Keflvíkingur í húð og hár
Marta Eiríksdóttir gaf út sína fyrstu bók í samstarfi við Víkurfréttir árið 2012. Það var bókin Mei mí beibísitt? - Æskuminningar úr bítlabænum Keflavík, sem er söguleg sjálfsævisaga Mörtu.
Hún ólst upp á þeim tíma sem langflestir amerískir hermenn og fjölskyldur þeirra leigðu húsnæði í Keflavík vegna húsnæðisskorts á Vellinum.
Bókin þykir lýsa vel tíðaranda bæjarins á sjöunda áratugnum, þá sérstaklega út frá sjónarhorni barna og ungmenna en bókin hefur í raun menningarsögulegt gildi fyrir sögu Keflavíkur. Horfin er sú veröld í dag.
Grunnskólar á Suðurnesjum eiga bekkjarsett af bókinni og hefur hún verið notuð í íslenskukennslu á mið- og unglingastigi. Bókina má einnig finna á bókasöfnum og á Storytel.
Í dag er þessi fyrsta bók Mörtu löngu uppseld ásamt öllum öðrum útgefnum bókum hennar, nema sú nýjasta sem kom út í byrjun sumars og nefnist Þjáningin er fæðingarhríð skilningsins.
Marta Eiríksdóttir er afkastamikill rithöfundur og hefur gefið út sjö bækur frá árinu 2012. Hún og eiginmaðurinn, Friðrik Þór Friðriksson, rafvirkjameistari, standa saman að Bókaútgáfunni Dirrindí.
Okkur lék forvitni á að vita hvort Marta væri eingöngu að sinna skriftum í dag?
„Nei, nei, ég kenni einnig jóga fyrir konur og held fyrirlestra um kraft gleðinnar og jákvæðrar hugsunar. Stundum þegar mér finnst tilveran þurfa smá krydd þá bý ég einnig til viðburði sem gleðja konur,“ svarar Marta með bros á vör, enda stundum titluð gleðiþjálfi.
Hvenær byrjaðir þú að skrifa?
„Ég hef skrifað frá því að ég var lítil stelpa og vildi helst fá myndabækur svo ég gæti skáldað sjálf söguna í bókinni. Mamma mín var mikill áhrifavaldur minn í bernsku og hjálpaði mér af stað með að skrifa. Hún var einnig minn uppáhalds prófarkalesari þegar ég byrjaði að skrifa í blöðin á þrítugsaldri, til dæmis í Víkurfréttir. En það ævintýri varð til þegar ég fékk nóg af umfjöllun blaðanna um skrílslæti unglinga í bæjarfélaginu og þrammaði til Emils Páls Jónssonar, blessuð sé minning hans, og kvartaði.
Hann tók mig á orðinu og bað mig um að skrifa eitthvað jákvætt í Víkurfréttir, sem ég og gerði næstu árin. „Lífið í bænum“ varð til, þar sem ég leitaði uppi hvunndagshetjur, venjulegt fólk sem var að gera góða hluti. Fleiri verkefni féllu mér einnig í skaut hjá blaðinu en allt í aukavinnu því ég var grunnskólakennari á þessum árum. Þetta varð allt til þess að þjálfa vel upp ritfærni mína.“
Hvers vegna ertu sjálf að gefa út bækur?
„Það fylgir því mikið frelsi að gefa sjálf út þar sem ég ræð því algjörlega hvað ég skrifa um og segi í bókunum mínum. Það er svo margt sem ég vil segja sem kannski enginn annar hefur sagt í prentaðri bók.
Ef ég finn að einhver skilaboð þurfa að berast til almennings þá læt ég það flakka. Ég skrifa nefnilega alls konar bækur, ekki eingöngu skáldsögur. Bækurnar mínar stíla inn á að skapa vellíðan hjá lesendum og stundum langar mig að fræða fólk sem er að leita að hjálp. Þær bækur getum við flokkað sem sjálfshjálparbækur en þær byggja á minni eigin lífsreynslu. Þar kem ég hreint til dyranna því einlægni gefur lesendum mest,“ segir Marta.
Hvers vegna ertu að skrifa um þjáninguna núna?
„Nýja bókin mín er eins konar þroskasaga keflvískrar stúlku. Þar skrifa ég um lífið og þegar okkur finnst það bregðast við í formi veikinda og erfiðleika. Þetta er samt alls ekki grenjubók heldur þvert á móti, bók sem gefur lesendum von og bjartsýni þegar lífsins ólgusjór brýtur á bátnum okkar.
Ég byrjaði að skrifa þessa bók haustið 2011 þegar við hjónin vorum nýflutt til Noregs en þar bjuggum við til ársins 2018. En það var einmitt í Noregi sem ég byrjaði að skrifa bækurnar mínar því þar hafði ég svo mikinn frið og tíma. Við þekktum fáa, vorum mikið ein í frístundum og ég vann aðeins hlutastarf í leikskóla. Þess á milli skrifaði ég.
Í Noregi var ég að takast á við Lyme, erfiðan sjúkdóm vegna skordýrabits, og varð mjög veik. Þegar læknar kunnu engin ráð fór ég sjálf að leita að leiðum til að lækna mig og er frísk í dag. Bókin spannar nokkur ár frá barnæsku í Keflavík til fullorðinsára í gegnum alls konar lífsins verkefni, öll lærdómsrík. Lífið er stundum þannig að við þurfum að fara í gegnum þjáninguna til að skilja hvað er í gangi. Oft sjáum við það ekki fyrr en eftir á.“
Eru fleiri bækur á leiðinni frá þér?
„Þegar stórt er spurt. Nýjasta bókin mín hefur fengið mjög góða dóma frá lesendum. Fólk er duglegt að láta mig vita og það þykir mér mjög vænt um. Lesendahópurinn fer stækkandi sem les bækurnar mínar og það hvetur mig til að halda áfram að skrifa. Það er því aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.
Kannski fer ég af stað með nýtt námskeið fyrir fólk sem langar til að skrifa? Fólk sem jafnvel er komið með hugmynd að bók en vantar stuðning og hvatningu til að gefa sjálft út, vera frjálst undan áliti annarra og fylgja aðeins sínu eigin hjarta. Ég held að við eigum eftir að sjá fleiri svoleiðis bækur í framtíðinni, sem eru skrifaðar af venjulegu fólki, eins og þér og mér. Við höfum öll merkilega sögu að segja.“




