VF jólalukka 25
VF jólalukka 25

Mannlíf

„Æfingin skapar meistarann“
Föstudagur 12. desember 2025 kl. 08:51

„Æfingin skapar meistarann“

Hrafntinna Björk Ævarsdóttir og Júlía Eldon Logadóttir leika barnið í Jólagjöf Skruggu • Jólaævintýri leikhúsálfanna í Þjóðleikhúsinu

Á Litla sviði Þjóðleikhússins er þessa dagana sýnt verkið Jólagjöf Skruggu og Jólaævintýri leikhúsálfanna. Meðal leikara eru tvær ungar leikkonur úr Ungleikhúsinu í Reykjanesbæ, þær Hrafntinna Björk Ævarsdóttir og Júlía Eldon Logadóttir. Þær skipta með sér hlutverki barnsins í sýningunni og segja frá ævintýrinu í samtali við Víkurfréttir.

„Þetta er allt Elmu og Ninnu að þakka“

Að sögn stúlknanna má rekja allt ferlið til kennaranna þeirra í Ungleikhúsinu. „Það er allt Elmu og Ninnu að þakka,“ segja þær. „Þau fengu okkur til að fara í Þjóðleikhúsið og prufa fyrir hlutverk.“

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Elma sendi myndband af nokkrum krökkum, þar á meðal Hrafntinnu og Júlíu, til Þjóðleikhússins þegar vantaði börn í Jólagjöf Skruggu í Jólaævintýri leikhúsálfanna.

„Elma sendi vídeo af mér og Júlíu á Þjóðleikhúsið, út af því að Þjóðleikhúsið vantaði einhverja krakka í Jólagjöf Skruggu,“ útskýrir ein þeirra. „Hún sendi bara myndband af nokkrum krökkum og við komumst bara inn. Þá vorum við ógeðslega spenntar,“ segir Hrafntinna.

Leika munaðarlaust barn í dimmum skógi

Þjóðleikhúsið frumsýndi Jólagjöf Skruggu – jólaævintýri leikhúsálfanna eftir Melkorku Teklu Ólafsdóttur og Matthías Tryggva Haraldsson um miðjan nóvember. Í leikritinu segir frá leikhúsálfunum Bergrósu og Bergsteini sem hafa verið að skottast um Þjóðleikhúsbygginguna allt frá því að leikhúsið var opnað um miðja síðustu öld. Þau hafa fylgst með æfingum, horft á leiksýningar, leikið sér með búninga og leikmuni og heillast af töfrum leikhússins. Nú loksins eru þau tilbúin til að sýna sína eigin leiksýningu!

Leikarar eru Katla Þ. Njálsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Örn Árnason og svo munu þær Hrafntinna Björk Ævarsdóttir og Júlía Eldon Logadóttir skipta sýningum með sér. Leikstjóri er Guðjón Davíð Karlsson. Leikmynd og búningar eru eftir Maríu Th. Ólafsdóttur, tónlist sér Friðrik Margrétar-Guðmundsson um, Jóhann Bjarni Pálmason hannar lýsingu og Ásta Jónína Arnardóttir myndband, og um hljóðhönnun sér Þóroddur Ingvarsson.

Hrafntinna og Júlía leika sama hlutverkið, barnið í sögunni, og skiptast á að fara á svið. „Við erum að leika barnið. Það er svona munaðarlaust,“ segja þær. Barnið gengur eitt um dimman og kaldan skóg þar til það finnur hús. Í húsinu býr Skrugga, sem er ansi ógnvekjandi í fyrstu. „Hún er bara rosalega vond kona en svo verður hún bara góð í endann,“ segja þær og brosa.

„Rosalega skemmtilegt að vinna með frægum leikurum.“

Stelpurnar lýsa því að það sé bæði spennandi og skemmtilegt að vinna með þekktum og reynslumiklum leikurum. „ baraerBara rosalega skemmtilegt,“ segja þær ákveðið. „Við byrjum mjög oft bara að tala um eitthvað allt annað þegar við erum á æfingu og það er oft mjög fyndið.“

Þær eru sammála um að leikhúsið sé frábær skóli. „Já, mjög!“ svara þær þegar spurt er hvort þetta sé góður skóli fyrir ungar leikkonur.

Æfðu í tæpa tvo mánuði

Æfingarnar fyrir Jólagjöf Skruggu í Jólaævintýri leikhúsálfanna stóðu yfir í nokkrar vikur eða um tvo mánuði. Textann lærðu þær saman, skref fyrir skref.

„Við erum búnar að læra hann allan en stundum gleymum við og þá hjálpum við hvor annarri,“ segja þær. „Æfingin skapar meistarann.“ Auk leikara eru fleiri fullorðnir að styðja við hópinn. Svo er barnapía í leikhúsinu sem passar upp á þær þegar á þarf að halda.

Ungleikhúsið í Reykjanesbæ

Áhugi stúlknanna á leiklist, söng og dansi kviknaði í Ungleikhúsinu í Reykjanesbæ. Spurðar um framtíðardrauma segjast þær báðar vilja halda áfram í leiklistinni. „Ég ætla að reyna að verða fræg leikkona í útlöndum líka,“ segir Hrafntinna.

Þegar spurt er um uppáhaldsleikara þurfa þær ekki langan umhugsunartíma.

„Ég held ég ætli bara að segja Örn. Hann er rosalega fyndinn en samt eru allir leikararnir rosalega fyndnir og góðir,“ segja þær báðar.

Sýna fram að jólum – og líklega áfram

Þær gera ráð fyrir fjölmörgum sýningum á Jólagjöf Skruggu og Jólaævintýri leikhúsálfanna næstu vikur. „Við verðum örugglega að sýna fram að jólum,“ segja þær, og telja einnig líklegt að sýnt verði eitthvað áfram á nýju ári.

Þær ítreka hvað þær séu þakklátar fyrir tækifærin. „Þetta er næstum því bara allt Elmu og Ninnu að þakka að við komumst í þennan skóla,“ segja þær um Ungleikhúsið. „Og svo komumst við núna í Þjóðleikhúsið. Þetta er alveg rosalega skemmtilegt.“

Að lokum senda þær skýr skilaboð til lesenda: „Já, endilega komið og horfið á Jólagjöf Skruggu“ segja þær og vonast til að sjá sem flesta á Litla sviðinu á aðventunni.

VF jól 25
VF jól 25