Loksins kaffihús í Keflavík
„Það er óhætt að segja að KEF Café sé svar við kallinu frá bæjarbúum,“ segir Lilja Karen Steinþórsdóttir, aðstoðarhótelstjóri og markaðsstjóri á Hótel Keflavík, þegar hún er spurð hvað hafi kveikt hugmyndina að nýju kaffihúsi á hótelinu. „Í langan tíma hefur verið talað um að það vanti kósý, notalegt og fallegt kaffihús í Keflavík. Stað þar sem heimafólk geti hist, stoppað aðeins og notið góðra veitinga. Við ætluðum að taka þetta verkefni að okkur af alvöru og gera eitthvað sem bætir bæjarlífið okkar. Núna opnum við loksins hurðirnar að KEF Café.“
KEF Café er opið alla daga frá 05:00 til 17:00 og býður upp á hágæða kaffidrykki, nýbakað bakkelsi, sæta bita með kaffinu, og hið margrómaða morgunverðarhlaðborð Hótels Keflavíkur. „Við byrjum einfalt og vel,“ segir Lilja Karen. „Við viljum gera einn hlut í einu af fagmennsku en planið er að stækka þetta skref fyrir skref. Ef bæjarbúar eru ánægðir, og ef þetta verður sá vinsæli samverustaður sem við vonum, þá sjáum við fram á að þróa úrvalið miklu meira.“
Hún útskýrir að framhaldið gæti orðið afar skemmtilegt: „Við erum með fullt af hugmyndum. Næst á dagskrá er ‘High Tea’ upplifun þar sem gestir gætu notið te- og kaffisamsætis eða freyðivíns, smurð brauð, súpur, vöfflur, meira úrval af bakkelsi og alls konar smáréttum. Við erum opin fyrir hugmyndum bæjarbúa og viljum vinna út frá því sem fólk vill. Þetta er kaffihús fyrir samfélagið - ekki bara fyrir okkur.“
Skýr framtíðarsýn
Framtíðarsýnin er líka skýr: „Draumurinn er að samræma kaffihúsið og fallega Vatnsneshúsið við Hótel Keflavík, þannig að þessi tvö rými geti unnið saman í skapandi og fjölbreyttum rekstri. Þetta eru hugmyndir á teikniborðinu, en við ætlum að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.“
Umhverfið í KEF Café er hlýlegt, sjarmerandi og einstaklega vel hannað. Barsvæðið og glerskálar nýtast vel fyrir kaffihúsagesti yfir daginn, fullkomið fyrir létt spjall, vinahittinga, smá vinnu í tölvunni eða létta vinnufundi. „Við sjáum mikið af saumaklúbbum, vinahópum og fólki sem vill gera sér dagamun og hittast á notalegum stað,“ segir hún. „Glerskálinn er líka til dæmis hentugur fyrir foreldra í orlofi, þau geta lagt barnavagninn rétt fyrir utan glerið og setið í ró og næði með kaffibolla á meðan fylgst er með barninu. Svo þjónustum við að sjálfsögðu líka þá sem vilja bara rétt stökkva inn, grípa kaffi og krúðerí með sér út í daginn.“
Morgunverðarhlaðborð Hótel KEF er landsþekkt og afar vinsælt: „Við erum mjög stolt af úrvalinu okkar í morgunmat og viljum hvetja bæjarbúa til að nýta sér þetta oftar,“ segir Lilja Karen. „Hlaðborðið byrjar klukkan 05:00 og er frábær byrjun á deginum fyrir alla og er nýtt óspart af meðlimum KEF SPA meðlimaklúbbsins svo eitthvað sé nefnt. Það er fátt betra en að hefja daginn á góðri æfingu, skella sér í gufu og enda svo á hollum og góðum morgunmat.“
Markmiðið alltaf að hugsa lengra
Hún bætir við að það sé alltaf markmið KEF að hugsa lengra, gera betur og koma með nýjar hugmyndir: „Við reynum stöðugt að stíga út fyrir þægindarammann og þróa þjónustuna áfram. Við viljum þjóna bæjarbúum, gestum hótelsins og öllum sem vilja eiga góðar stundir.“
Að lokum sendir Lilja Karen hlýja jólakveðju:
„Ég býð alla hjartanlega velkomna á KEF Café. Þetta er yndisleg heimsókn í jólaösinni, að ganga um fallega bæinn okkar, koma inn í kósý og hátíðlegt rými, fá sér heitt súkkulaði og einn sætan mola og njóta augnabliksins.
Svo ég vitni nú í hann afa minn heitinn, Jón William Magnússon, sem stofnaði hótelið ásamt föður mínum, en hann hafði alltaf þessi einföldu og fallegu orð að leiðarljósi: Höfum gaman saman. Það er einmitt stefnan okkar hér á KEF - að skapa fleiri tækifæri til að njóta samverunnar og hafa gaman saman. Gleðilega hátíð.“









