Reykjanesbær aðventugarðurinn
Reykjanesbær aðventugarðurinn

Pistlar

Smá um veður og pólitík
Fimmtudagur 11. desember 2025 kl. 20:52

Smá um veður og pólitík

Hagvöxtur er nauðsyn! Mylluhjól atvinnulífsins verða að snúast, sama hvað, er mantra margra þeirra stjórnmálamanna sem telja að fólk eigi að taka þá alvarlega.

Jakob Haugaard var danskur stjórnmálamaður og skemmtikraftur sem valinn var á þing í Danmörku fyrir þrjátíu og sex árum. Hann hafði einsett sér að sýna fram á að það væri ásýndin en ekki innihaldið sem fleytti mönnum inn á þing. Stefnuskráin var í takt við það. Hann sagði til að mynda að ef vinna er holl, gefið þið hana þeim sjúku. Hann var enginn sérstakur talsmaður hagvaxtar, heldur vildi njóta lífsins og taka því sem koma skyldi , með bros á vör. Hann lofaði einnig að yrði hann kjörinn myndi alltaf verða meðvindur á hjólastígunum sem var gott loforð því það er vont að hjóla á móti vindi. Síðan hafa rafmagnshjólin tekið yfir og meðvindurinn skiptir ekki máli lengur.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Mér var hugsað til Jakobs nú nýlega þegar þingmaður Miðflokksins sté í pontu Alþingis og fór að tala um veður og veðurfræðinga. Mér fannst í raun popúlisminn ná nýjum hæðum. Hún sannaði það sem Jakob vinur minn hafði talað um fyrir þrjátíu og sex árum. Það er ásýndin en ekki innihaldið sem kemur sumum á þing.

Veður og veðurfræðingar eru sérstakt áhugamál hjá mér, ég veit hve starf þeirra er erfitt og sjaldnast öruggt að niðurstaðan verði akkúrat eins og reiknuð var. Þeir þurfa að byggja spá sína á staðreyndum með hliðsjón af hugsanlegri niðurstöðu. Þeir geta ekki með hundrað prósent vissu vitað að það verði skítaveður við Austurvöll klukkan þrjú ákveðinn dag, en geta reiknað út líkurnar. Veðrið gæti orðið verra á Lækjargötu.

Þingmaðurinn gerði sem sagt athugasemdir við útreikninga veðurstofunnar og lét að því liggja að útreikningarnir hefðu kostað þjóðfélagið milljarða sökum þess að ekki snjóaði á réttum stöðum. Fólk var hvatt til að halda kyrru fyrir og fara fyrr heim úr vinnu sökum óvenju mikillar snjókomu seinni hluta október. Margir fóru heim, kveiktu á kertum og nutu þess að vera heima með sínum nánustu. Nutu lífsins og hugsuðu hvorki um hagvöxt eða sjálfbærni.

Jakob Haugaard var ekki þingmaður sem taldi að taka ætti hann alvarlega. Hann var löngu búinn að sjá það út að lífið væri frekar stutt og menn ættu þeir þess kost að hafa gaman af því. Eins og siður er í Danmörku eru málaðar portrettmyndir af þingmönnum. Jakop fékk eitt slíkt málverk, sem lengi hékk uppi en var svo tekið niður og síðar hengt upp aftur. Við það tilefni var hann spurður hvernig honum litist á að myndin væri komin upp aftur. „Ég er ánægður, nú hangir myndin uppi sem aðvörun um að um að menn skuli taka stjórnmálin alvarlega. Ef ekki gætuð þið fengið mann eins og mig”. Sumir þingmenn eru meira ásyndin, en innihaldið.

VF jól 25
VF jól 25