Fjárhagsáætlun samþykkt í Reykjanesbæ
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2026-2029 var samþykkt í gær við síðari umræðu með sjö atkvæðum bæjarfulltrúa meirihlutans Bjarna Páls Tryggvasonar (B), Díönu Hilmarsdóttur (B), Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur (B), Helgu Maríu Finnbjörnsdóttur (Y), Hjartar Magnúsar Guðbjartssonar (S), Sigurrósar Antonsdóttur (S) og Sverris Bergmanns Magnússonar (S).
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson og Margrét Þórarinsdóttir Umbót, sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Við samþykkt áætlunarinnar voru lagðar fram langar og miklar bókanir frá bæði meiri- og minnihluta. Hér að neðan er stiklað á stóru úr þeim.
Hærri skattar, litlar fjárfestingar, vanáætlaður rekstur
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Umbótar í Reykjanesbæ sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar bæjarins fyrir árið 2026. Þau segja áætlunina byggja á hærri sköttum, litlum fjárfestingum og vanáætluðum rekstri, en telja þó að hún innihaldi nokkur jákvæð atriði sem þau styðji.
Meðal þess sem þau fagna eru 10% launalækkun sviðsstjóra og bæjarstjóra frá og með 2026, að leikskólinn Drekadalur verði loks tekinn í fulla notkun á næsta ári, aukinnar uppbyggingar félagsmiðstöðva í hverfum og framkvæmda við gangbrautir og innviði í Ásahverfi. Þá telja þau 4,1% hækkun fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði falla innan verðbólguspár, þrátt fyrir að það samræmist ekki þeirra markmiðum.
Hins vegar gagnrýna þau meðal annars 15,4% tekjuaukningu af fasteignaskatti á fyrirtæki sem þau segja draga úr samkeppnishæfni atvinnulífsins, raunlækkun stuðnings við íþróttafélög og mikla hækkun launakostnaðar Bókasafns Reykjanesbæjar. Þá sé of lítið fjárfest í aðstöðu knattspyrnufélaganna í Keflavík og Njarðvík og ekki gert ráð fyrir bakvarðasveit í leikskólum þrátt fyrir fyrri samþykkt bæjarstjórnar.
Fulltrúarnir telja rekstrarkostnað bæjarins verulega vanáætlaðan og benda á að vinna við fjárhagsáætlun hafi hafist seint og samráð verið takmarkað. Þau segja ábyrgð á áætluninni alfarið hjá meirihluta Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar og vonast til að næsti meirihluti eftir sveitarstjórnarkosningar 2026 tryggi vandaðri og gagnsærri vinnu við gerð fjárhagsáætlana.
Undir bókunina skrifa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Umbótar.
Meirihluti samþykkir fjárhagsáætlun með stolti
Meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir yfir ánægju með fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árin 2026–2029, sem samþykkt var í síðari umræðu. Í bókun meirihlutans segir að áætlunin sé afrakstur umfangsmikillar og markvissrar vinnu sem byggi á ábyrgri fjármálastjórn, skýrri forgangsröðun og traustum rekstri, í samhengi við ört vaxandi sveitarfélag.
Áætlunin gerir m.a. ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu, stöðugri framlegð og áframhaldandi fjárfestingum í innviðum. Lögð er sérstök áhersla á að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði úr 0,25% í 0,23%, ásamt frekari lækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði, án þess að skerða grunnþjónustu. Meirihlutinn bendir á að 9 mánaða uppgjör ársins 2025 staðfesti heilbrigðan rekstur og að veltufé frá rekstri geri kleift að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir.
Í fjárfestingaáætlun 2026 er meðal annars gert ráð fyrir fullnuma opnun leikskólans Drekadals, áframhaldandi endurbyggingu Myllubakkaskóla og Holtaskóla, endurbótum á leikskólum, undirbúningi nýs leikskóla í Heiðarhverfi, opnun 80 rýma hjúkrunarheimilis við Nesvelli, auknu viðhaldi fasteigna og fjárfestingu í mennta-, íþrótta- og menningarmannvirkjum. Þá er áhersla lögð á eflingu félagsþjónustu, sértæk úrræði fyrir börn og fjölskyldur, stuðning við íþrótta- og tómstundastarf, bætta umferðaröryggisinnviði og aukinn strætisvagnaakstur.
Meirihlutinn segir fjárhagsáætlunina bera vitni um trausta fjármálastjórn, framsækna uppbyggingu og sameiginlega framtíðarsýn fyrir ört stækkandi samfélag og þakkar starfsfólki sveitarfélagsins fyrir vandaða vinnu. Undir bókunina skrifa fulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Gagnrýnir fjárveitingar til velferðarmála
Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar í Reykjanesbæ, leggur þunga áherslu á að velferðarmál séu verulega vanfjármögnuð í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árin 2026–2029. Hún bendir á að einungis um 14% skatttekna renni til velferðarsviðs, sem sé mun lægra hlutfall en hjá sambærilegum sveitarfélögum, og komi nú fram í lengri biðlistum, manneklu og auknum áskorunum í þjónustu við börn og fjölskyldur.
Í bókun hennar kemur fram að velferðarsvið hafi óskað eftir auknu fjármagni til að mæta raunverulegri þörf, meðal annars til málstjóra í barna- og fjölskylduteymi, meiri aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, innleiðingar Vináttuþjálfunar og uppbyggingar skammtímavistunar fyrir fötluð börn. Engin þessara tillagna rataði inn í drög að fjárhagsáætlun. Umbót telur það alvarlegt að ekki sé hlustað á fagfólk og varar við því að skortur á snemmtækri þjónustu og forvörnum geti leitt til meiri og dýrari vandamála síðar. Hún hvetur til endurskoðunar á fjárveitingum til velferðarmála með raunverulegar þarfir íbúa að leiðarljósi.
Bókanir í heild sinni má lesa hér.






