Jólaálfurinn seldur til stuðnings sálfræðiþjónustu barna hjá SÁÁ
Sala á Jólaálfi SÁÁ stendur yfir frá 3. til 7 desember og er tekjum af sölunni ætlað að styðja við sálfræðiþjónustu barna hjá samtökunum. Sálfræðiþjónusta SÁÁ er fyrir börn 8-18 ára sem alast upp við fíknsjúkdóm á heimilinu.
Mikil eftirspurn er eftir þjónustunni, sem SÁÁ niðurgreiðir með sjálfsaflafé. Árlega sinnir SAÁ um 200 börnum auk þess að veita foreldrum og fjölskyldum fræðslu og stuðning.
Með sálfræðiþjónustunni hjálpar SÁÁ börnunum til að takast á við erfiðar tilfinningar, skömm, reiði, áhyggjur og vanmátt sem fylgir því að fullorðinn á heimilinu glími við fíknsjúkdóminn.
Börnin fá fræðslu við hæfi um fíknsjúkdóminn og leiðir til að vinna með kvíða og tilfinningar semtengjast því að alast upp við slíkar aðstæður. Viðtölin miða að því að styrkja sjálfsmynd barnanna og stuðla í leiðinni að forvörnum enda geta börnin sjálf verið í hættu að þróa með sér fíknsjúkdóminn.
(Frétt frá SÁÁ).




