Reykjanesbær aðventugarðurinn
Reykjanesbær aðventugarðurinn

Mannlíf

Ævisaga séra Braga komin út - þjónaði á Keflavíkurflugvelli 1964-66 og í Kálfatjarnarsókn 1966-97
Sunnudagur 21. desember 2025 kl. 06:01

Ævisaga séra Braga komin út - þjónaði á Keflavíkurflugvelli 1964-66 og í Kálfatjarnarsókn 1966-97

Á dögunum var bókin Séra Bragi - ævisaga gefin út; umfangsmikil ævisaga séra Braga Friðrikssonar, fyrsta heiðursborgara Garðabæjar og eins áhrifamesta prests landsins á sinni tíð. 

Ævisaga séra Braga Friðrikssonar er stórbrotin saga brautryðjanda og hugsjónamanns. Hann fæddist við erfiðar aðstæður, gekk í gegnum djúpar raunir en reis upp og hafði mikil áhrif á samtíð sína og framtíð. Hann þjónaði í Grænásprestakalli á Miðnesheiði frá 1964-1966 og í Kálfatjarnarsókn 1966-1997. Á sama tíma þjónaði hann í Garðasókn og Bessastaðasókn, en saman mynduðu þessar sóknir Garðaprestakall. 

Bókin, sem gefin er út af nýstofnuðu félagi, Sögufélagi Garðabæjar, er innblásin og áhrifarík frásögn af manni sem mótaði samfélag sitt og helgaði líf sitt Guði. Ævisagan er ríkulega myndskreytt en 333 myndir prýða síður bókarinnar. 

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Maður sem reis úr mótlæti og varð öðrum leiðarljós 

Séra Bragi Friðriksson kom víða við á langri ævi. Hann fæddist utan hjónabands árið 1927 og fór milli fósturheimila á Ísafirði, í Mosfellssveit, Miðfirði, á Siglufirði og Akureyri. Hann missti tvö börnin sín, veiktist alvarlega af Akureyrarveikinni og hræddist um líf sitt, en hét Guði á sjúkrabeði sínum að helga líf sitt honum ef hann fengi að lifa. 

Hann settist því á skólabekk við Háskóla Íslands og nam þar guðfræði. Þar kynntist hann Katrínu Eyjólfsdóttir sem hann kvæntist árið 1953. Sama ár vígðist hann fyrstur íslenskra presta til prestþjónustu í Kanada þar sem hann þjónaði Vestur-Íslendingum á Nýja Íslandi. Ítarlega er sagt frá dvöl þeirra vestra. Þar er meðal annars sagt frá heimsókn Gunnars Thoroddsen til þjóðarbrotsins vestra, en þá var Gunnar borgarstjóri Reykjavíkur. Hann eyddi miklum tíma með séra Braga á bílferðum þeirra milli stórvatnanna tveggja, en borgarstjórinn sá að séra Bragi væri hiklaust sá maður sem hann vildi að stýrði nýstofnuðu Æskulýðsráði Reykjavíkur.

Séra Bragi var ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri Æskulýðsráðs Reykjavíkur þar sem honum var fengið það hlutverk að skipuleggja frá grunni æskulýðsstarf borgarinnar. Hann skipulagði því það starf sem í dag er betur þekkt undir merkjum ÍTR og lagði grunn að æskulýðsstarfi sveitarfélaga á landinu öllu. 

Prestur á Keflavíkurflugvelli

Árið 1964 var séra Bragi skipaður prestur í Grænásprestakalli á Miðnesheiði og þjónaði þar Íslendingum sem störfuðu á varnarsvæðinu. Hann hafði ekki kirkju á svæðinu en fékk oft inni í Innri-Njarðvíkurkirkju fyrir söfnuð sinn. Fjallað er með ítarlegum hætti um tíma hans þar og birtar skemmtilegar myndir. Grípum beint í texta úr bókinni (bls. 233-234): 

Það vakti líka athygli að íslenskur prestur hefði verið ráðinn á Keflavíkurflugvöll. Andstæðingar herstöðvarinnar létu í sér heyra. Í Þjóðviljanum birtist grein 9. janúar 1964 sem bar heitið Herprestur. Greinin var mikil ádeila á herstöðvarreksturinn og þegar fjallað var um fækkun í starfsliði Bandaríkjamanna sagði: 

Var þetta að sögn gert í sparnaðarskyni, því þótt vörn frelsis og lýðræðis sé mikilvæg má hún að sjálfsögðu ekki kosta of marga dollara. Hins vegar munu íslenzk stjórnvöld hafa haft nokkrar áhyggjur af þessu skarði sem höggvið var í varnir landsins, og því var gripið til gagnráðstafana. Var þjóðkirkjan látin leggja til sérstakan prest til starfa á vellinum, Braga Friðriksson, og borga íslenzkir skattgreiðendur kostnaðinn af athöfnum hans, þannig að dollaranum er réttilega hlíft. Var sannarlega kominn tími til að Íslendingar eignuðust herprest, og er sízt að efa að þetta nýmæli í styrjaldartækni muni gefast mjög vel. Íslenzkir klerkar eru áður kunnir fyrir að binda endi á eldgos og hraunflóð með fyrirbænum sínum; hví skyldu þeir þá ekki einnig geta snúið við eldflaugum og hersprengjum? Það er að minnsta kosti reynandi, ekki síður en aðrar varnir.

