Aukin raforkuframleiðsla með sjöunda orkuverinu í Svartsengi - vel heppnuð framkvæmd
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku segir að framkvæmdir við sjöunda orkuverið í Svartsengi hafi gengið vonum framar en þær hafa staðið yfir síðustu tvö ár samhliða eldgosum og eldsumbrotum á svæðinu. Nýjasta orkuverið leysir af hólmi tvö eldri túrbínur og þessi 14 milljarða framkvæmd eykur framleiðslugetu á rafmagni um þriðjung. Framkvæmdin felur líka í sér umtalsverðar endurbætur á ýmsum búnaði sem tengist heitavatnsframleiðslu fyrirtækisins í Svartsengi. Hann fer yfir gang mála og framtíðarsýn nánar í viðtali við Víkurfréttir.
Tómas segir að Ísland þurfi orku og það séu mörg tækifæri til frekari vaxta á Suðurnesjum og nágrenni. Áskoranir hafi vissulega verið í ferlinu við endurbæturnar og uppsetningu nýs orkuvers í eldgosaógn en nýja 55 MW vélasamstæðan er jafnframt stærsti gufuhverfill landsins og afkastagetan jókst um tuttugu megabæt.
Framundan eru möguleikar á virkjun svæða í Krýsuvík og við Eldvörp en uppbygging atvinnulífs á Suðurnesjum er mikil og henni þurfi að mæta.
Aðspurður um varnargarðanna sem hafa varið orkuver og húsnæði HS Orku í Svartsengi segir Tómas hafa komið berlega í ljós og þó kostnaður hafi verið mikill við gerð þeirra, sé það margfalt ódýrara en ef þeir hefðu ekki varið svæðið og afleiðingar verið mjög alvarlegar ef starfsemin hefði stöðvast í Svartsengi með tilheyrandi áhrifum í samfélaginu og atvinnulífinu.
