VF jólalukka 25
VF jólalukka 25

Mannlíf

Kór Njarðvíkurkirkju lætur gott af sér leiða með jólatónleikum 18. des.
Þriðjudagur 16. desember 2025 kl. 09:33

Kór Njarðvíkurkirkju lætur gott af sér leiða með jólatónleikum 18. des.

Frjáls framlög renna til Bjargráðs, til styrktar aðstandendum fanga 

Kór Njarðvíkurkirkju er nú á fullu að undirbúa jólatónleika sem haldnir verða í Njarðvíkurkirkju fimmtudaginn 18. desember kl. 20:00. Aðgangur er ókeypis, en tekið verður við frjálsum framlögum sem renna til Bjargráðs, félags sem styður aðstandendur fanga um allt land. 

Kór Njarðvíkurkirkju hefur vaxið hratt á síðustu tveimur árum. Kórinn taldi áður aðeins átta meðlimi en er nú orðinn yfir 40 manna hópur, sem tekur virkan þátt í helgihaldi og tónlistarstarfi Njarðvíkurkirkju. Vöxturinn hefur eflt tónlistarlíf kirkjunnar og skapað sterka tengingu milli safnaðarins og samfélagsins í Njarðvík. 

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

„Kórinn er orðinn bæði samstilltari og faglegri í söngnum, auk þess sem andinn í hópnum er einstakur“ segir Rafn Hlíðkvist, söngstjóri kórsins. „Að sjá kórinn vaxa svona hratt sýnir að það er svo sannarlega eftirspurn eftir öflugu og fjölbreyttu kórastarfi hér í bænum.“ 

Tónleikarnir verða látlausir og einlægir, ómækaðir og án hljómsveitar. Efnisvalið er fjölbreitt, flutt verða þekkt jólalög ásamt nýrri tónlist í kraftmiklum útsetningum eins og kórinn er þekktur fyrir. 

Kórinn ákvað i fyrra að jólatónleikar kórsins væri frábær vettvangur til að láta gott af sér leiða. Fyrir síðustu jól söfnuðust ein milljón króna sem skiptist jafnt á milli Umhyggju og Bergsins Headspace. Í ár var ákveðið að beina söfnuninni að Bjargráði sem m.a. hefur aðsetur í Njarðvíkurkirkju. Félagið styður fjölskyldur og nána aðstandendur einstaklinga sem afplána fangelsisdóma, bíða eftir afplánun eða hafa nýlokið afplánun og hefur unnið mikilvægt starf í sálgæslu og aðstoð um allt land. 

„Við vildum styrkja málefni sem fær litla athygli en skiptir miklu máli,“ segir Rafn. „Aðstandendur fanga standa oft frammi fyrir erfiðri stöðu, bæði félagslega og tilfinningalega. Ef við getum lagt þeim lið með tónlistinni okkar, þá gerum við það með gleði.“ 

Kór Njarðvíkurkirkju hefur á síðustu mánuðum komið fram á ýmsum viðburðum og hlýtur alltaf góðar undirtektir. Félagar lýsa sterkri samstöðu innan hópsins og metnaði fyrir því að vera hluti af uppbyggingu í kirkjunni og bæjarfélaginu. 

Jólatónleikarnir 18. desember eru opnir öllum og aðgangur ókeypis. Íbúar eru hvattir til að mæta, njóta tónlistarinnar og nota tækifærið til að láta gott af sér leiða og styrkja gott og mikilvægt málefni á sama tíma. 

Þeir sem vilja styrkja kórinn geta gert það með því að leggja inn á styrktarrekining kórsins númer 0133 - 15 - 011197 Kt: 511223-1480 





VF jól 25
VF jól 25