Ekki kemur fram í annálum kirkjunnar hvort séra Braga hafi tekist að afstýra árásum sovéskra eldflauga eða komið í veg fyrir styrjöld. Flestum heimildum ber þó saman um að hann hafi staðið sig vel í starfi.

Prestur í Kálfatjarnarsókn

Séra Bragi þjónaði á Keflavíkurflugvelli í tvö ár eða til ársins 1966. Þá var hann kosinn prestur í Garðaprestakalli sem samanstóð af Garðasókn, Bessastaðasókn og Kálfatjarnarsókn. Í öllum þessum sóknum var hann mikill leiðtogi og elskaður og dáður af sóknarbörnum sínum. Hann kom að stofnun margra félaga í sóknunum öllum, stofnaði m.a. Ungmennafélagið Stjörnuna í Garðabæ og Æskulýðsfélag Kálfatjarnarsóknar. Einnig kenndi hann í Brunnastaðaskóla og síðar Stóru-Vogaskóla. Sérstakur kafli er tileinkaður þjónustu hans í Kálfatjarnarsókn. 

Hér er brot beint upp úr bókinni:

Kálfatjarnarsókn er á Vatnsleysuströnd, en Kálfatjörn er forn kirkjustaður. Þar hafa kirkjur verið allt frá árinu 1200, en sú sem stóð þar þegar séra Braga bar að garði var reist árið 1893. Kirkjan er glæsileg og er minnisvarði um tápmikið mannlíf og velmegunarskeið á Vatnsleysuströnd á 19. öld. Fljótlega fór þó að halla undan fæti á Ströndinni og árið 1907 var Kálfatjarnarprestakall lagt niður og sóknin lögð til Garða. Kálfatjörn var síðan þjónað frá Hafnarfirði 1919–66, en rann þá inn í nýstofnað Garðaprestakall.

Séra Bragi vissi að hann hafði verk að vinna þegar hann varð sóknarprestur Kálftirninga. Hann var ekki fyrsti kostur margra í sókninni og þurfti því að ávinna sér vináttu og virðingu þeirra og það gerði hann á sinn ljúfa hátt. Hann hóf störf sín með tilraun til nýbreytni. Þó hann hefði þessa glæsilegu kirkju sóknarinnar ákvað hann að fara ótroðnar slóðir í fyrstu messu sinni þar syðra. Hún var haldin 26. júní 1966 undir beru lofti á flötunum undir Vogastapa rétt fyrir utan þorpið í Vogum. Messan var haldin í samráði við skátana og var hluti af starfi þeirra, en séra Bragi lagði mikla áherslu strax í upphafi á að ná góðum tengslum milli kirkjunnar og félaganna í Vogum. Þennan dag hafði margt fólk safnast saman í góðu veðri og það nýtti séra Bragi sér til að halda sína fyrstu guðsþjónustu. „Þannig leitaði hann ávallt leiða til að nálgast sóknarbörn sín með þann boðskap sem hann talaði fyrir,“ sagði eitt sóknarbarna þegar þessarar fyrstu messu séra Braga að Kálfatjörn var minnst síðar.

Ítarlega er fjallað störf hans í Kálfatjarnarsókn, störf sóknarnefnda og annarra sem unnu með kirkjunni, kórastarfi eru gerð góð skil og nokkrar skemmtisögur fylgja með ríkulega myndskreyttri frásögn. 

Hann breytti skipan kirkjunnar – margir vildu hann sem biskup

Séra Bragi var á meðal fremstu þjóna kirkjunnar, hann var umbreytingarmaður sem breytti skipulagi hennar með störfum sínum sem prófastur Kjalarnessprófastsdæmis. Öll hans störf miðuðu að því að virkja sem flesta til þátttöku í starfi kirkjunnar. Hann var aðalhvatamaður að stofnun Hjálparstofnunar kirkjunnar og sat á kirkjuþingi um árabil. Margir vildu sjá hann sem biskup, meðal annars Sigurbjörn Einarsson biskup, en séra Bragi vildi það ekki og sagði einfaldlega: „Maður fer ekki frá Garðaprestakalli.“ Ítarlega er fjallað um það og margt annað í bókinni. 

Hann lét af störfum árið 1997, settist á skólabekk og útskrifaðist elstur manna frá Háskóla Íslands árið 2005, þá 78 ára gamall. Hann lést árið 2010. 

Séra Bragi – ævisaga fæst í verslunum Pennans Eymundsson, Hagkaup Garðabæ, Kirkjuhúsinu, Bókabúð Forlagsins og á www.serabragi.is 

VF jól 25
VF jól 25