VF jólalukka 25
VF jólalukka 25

Fréttir

Óvissa um næsta gos hleypur á mánuðum
Sólarhringsvakt Veðurstofu Íslands. Mynd: vedur.is
Fimmtudagur 11. desember 2025 kl. 09:25

Óvissa um næsta gos hleypur á mánuðum

Kvikusöfnun undir Svartsengi er hæg en stöðug

Kvikusöfnun undir Svartsengi hefur síðustu vikur verið hæg en stöðug, samkvæmt nýjustu mælingum og líkanreikningum Veðurstofu Íslands. Hraði innflæðis kviku hefur almennt dregist saman með hverju eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni frá því í mars 2024, en hefur þó haldist svipaður síðustu tvær vikur.

Á meðan kvika safnast áfram aukast líkur á kvikuhlaupi og eldgosi, en óvissa um hvenær næsti atburður verður er töluverð. Miðað við núverandi hraða kvikusöfnunar er talið að óvissan með tímasetningar hlaupi á nokkrum mánuðum.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Fimmta mesta kvikumagnið frá upphafi atburðarins

Líkanreikningar sýna að frá því í mars 2024 virðist það kvikumagn sem þarf til að hrinda af stað nýju kvikuhlaupi eða eldgosi hafa aukist. Á bilinu 17–23 milljónir rúmmetra af kviku hafa safnast undir Svartsengi á milli eldgosa á þessu tímabili.

Frá síðasta eldgosi í júlí hafa nú rúmlega 17 milljónir rúmmetra af kviku bæst við kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi. Það er svipað magn og mældist rétt fyrir eldgosið í maí 2024 og er það fimmta mesta kvikumagn sem safnast hefur milli gosa frá desember 2023.

Jarðskjálftavirkni er áfram lítil

Jarðskjálftavirkni á svæðinu er enn lítil. Síðustu tvær vikur hafa aðeins mælst tólf smáskjálftar og voru þeir staðsettir á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Grindavíkur.

Engin merki eru um skarpa breytingu í skjálftavirkni sem gæti bent til þess að kvikuhlaup eða gos sé yfirvofandi á næstu dögum.

Hættumat óbreytt til 6. janúar

Hættumat Veðurstofu Íslands er óbreytt og gildir til 6. janúar 2026. Veðurstofan fylgist náið með þróun mála og tilkynnt verður ef breytingar verða á virkni sem kalla á endurskoðun matsins.

Veður gæti haft áhrif á mælitæki

Veðurspá fyrir svæðið næstu daga gerir ráð fyrir hvössum austan- og suðaustanáttum með rigningu og skúrum í dag, fimmtudag, og fram yfir helgi. Slík veðurskilyrði geta haft áhrif á næmni og gæði mælinga, meðal annars á skyggni, ljósleiðaramælingar, jarðskjálftamæla og rauntíma GPS-mælingar.

Veðurstofan mun áfram fylgjast náið með bæði veðri og jarðhræringum og hvetur fólk til að fylgjast reglulega með veðurviðvörunum og uppfærslum á vef stofunnar.

VF jól 25
VF jól 25