Mikilvægt að fá þetta aukna framboð inn á kerfið - segir orku- og umhverfisráðherra
„Þetta er mikilvægur áfangi í sögu HS Orku og jarðhitasögunni. Þetta er mikilvæg stækkun sem er þarna komin inn á kerfið og HS Orka heldur á mjög stórum og mikilvægum virkjunarkostum í rammaáætlun og mikilvægt að fyrirtækið sýni þetta frumkvæði,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, orku, umhverfis- og loftslagsmálaráðherra eftir vígslu á nýju orkuveri HS Orku í Svartsengi á fullveldisdaginn, 1. desember sl.
Ráðherra segir gríðarlega mikilvægt að fá þetta aukna framboð inn á kerfið. „Og viðeigandi að stækkað orkuver sé vígt á fullveldisdaginn vegna þess að fullveldið snýst ekki bara um pólitískt sjálfstæði heldur líka, það er það sem við getum beislað og reitt okkur á okkar eigin krafta og okkar eigin endurnýjanlegu orku. Það er það sem við erum að gera.
Starfsfólk og stjórnendur HS Orku hafa sýnt alveg ótrúlega þrautseigju núna á á tímum mikillar óvissu og eldhræringa. Það er bara alveg aðdáunarvert.“
Þú hefur sýnt það í þinni ráðherratíð að þú ert fylgjandi frekari virkjun á Íslandi. Þannig að hér, hér, hér eru hlutir að gerast og svona, hvernig metur, meturðu þetta í heildarmyndinni?
„Já, það er mikið í pípunum t.d. í Eldvörpum, Krýsuvík og heilmikið í gangi og ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur auðvitað mjög mikla trú á jarðvarmanum og jarðhitanýtingu almennt. Þess vegna erum við búin að fara í stærsta jarðhitaátak ríkisins á þessari öld. Þess vegna erum við að einfalda regluverk þegar kemur að jarðborunum. Við erum að rýmka matsskyldumörkin þegar kemur að umhverfismati vegna jarðborana. Svo erum við að móta loksins jarðhitastefnu til framtíðar sem hefur vantað, sem snýst þá um að styrkja samkeppnishæfni Íslands á sviði jarðhitanýtingar.“
Það hefur komið upp svona umræða um það, hversu mikilvægt það hafi verið að byggja þessa varnargarða. Og menn hafa jafnvel haft misjafnar skoðanir á því. Það sýndi sig kannski sannarlega hversu mikilvægir þeir hafa verið?
„Þetta var rétt og mikilvæg ákvörðun að verja orkuverið hérna, það skipti gríðarlegu máli.“
Ertu svona bjartsýnn þegar þú horfir yfir orkumálin almennt?
„Já, ég er mjög bjartsýnn á framtíðina og núna í morgun voru einmitt Landsnet, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Orkustofnun að kynna í fyrsta skipti sameiginlega orkuspá til ársins 2050. Þar er það dregið mjög vel fram hvernig við höfum í raun alla burði til þess að ná bara þokkalegu jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á raforkumarkaði. Við þurfum að halda vel á spöðunum. Þá þurfum við að klára rammaáætlunartillögurnar sem ég hef komið með inn í þingið og halda áfram að einfalda regluverk og ryðja burtu hindrunum. Þetta er allt í góðum farvegi.“
