Óskin um að komast heim
Jólin hjá Ómari Davíð Ólafssyni, eiganda Vélsmiðju Grindavíkur
Þótt síðustu ár hafi verið þung fyrir Grindvíkinga segir Ómar Davíð Ólafsson, eigandi Vélsmiðju Grindavíkur, að 2025 hafi þó verið skárra en árið á undan, þegar eldgos og óvissa settu mark sitt á lífið. Hjá honum og fjölskyldunni snúast jólin um rólega samveru, heimsóknir og húmor – og þá stund þegar kveikt er á jólaljósunum í kirkjugarðinum og fjölskyldan tendrar sín ljós. Áður en hamborgarhryggurinn fer í ofninn og Eyþóri blastar „Dansaðu vindur“ fer Ómar ekki leynt með stóru óskina í ár: að eldsumbrotum á Reykjanesskaganum ljúki og Grindvíkingar fái að flytja heim á ný.
Hvernig var árið 2025 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Árið 2025 hefur verið ágætt, betra en 2024 með tilheyrandi eldgosum og óvissu.
Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?
Ég blasta alltaf „Dansaðu vindur“ með Eyvör þegar líður að jólum.
Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?
Það mun vera Christmas Vacation. Hún klikkar aldrei.
Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?
Ætli það sé ekki þegar kveikt er á jólaljósunum í kirkjugarðinum, þá förum við fjölskyldan og tendrum ljós.
Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?
Ætli það sé ekki samvera fjölskyldunnar yfir hátíðirnar.
Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum – hvort sem það var sem þú gafst eða fékkst?
Það er alltaf gaman að fara í heimsókn til ættingja og lauma einni óæskilegri mynd í ramma á stofuborðið án þess að nokkur sjái til.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir, áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Úff, fyrstu jólin! Ég man nú ekki hvenær það var, en það kemur alltaf sterkt upp í hugann þegar byrjað var að skreyta á mínu heimili. Skraut í öllum loftum og greni sett á allar myndir á veggjum.
Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð? Áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?
Við erum nánast eingöngu með keypt skraut í dag, fyrir utan það sem krakkarnir koma með heim úr skólanum.
Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?
Þetta er allt í frekar föstu formi. Ég hlusta á messuna kl. 18.00 á Rás 1 á meðan maturinn mallar í ofninum.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum? Eru einhverjar ómissandi uppskriftir á þínu heimili?
Það er þessi klassíski hamborgarhryggur með brúnaðar kartöflum og heimagerða aspassúpu í forrétt.
Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?
Ég hef eytt jólunum á Tenerife og Kanarí og það er bara mjög fínt.
Trúir þú enn á jólaandann? Og hvað þýðir hann fyrir þig?
Já, ég hef trú á að jólaandinn sé hollur öllum. Mikilvægt er að geta sameinað fjölskyldu og slakað á í amstri dagsins.
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
Það væri óskandi að við Grindvíkingar fengjum þær fregnir að eldsumbrotum væri lokið á Reykjanesskaganum og gætum flutt heim.
Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?
Er það ekki friður á jörð.
Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?
Ég strengi aldrei áramótaheit en geri klárlega eitthvað skemmtilegt á næsta ári.







