Þriðjudagur 2. desember 2025 kl. 11:40

Grindavík sækir um 250 milljónir í endurgerð við íþróttahúsið

– vonir bundnar við skólastarf næsta haust

Á tíunda upplýsingafundi Járngerðar á Teams 1. desember var greint frá því að Grindavíkurbær hefur sótt um 250 milljóna króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að umbreyta svæðinu í kringum íþróttahúsið í lifandi samkomu- og ferðamannasvæði. Jafnframt var farið yfir stöðu mála í raforkumálum, húsnæðismálum og þjónustu við íbúa.

Stórt ferðamannaverkefni við íþróttahúsið

Eggert S. Jónsson kynnti hugmyndir um að nýta svæðið í kringum íþróttahúsið bæði sem ferðamannastað og samkomustað fyrir íbúa. Svæðið verður mótað upp á nýtt samhliða viðgerðum á sprungunni sem fara af stað í vetur. Ef styrknum verður úthlutað er stefnt að framkvæmdum næsta sumar. Heildarkostnaður fyrsta áfanga er um 315 milljónir króna og sækir bærinn um 250 milljónir úr sjóðnum, sem væri hæsti styrkur sem úr honum hefur verið veittur til þessa.

Verkefnið er hugsað sem hluti af stærri langtímaáætlun um uppbyggingu svæða sem tengjast hamförunum, bæði við varnargarðana og innanbæjar í Grindavík.

Endurteknar rafmagnstruflanir skapa óöryggi

Fundarmenn lýstu áhyggjum af endurteknum rafmagnstruflunum í bænum í haust. Fram kom að kapallinn austur eftir bænum sé um 50 ára gamall og þoli illa álag og spennupúlsa í kerfinu. Fundarmenn töldu ólíðandi að búa við slíkt ástand og sögðu brýnt að gera endurnýjun lagnarinnar að forgangsmáli, ekki síst með hliðsjón af starfsemi fyrirtækja í bænum.

Fulltrúar bentu á að þó nóg rafmagn sé í augnablikinu sé traustið á innviðum lítið og að núverandi fyrirkomulag sé aðeins „skásta lausnin við þessar aðstæður“.

Húsnæðismál: Þórkatla undirbýr heildarpakka

Á fundinum var einnig farið yfir stöðu húsnæðismála og undirbúning Þórkötlu að kynningu í janúar. Þar á að leggja fram heildarpakka um úthlutun húsnæðis og möguleika Grindvíkinga til að snúa aftur.

Fram kom að unnið sé að því að deila húsum sem eigendur sjá sér ekki fært að flytja aftur í, til þeirra sem hafa orðið fyrir tjóni og þurfa húsnæði. Þeir sem eiga hús eiga að fá forgang í önnur hús og sveigjanleiki verður gagnvart þeim sem vilja stækka eða minnka við sig.

Einnig var áréttað að öllum húseigendum verði gefinn kostur á að fá hús sín aftur, jafnvel þótt þeir hafi áður „hakað sig út úr kerfinu“, þar sem margir hafi verið í erfiðu andlegu ástandi þegar þeir tóku fyrstu ákvörðun.

Markmiðið: Skóli, leikskóli og þjónusta heim í bæinn

Guðbjörg Eyjólfsdóttir og aðrir fundarmenn lögðu áherslu á að forgangsverkefnin við endurkomu íbúa séu skóla- og leikskólamál og þjónusta við eldra fólk. Vonast er til að hægt verði að hefja skólastarf í Grindavík næsta haust, ef náttúruöflin leyfa, og að núverandi og næsta bæjarstjórn hafi það sem sameiginlegt markmið, í samvinnu við Grindavíkurnefnd.

Jafnframt var rætt að beðið sé eftir áramótum og ákvörðunum Þórkötlu um næstu skref í húsnæðismálum, þar sem margir séu að undirbúa endurkomu og búast megi við lífi og fjöri í bænum um áramót.

(Á forsíðumynd myndskeiðs er ljósmynd Jóns Steinars Sæmundssonar af Guðbjörgu GK að koma til Grindavíkur á dögunum).