Íbúar fluttir af Hlévangi á nýtt hjúkrunarheimili
Stór tímamót urðu hjá íbúum Hlévangs í gær þegar þeir fluttu yfir á nýtt hjúkrunarheimili við Krossmóa. Flutningarnir gengu vel og voru allir íbúar komnir á nýja heimilið á innan við tveimur klukkustundum.
Að sögn starfsfólks er húsið fallegt og vel hannað og er vonast til að bæði íbúum og starfsfólki muni líða jafn vel á nýja heimilinu og þeim leið á Hlévangi. Þá er aðbúnaður sagður mjög góður, bæði fyrir íbúa, starfsfólk og aðstandendur.
Áætlað er að fyrir jólin flytji 40 íbúar inn á 3. og 4. hæð hússins, en í lok janúar verði búið að taka allar hæðir í notkun.
Nýja heimilið skiptist í tvær 40 íbúa hjúkrunardeildir.
Á 1. og 2. hæð verður hjúkrunardeildin Nes með fjórum einingum; Hvalsnes og Keilisnes á 1. hæð og Stafnes og Hópsnes á 2. hæð.
Á 3. og 4. hæð verður hjúkrunardeildin Fell, þar sem einingarnar Lyngfell og Skógfell verða á 3. hæð og Hagafell og Stapafell á 4. hæð.
„Við tókum góða Hlévangs-andann með okkur á nýja heimilið og vonum að við eigum öll eftir að eiga dásamlegar gæðastundir saman á nýja heimilinu,“ segir í færslu frá Hrafnistu–Hlévangi á fésbókinni.







