Alltaf farið á Villa á Þorlák og rauði dúkkuvagninn eftirminnilegur
Bylgja Sverrisdóttir hársnyrtir heldur í jólahefðir
Bylgja Sverrisdóttir er upptekin kona á aðventunni, greiðandi og klippandi fólk fyrir jólin. Ein af skemmtilegustu jólaminningum hennar er þegar hún fékk rauðan dúkkuvagn og líka skíði. Hún er með fastar hefðir á Þorláksmessu og á jólum og það er áhugavert að lesa um þær.
Hvernig var árið 2025 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Árið var bara mjög gott og eftirminnilegast á síðasta ári þegar við hjónin fórum í siglingu um Miðjarðarhafið með saumaklúbbnum og mökum. Svo eyði ég alltaf miklum tíma með barnabörnunum mínum sem mér finnst mjög dýrmætt.
Ert þú mikið jólabarn?
Já, ég myndi segja það, mér finnst jólamánuðurinn alltaf notalegur tími.
Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?
Við setjum upp jólatréð svona kannski ca 2 vikum fyrir jól en þegar ég var barn var það alltaf sett upp á Þorláksmessu. Einu sinni kom ég heim og þá hafði pabbi verið að nota vaktarfríið og setti upp jólatréð alveg viku fyrir jólin og ég var ekki sátt.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir, áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Ég var örugglega orðin 5-6 ára gömul. Þá fékk ég rauðan dúkkuvagn og gat farið út að labba með mömmu, þá var Sverrir Þór bróðir nýfæddur í vagni.
Ein góð jólaminning frá barnæsku er þegar ég fór með mömmu í Sparkaup að kaupa jólaölið, þá fórum við með tvo tóma kassa af glerflöskum. Við fengum svo heilan kassa af kók í gleri, hálfan kassa af appelsíni og hálfan af Malti. Á þessum tíma fékk maður bara gos á hátíðisdögum.
En eru skemmtilegar jólahefðir?
Ein skemmtileg jólahefð sem við fjölskyldan höfum er að kvöldmaturinn á Þorláksmessu er alltaf tekinn á Villa. Svo eru hefðbundin jólaboð hjá fjölskyldunni. Svo hefur síðustu 10 árin verið hefð að við systkinin ásamt fjölskyldum og mömmu hittumst á aðfangadag við leiði pabba.
Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
Ég er alltaf búin að kaupa jólagjafirnar mjög snemma því ég er hársnyrtir og alltaf nóg að gera hjá mér í vinnunni í desember.
Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?
Jólaísinn og malt og appelsín
Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?
Ég verð að nefna skíðagræjur sem ég fékk frá mömmu og pabba og mér lá svo á að fara út að skíða og skíðaskórnir voru alltof litlir á mig. En auðvitað sagði ég ekki frá því, þá hefði ég ekki fengið að fara út að skíða.
Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?
Jólahjól.
Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?
The Holiday.
Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?
Heima á Íslandi, það er svo dýrmætt að vera með fjölskyldunni á þessum tíma.
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
Nei, ég er aldrei með neinn óskalista, mér finnst sælla að gefa en að þiggja.
Hvað verður í jólamatnum hjá þér á aðfangadagskvöld?
Við erum með hamborgarhrygg með öllu tilheyrandi.
Eru hefðir í mat?
Síðan ég byrjaði að búa 19 ára gömul þá höfum við haft hamborgarhrygg en ég ólst sjálf upp við rjúpur og sakna þess svolítið að fá þær ekki.
Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?
Rækta meira samband við vini og fjölskyldu. Í nútímasamfélagi eru allir svo uppteknir að það eru allir hættir að kíkja í heimsóknir.
Hér eru nokkrar fjölskyldumyndir frá Bylgju.











