Spjallbekkurinn er þétt setinn í Kvikunni í Grindavík
Kvenfélag Grindavíkur fyrsta kvenfélagið til að afhenda spjallbekk
„Hvetjum alla til að setjast á bekkinn, spjalla við náungann og taka sjálfu,“ segir formaður Kvenfélags Grindavíkur, Sólveig Ólafsdóttir en kvenfélagið afhenti Grindavíkurbæ spjallbekk í tilefni af viku einmanaleikans sem var í október. Afhendingin fór fram í Kvikunni, menningarmiðstöð Grindvíkinga og voru fjölmargir Grindvíkingar mættir til að hlýða á erindin sem voru flutt en fyrir utan Sólveigu sem afhenti bekkinn tóku Jenny Jóakimsdóttir, verkefnastjóri einmanaleikans, og Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar, til máls en samkomunni lauk með erindi Önnu Steinsen frá KVAN en í því kom hún inn á jákvæð samskipti og hvernig samskipti kynslóðanna hafa breyst í aldanna rás. Þau voru ófá hlátrasköllin sem ómuðu í Kvikunni og fóru Grindvíkingar og aðrir glaðir heim.
Spjallbekkurinn byrjaði inni í Kvikunni, svo fyrir utan en er í dag fyrir utan íþróttamiðstöð Grindavíkur og mun færast þegar nýtt útivistarsvæði verður tekið í notkun.
Solla, eins og hún er jafnan kölluð, var ánægð með viðburðinn og stefnir á að halda upp á 100 ára afmæli kvenfélagsins sem fyrst en búið var að plana heljarinnar afmælisveislu í íþróttahúsi Grindavíkur á afmælisdeginum 23. nóvember en rýmingin 10. nóvember frestaði þeim áformum.
„Þessi spjallbekkur er að breskri fyrirmynd en það var Jenný Jóakimsdóttir, verkefnastjóri viku einmanaleikans, sem hafði samband við mig og athugaði hvort Kvenfélag Grindavíkur væri ekki til í að taka þátt. Við vorum strax til og erum ánægðar að afhenda Grindavíkurbæ bekkinn hér í dag, í viku einmanaleikans, en spjallbekkurinn er táknrænn fyrir það að fólk setjist niður og spjalli. Með því að setjast á svona bekk þá ertu að gefa færi á spjalli og jafnvel að biðja um það en mér skilst á Jenný að fjölmargir hafi lýst yfir áhuga á að setja upp svona bekk og erum við hjá Kvenfélagi Grindavíkur mjög ánægðar með að vera fyrsta kvenfélagið til að gefa svona bekk. Við erum búin að setja upp like-síðu á Facebook og hvetjum fólk til að setjast á bekkinn, spjalla og taka mynd af sér og setja á síðuna.
Það er alltaf nóg í gangi hjá okkur hjá kvenfélaginu og vonandi getum við fljótlega haldið upp á 100 ára afmælið en það bar upp 23. nóvember 2023 og vorum við að skipuleggja stóra afmælisveislu þann dag í íþróttahúsi Grindavíkur. Við vitum öll hvað gerðist þrettán dögum fyrir afmælið svo afmælið bíður betri tíma. Við erum dreifðar út um allt en höfum náð að halda úti talsverðri starfsemi og erum alltaf að gefa af okkur til samfélagsins. Við munum halda ótrauðar áfram og komumst vonandi sem fyrst alfarið heim til Grindavíkur, þar líður okkur best,“ sagði Sólveig.
Flutti til Grindavíkur á 30 ára afmælisdegi Kvenfélags Grindavíkur
Ragna Fossádal var með þeim eldri sem mættu í Kvikuna þennan fagra miðvikudag. Hún var ánægð að hitta aðra en hún hefur saknað Grindavíkur. Hún flutti til Grindavíkur þegar Kvenfélag Grindavíkur fagnaði 30 ára afmæli, 23. nóvember 1953.
„Ég hef verið frekar einmana síðan við þurftum að rýma Grindavík og því var kannski táknrænt að koma hingað í dag, á degi einmanaleikans. Ég bý í dag á Njarðarvöllum í Njarðvík, þar er yndislegt fólk og gott að vera en ég sakna samt Grindavíkur, þar var ég búin að búa síðan ég var fjórtán ára gömul, árið 1953, og var því búin að búa þar í 70 ár þegar ég þurfti að yfirgefa bæinn vegna jarðhræringanna. Það er mjög trúlegt að ég snúi strax til baka þegar þjónusta eykst í Grindavík, tala nú ekki um þegar Víðihlíð opnar.
