Aðventuljósaganga og ljósin tendruð á jólatrénu síðdegis
Opnunarkvöld Aðventugarðsins fer fram nú síðdegis, fimmtudaginn 4. desember, og hefst með Aðventuljósagöngu, sem er haldin í samstarfi við lýðheilsuráð Reykjanesbæjar.
„Við hittumst í Aðventugarðinum kl. 16:45 þar sem hægt verður að fá ljósabönd, gjöf frá Kapalavæðingu á meðan birgðir endast. Gestir eru þó hvattir til að mæta með eigin ljósgjafa, luktir, vasaljós, ljósaseríur eða aðra jólalega lýsingu.
Gangan hefst kl. 17:00 og verður leidd af jólasveini um miðbæinn. Á leiðinni má búast við skemmtilegum uppákomum og góðri stemningu. Göngunni lýkur í Aðventugarðinum þar sem ljósin á jólatrénu verða tendruð kl. 18:00. Að lokinni tendrun verður öllum boðið upp á heitt kakó og piparkökur og hægt verður að kíkja í sölukofana sem opnir verða til kl. 21:00 með spennandi varningi,“ segir í tilkynningu.
Aðventusvellið í fullum gangi
Aðventusvellið verður opið frá kl. 17–21 á opnunarkvöldinu og bíður gestum upp á einstaka upplifun undir nýju tindrandi ljósaþaki og jólatónlist. Þar geta fjölskyldur átt saman gleðilegar stundir í útivist og hreyfingu.
Opið er á svellinu um helgar í nóvember og frá föstudegi til sunnudags í desember auk þess sem tækifæri er til þess að halda afmælisveislur á svellinu og bóka ýmsa hópeflis- og viðburðapakka. Hægt er að kaupa áskrift að svellinu og nýta má frístundastyrk Reykjanesbæjar til þess. Allar nánari upplýsingar um opnunartíma og bókanir eru á adventusvellid.is
Kósýkvöld Betri bæjar
Samhliða opnuninni stendur Betri bær fyrir kósýkvöldi þar sem verslanir og veitingastaðir bjóða upp á frábær tilboð og notalega aðventustemningu.
Verslanir verða opnar til kl. 22:00 og er þetta kjörið tækifæri til að gera jólainnkaupin í heimabyggð og njóta samveru í hlýlegu umhverfi.
Þeir sem versla hjá fyrirtækjum Betri bæjar á kósýkvöldinu geta tekið þátt í glæsilegu happdrætti og í vinning eru átta gjafakort, hvert að verðmæti 20.000 krónur





