Í hamfarasjó í Noregshafi
Nýjasta útkallsbókin er helguð minningu þriggja Íslendinga sem létust.
Í janúar 2012 berst Eiríkur Ingi Jóhannsson, 37 ára, klukkustundum saman fyrir lífi sínu - einn í hamfarasjó í víðáttu Noregshafs. Í nýjustu Útkallsbók Óttars Sveinssonar er greint frá því slysi, frásögn Eiríks en alls ekki síður fólksins í norsku þyrlusveitinni, samtals 12 manns. Fólkið lagði líf sitt í hættu við að bjarga Íslendingnum og leita að þremur félögum hans, þar af tveimur sem voru búsettir á Suðurnesjum. Bókin er helguð minningu þremenninganna.
Í Útkallinu kemur fram að litlu munaði að þyrlubjörgunarsveitin, áhafnir tveggja þyrlna norska hersins, kæmust ekki aftur heim til Noregs úr björgunarleiðangrinum. Fólkið lenti í ófyrirséðum aðstæðum sem eiga sér enga hliðstæðu. Á svæðinu var hamfarasjór.
Þegar fjórir Íslendingar eru að sigla litlum íslenskum skuttogara frá Siglufirði til Noregs brestur á foráttufárviðri með þeim afleiðingum að skipið sekkur um 400 kílómetra frá landi. Allir mennirnir fara í sjóinn og öldurnar eru á við fimm hæða hús.
Slysið á sér stað nánast utan flugdrægis björgunarþyrlna. Tvær vélar eru sendar af stað og þurfa áhafnirnar að bæta við eldsneyti á olíuborpöllum á leiðinni. Þegar þyrlurnar koma á slysstað á í raun enginn von á að finna menn á lífi – slíkt er ölduhafið og veðurhamurinn.
Eiríkur, sem var búinn að berjast fyrir lífi sínu í þrjár og hálfa klukkustund, sér aðra þyrluna en áhöfnin kemur ekki auga á hann. Nú þarf hann að taka afdrifaríka ákvörðun – á hann að reyna að synda nokkur hundruð metra í áttina að vélinni og eyða síðustu kröftunum í að gera vart við sig? Myrkrið er að skella á. Í bókinni lýsa Eiríkur og þyrluáhafnirnar aðstæðum sem engan óraði fyrir.
Gríðarlegt sjófok verður þess valdandi að þykkt saltlag safnast á þyrluspaðana með þeim afleiðingum að vélarnar hristast svo mikið að flugmennirnir hætta að geta séð á mælana. Og eldsneytisnotkunin eykst svo mikið að menn telja um tíma að vélarnar komist ekki til lands.
Þú VERÐUR að ná þyrlunni, Eiríkur!
Hér er stuttur kafli úr bókinni - Ég er á lífi!
Þrátt fyrir að Eiríkur hafi hugsað með sér að sundið til þyrlunnar tæki frá honum þá orku sem hann átti eftir fannst honum það samt vera sín eina von:
„Þetta var minn síðasti séns. Ég átti engan veginn von á að skip gæti bjargað mér í þessum haugasjó. Hvernig á að vera hægt að draga mig upp í skip sem hoppar út um allt á öldunni? Það væri algjör lukka ef hægt yrði að draga mann um borð án þess að steinrotast þegar maður rækist utan í skipið.
Ég hætti að synda í smástund og fylgdist með þyrlunni. Jú, hún er kyrr. En ljósin á henni eru agnarsmá að sjá. Hún er svo langt í burtu. En svo sá ég eitthvað annað ljós til vinstri sem ég hafði ekki séð áður og hugsaði: „Ókei, Eiríkur, ef þyrlan fer þá reynir þú alla vega að ná þessu ljósi þarna til vinstri.“ Þetta var bara eitt hvítt lítið ljós og gat verið eitthvað frá Hallgrími eða að þyrlan hefði sett niður einhverja merkjabauju.
Hugur minn var á fleygiferð og ákvörðunin um að synda áfram eða ekki togaðist verulega á í mér. Það er allt of langt að þyrlunni. Ég á aldrei eftir að ná þessu. En svo gnísti ég tönnum og hrópaði: „Eiríkur, þú VERÐUR að ná þessari þyrlu!“
Og ég gargaði áfram: „Strákar, strákar. SJÁIÐ ÞIG MIG? Strákar, sjáið þið mig?“
Ég var staðráðinn í að ná sambandi við þá þótt ég vissi að þeir heyrðu ekki í mér. Ég ætlaði mér að ná til þeirra í gegnum andlega tengingu, lífstenginguna mína.
„Strákar, strákar – sjáið þið mig!“ Svo æpti ég: „Jónas, Jónas!“
Ég hélt að þetta gæti jafnvel verið Jónas, vinur minn sem var að vinna á þyrlu sem flaug frá Bergen til olíuborpallanna í Norðursjó. Ég bara skyldi einhvern veginn ná sambandi við þessa þyrlu.“
Um hálfri klukkustund síðar:
Stormurinn hremmir sigmanninn
Vebjørn var um það bil að reyna nokkuð sem hann hafði aldrei órað fyrir áður:
„Þegar ég kom út úr þyrlunni og ætlaði að byrja að síga greip fárviðrið mig um leið. Þetta var án efa versta veður sem ég hafði sigið í og nú gerðist svolítið sem ég hafði aldrei lent í áður. Ég fór ekki niður heldur hreif vindurinn mig aftur með þyrlunni og utan í hana. Um leið hafði Johnny spilmaður stungið höfðinu út úr vélinni til að fylgjast með mér en þá festist vírinn í hjálminum hans.
Ég missti jafnvægið og vissi að ég yrði að fara aftur inn í vél.“
Fred Stabell spilmaður varð ekki um sel þegar hann sá hvað var að gerast:
„Venjulega stingur spilmaðurinn höfðinu út til að fylgjast með sigmanninum. Hann finnur líka spennuna á vírnum með hanskanum á meðan hann hefur hina höndina á handfanginu á spilinu. Hann var að líta út til að sjá hvernig stríkkaði á vírnum. En þar sem Vebjørn fór óvenju aftarlega lenti Johnny með hjálminn á milli vírs og dyrakarms.“







