Hátíðleg haustútskrift Fisktækniskóla Íslands
Í gær fór fram haustútskrift Fisktækniskóla Íslands í húsnæði skólans í Suðurnesjabæ á hátíðlegri stund. Þar sem nemendur koma að náminu alls staðar af landinu er ekki hægt að búast við fullri mætingu í hús við útskrift en þó voru heilmargir nemendur sem mættu í sal og tóku fagnandi á móti útskriftarskírteinum sínum.
Pálmi Hafþór Ingólfsson, verkefnastjóri fræðslu og heilbrigðis hjá Brim hf. Hélt ræðu, en Brim er eitt af fjölmörgum fyrirtækjum innan bláa hagkerfisins sem Fisktækniskólinn á í stöðugu og góðu samstarfi við varðandi menntun starfsfólks, fyrirtækjaþjónustu með fræðslumál almennt og vegna vinnustaðaheimsókna og vinnustaðanáms sem okkar nemendur stunda.
Helder Araújo útskriftarnemi úr Gæðastjórnun hélt frábæra ræðu fyrir hönd útskriftarnema og Ásdís Vilborg Pálsdóttir hélt ræðu fyrir hönd starfsfólks skólans.
Klemenz Sæmundsson skólameistari hélt skemmtilega ræðu með áherslu á það hversu ólík upplifun það er eftir aldri hversu hratt tíminn líður. Þeim yngstu finnst þau hafa allan tímann í veröldinni en þau eldri upplifa gjarnan að tíminn rjúki hjá. Hann afhenti útskriftarskírteini og sleit svo haustönn 2025.
Alls útskrifuðust 55 nemendur af eftirfarandi brautum:
Fisktækni – Sem er grunnnámið okkar: 6 útskrifuðust
Af framhaldslínum okkar undir Haftendri auðlindatækni voru 24 nemendur sem luku eftirfarandi brautum:
Fiskeldistækni: 7 nemendur
Gæðastjórnun: 17 nemendur
Úr Veiðarfæratækni (áður nefnt netagerð) sem er löggild iðngrein: 2 nemendur
Og loks eru tveir hópar að ljúka Smáskipanámi; 13 nemendur úr Skipstjórn <15m og 11 nemendur úr Vélstjórn <15m (750kW).
Fisktækniskólinn óskar útskriftarnemum innilega til hamingju með áfangann.




