið uppeldi. Ég nota Bogart og Monroe, vísa í setningar og minningar sem kallast á við þá sögu. Með því að blanda þessu saman verður til þessi tíðarandamynd sem mig langaði að skapa“.

Frá Austurbraut í Keflavík til Ísafjarðar

Þú ólst upp í Keflavík. Hvernig var sú æska?

„Hún var bara mjög fín. Ég er fæddur 2. janúar 1969, sonur Ásdísar Óskarsdóttur húsmóður og Jóhannesar Gunnars Jóhannessonar útgerðarmanns. Ég ólst upp á Austurbraut í Keflavík, gekk þar í barna- og gagnfræðaskóla og síðan í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Samhliða skóla stundaði ég nám í Tónlistarskóla Keflavíkur og lærði klassískan gítarleik. Og eins og margir á Suðurnesjum vann ég í saltfiskverkun hjá pabba mínum allan námsferilinn“.

Tónlistin, pönkið og skáldskapurinn

Þú hefur lengi verið að semja tónlist og texta, hvernig byrjaðirðu í því?

„Ég byrjaði mjög snemma að fást við laga- og ljóðasmíðar og önnur ritstörf. Fyrstu tækifærin voru að spila undir hópsöng á KFUM og K-fundum. Svo komu eftirmálar pönkbylgjunnar, blandaðir súrrealísku og Hank Williams og þá fór hugurinn annað.

Ég fór að spila með ýmsum hljómsveitum: Trassarnir, Ofris, Vonlausa tríóinu, Texas Jesús, Hinir Guðdómlegu Neanderdalsmenn og Unaðsdalur. Það hafa komið út plötur með þessum sveitum, sjö talsins, auk tveggja sólóplatna. Fyrstu ritsmíðar mínar birtust í ljóðaformi á plötunni Skjól í skugga með Ofris árið 1987.

Fyrri bækur og leikgerð

Þetta er þriðja skáldsagan þín. Hvað kom á undan Elsku Monroe og Bogart?

„Fyrst kom barnabókin Sagan af Jóa árið 2013. Svo gaf ég út barnabókina Bjalla og bæjarstjórinn sem gat ekki flogið árið 2016. Árið 2020 gerði ég leikgerð fyrir svið upp úr þeirri sögu og samdi líka tónlist fyrir stuttmyndina Rán eftir Fjölni Baldursson.

Elsku Monroe og Bogart er svo þriðja skáldsagan, sem kemur út nú árið 2025“.

Ísafjörður, sýslumaðurinn og fjögur börn

Í dag ertu búsettur fyrir vestan. Hvað dró þig á Ísafjörð?

„Það er stutta svarið: konan. Hún er héðan að vestan en kom suður í Fjöbrautaskóla Suðurnesja. Við kynntumst í leikfélaginu í FS. Við byrjuðum á að búa saman fyrir sunnan en ég þurfti að borga til baka með því að flytja vestur og ég er eiginlega enn að borga, því ég er enn á Ísafirði! Það er mjög fínt að búa á Ísafirði. Hér er mikil náttúra sem er gaman að skoða.

Hvað ertu að fást við í dag, fyrir utan skrifin og tónlistina?

„Ég vinn hjá sýslumanninum. Síðan er ég alltaf að skrifa og tónlistin er ávallt þarna líka. Þannig að það er nóg að gera“.

Piparkökubakstur og nýjar hefðir

Þegar Víkurfréttir heyrðu í Þresti var hann í piparkökubakstri með fjölskyldunni. Þröstur og eiginkona hans, Halla Magnadóttir, eiga fjóra stráka og tvö barnabörn. Strákarnir eru allir fluttir að heiman en búa bara í næstu götu, sem sé þægilegt.

Þannig að þið eruð bara tvö í kotinu?

„Já, og þetta er þvílíkur munur. Maður kaupir fimm pulsur í pakka og það er afgangur!“

Nú eru jólin fram undan. Eruð þið dugleg að halda í hefðir?

„Já, við blöndum gömlum og nýjum hefðum. Litla fjölskyldan okkar er með sínar rútínur, þar á meðal piparkökubakstur. Það var ekkert endilega stór hefð í minni barnæsku, en það er eitthvað sem við höfum byggt upp.

Við hittumst, bökum kökur, skreytum og eigum okkar stundir. Þetta er einmitt svona atriði sem endurspeglar það sem mig langar líka til að fanga í skrifum: fólkið, hláturinn, sögurnar og tíðarandann“.

Að lokum

Þröstur hvetur fólk til að kynna sér bókina Elsku Monroe og Bogart, létta en djúpa sjómannasögu þar sem Bogart og Monroe birtast á þeirra allra ólíklegasta stað: í Garðinum, suður með sjó, á tímum þegar lífsbaráttan var hörð en húmorinn bjargaði oft miklu.

VF jól 25
VF jól 25