Ég hafði mjög gaman af þessu hér í dag, sérstaklega var gaman að hlusta á erindi Önnu Steinsen um hvernig samskipti kynslóðanna hafa breyst. Ekki þarf að fjölyrða mikið um hvað tæknin hefur breyst mikið síðan ég var unglingur og hér áður fyrr var ekki mikið að flagga ástarorðum, pabbar sögðu held ég aldrei að þeir elskuðu börnin sín en auðvitað gerðu þeir það. Í dag heyrum við endalaust „æ lov jú“ og kannski er ekki mikil meining á bak við það og kannski má fara einhvern milliveg en ég hafði mjög gaman af því að hlusta á Önnu, ég skellti oft upp úr,“ sagði Ragna.
Anna Steinsen (t.h.) og Sólveig Ólafsdóttir á spjallbekknum.
KVAN
Anna Steinsen er einn stofnenda og eigenda KVAN og fór yfir hvað fyrirtækið gerir, hvað stendur til að gera fyrir Grindvíkinga og kom líka inn á samskipti kynslóðanna.
„KVAN stendur fyrir Kærleikur, Vinátta, Alúð og Nám en fyrirtækið var stofnað árið 2016 og við erum því tíu ára á næsta ári. Þar áður hafði ég unnið við þjálfun á námskeiðum og inni í félagsmiðstöðvum og skólum. Ég hef unnið mjög lengi í þessum bransa. KVAN heldur fyrirlestra, m.a. um menningu, samskipti, gleði, liðsheild og leiðtogahæfni. Við erum að halda alls kyns námskeið, vináttuþjálfun og sjálfstyrkingu fyrir börn og höldum námskeið fyrir fólk á öllum aldri sem gefa verkfæri inn í lífið. Við vinnum með mörgum skólum þegar upp kemur til dæmis samskiptavandi eða einelti, erum með námskeið fyrir fagfólk í grunnskólum og leikskólum og erum í raun með mjög fjölbreytta starfsemi. Einnig erum við með litla ferðaskrifstofu og bjóðum upp á endurmenntunarferðir fyrir alls kyns fagfólk, t.d. í grunn- og leikskólum.
Við erum mjög spennt fyrir komandi verkefnum með Grindvíkingum í samstarfi við Rauða kross Íslands, Rio Tinto og Grindavíkurbæ. Þetta verða alls kyns námskeið og viðburðir, við viljum halda flotta hátíð og viljum þjóna Grindvíkingum á öllum aldri, allt frá eldri borgurum niður í börnin. Við viljum endilega heyra frá Grindvíkingum til að vinna þetta verkefni saman með bæjarbúum og hlökkum mikið til að aðstoða Grindvíkinga. Ég hvet alla til að fara inn á síðuna okkar, þar er einn flipinn merktur Grindvíkingum; Grindavík - með þér, þar er hægt að lesa allt um verkefnið.
Einn af þeim fyrirlestrum sem ég held reglulega fjallar um samskipti á milli kynslóða og þar fæ ég venjulega flesta til að brosa eða jafnvel hlæja. Ég hef mjög gaman af því að fara yfir þetta og er örugglega gaman fyrir eldra fólk að hugsa til baka þegar það var unglingar. Það voru allar kynslóðir hér í dag fyrir utan Greatest, þ.e. 98 ára og eldri. Meira að segja Beta-kynslóðin átti fulltrúa, eitt sjö mánaða gamalt barn. Það er pínu skondið að fara yfir hvernig samskiptin hafa breyst, hér áður fyrr var ekki mikið verið að tala um tilfinningar eða hrósa, en í dag snýst mikið um að fá læk á samfélagsmiðlum. Sumt er betra í dag, annað ekki og viljum við alltaf finna hinn gullna meðalveg. Þessi spjallbekkur sem hér er kynntur í dag er frábær fyrir hvað hann stendur. Fólk í dag, sérstaklega ungt fólk notar heyrnartólin mikið og þá er erfiðara að eiga samskipti. Þar sem einmanaleikinn er að aukast og kvíði og þunglyndi einnig þá hefur aldrei verið jafn mikilvægt að tengjast og eiga samskipti. Það hafa allir gott af því að eiga samskipti við aðra, þannig aukum við samkenndina og ég vona að þessir spjallbekkir muni verða til þess að fólk setjist niður og spjalli,“ sagði Anna að lokum.







