HS Orka
HS Orka

Fréttir

77% Suðurnesjamanna búa í Reykjanesbæ
Mánudagur 22. desember 2025 kl. 08:51

77% Suðurnesjamanna búa í Reykjanesbæ

Frá árinu 2019 og til 1. nóvember 2025 hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað úr 27.825 í 31.879. Heildaraukningin nemur 4.054 manns, eða um 14,6 prósent. Nýjustu tölur Þjóðskrár sýna þó að þróunin er afar ólík milli sveitarfélaga: þrjú þeirra vaxa hratt, en Grindavíkurbær hefur misst um þrjá fjórðu íbúa sinna frá 2019.

Reykjanesbær er langstærsta sveitarfélag Suðurnesja og hefur verið drifkraftur íbúafjölgunar á svæðinu undanfarin ár. Fjöldi íbúa fer úr 19.423 í lok árs 2019 í 24.640 þann 1. nóvember 2025. Það jafngildir fjölgun um 5.217 manns, eða um 26,9 prósent.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Á hverju einasta ári á tímabilinu bætast við íbúar og hlutur bæjarins í heildaríbúum Suðurnesja fer úr um 70 prósentum í rúm 77 prósent. Þannig hefur Reykjanesbær orðið sífellt ráðandi í byggðamynd svæðisins.

Í Grindavík var hæg og stöðug fjölgun íbúa árin 2019–2023. Íbúum fjölgaði þá úr 3.508 í 3.720; aukning um ríflega 6 prósent. Þann 10. nóvember 2023 urðu hins vegar þáttaskil þegar bærinn var rýmdur vegna náttúruhamfara og yfirvofandi eldgoss. Síðan þá hefur Grindavík ekki náð vopnum sínum.

Samkvæmt tölum Þjóðskrár fellur íbúafjöldi úr 3.720 í lok árs 2023 niður í 1.408 í lok árs 2024 og áfram í 894 íbúa 1. nóvember 2025. Heildarfækkun frá 2019 nemur um 2.614 manns, eða 74,5 prósent.

Hlutur Grindavíkur af heildaríbúum Suðurnesja hefur þar með hrunið úr um 12,6 prósentum í aðeins um 2,8 prósent. Bærinn, sem áður var meðalstór á svæðinu, er nú orðinn eitt fámennasta bæjarfélag landsins.

Sveitarfélagið Vogar hefur á sama tíma gengið í gegnum mikinn vöxt. Þar fjölgar íbúum úr 1.308 í lok árs 2019 í 1.961 íbúa 1. nóvember 2025, aukning um 653 manns, sem jafngildir nær 50 prósenta fjölgun.

Fyrstu árin er vöxturinn hægur, en eftir 2022 tekur hann verulega við sér. Á milli 2022 og 2023 bætast við rúmlega 170 íbúar og frá 2023 til hausts 2025 um 395 íbúar til viðbótar. Hlutur Voga af heildaríbúum Suðurnesja fer úr 4,7 prósentum í rúm 6 prósent.

Suðurnesjabær sýnir jafnframt stöðuga fjölgun allan tímann. Íbúar voru 3.586 í lok árs 2019 en eru orðnir 4.384 í byrjun nóvember 2025. Það er fjölgun um 798 manns, eða rúm 22 prósent.

Engin ár á tímabilinu sýna samdrátt; bærinn bætir við sér íbúum á hverju ári. Hlutur Suðurnesjabæjar í heildaríbúum svæðisins hækkar úr um 12,9 prósentum í um 13,8 prósent.

Sé litið á Suðurnes í heild kemur fram skýr saga:

2019–2023: Stöðug og sterk fjölgun í öllum sveitarfélögum, heildaríbúar fara úr 27.825 í 32.613.

2023–2024: Snögg lækkun íbúa, úr 32.613 í 31.732, að mestu leyti vegna rýmingar Grindavíkur.

2024–1. nóvember 2025: Ör lítil heildaraukning upp í 31.879 íbúa, þar sem Reykjanesbær, Vogar og Suðurnesjabær halda áfram að vaxa, á meðan Grindavík heldur áfram að tapa íbúum.

Þrátt fyrir það áfall sem náttúruhamfarirnar í Grindavík hafa valdið heldur Suðurnesjasvæðið áfram að vaxa í heild. Vöxturinn dreifist þó nú á færri byggðarkjarna; Reykjanesbær, Vogar og Suðurnesjabær taka við æ stærri hluta íbúa svæðisins á meðan framtíð Grindavíkur sem fullburða bæjarfélags ræðst af því hvernig tekst að mæta afleiðingum náttúruvárinnar á komandi árum.

VF jól 25
VF jól 25