Reykjanesbær aðventugarðurinn
Reykjanesbær aðventugarðurinn

Pistlar

Nóvemberafli línubáta og aflasaga Erlings GK
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 5. desember 2025 kl. 09:28

Nóvemberafli línubáta og aflasaga Erlings GK

Nú er nóvember liðinn og síðasti mánuður þessa herrans árs 2025 er hafinn, desember. Heilt yfir má segja að nóvember hafi verið nokkuð góður aflalega séð. Línubátarnir eru enn flestir fyrir norðan og austan og var veiðin hjá þeim góð.

Línubátarnir fyrir norðan

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Bátarnir fyrir norðan lönduðu allir á Skagaströnd. Þar var til dæmis Hemmi á Stað GK með 45 tonn í 6 róðrum. Geirfugl GK var með 53 tonn í 10 róðrum, Hópsnes GK með 59 tonn í 11, Óli á Stað GK með 214 tonn í 20 róðrum og mest 23 tonn í einni veiðiferð. Allir þessir bátar eru Stakkavíkurbátar. Aðeins einn bátur frá Stakkavík var við veiðar fyrir sunnan og var það nýja Guðbjörg GK sem landaði 26 tonnum í 3 róðrum og mest 9,9 tonnum. Hún landaði í Grindavík.

Fjölnir GK var einnig á þessum slóðum. Hann kom snemma í nóvember suður og landaði í Sandgerði, Keflavík og Grindavík. Aflinn hjá bátnum í nóvember var 119 tonn í 17 róðrum.

Einhamarsbátarnir fyrir austan

Einhamarsbátarnir eru enn fyrir austan og voru að landa til skiptis á Stöðvarfirði og í Neskaupstað. Gísli Súrsson GK var með 128 tonn í 10 róðrum og mest 25 tonn í einum túr. Vésteinn GK var með 80 tonn í 6 róðrum og Auður Vésteins SU með 218 tonn í 17 róðrum og mest 21 tonn í einni veiðiferð.

Aflinn á heimamiðum

Hérna á heimamiðum voru líka nokkrir bátar. Búið er að nefna Fjölni GK og Guðbjörgu GK. Þar að auki var Dúddi Gísla GK með 73 tonn í 12 róðrum og mest 9,1 tonn. Sá afli var allur landaður í Grindavík. Margrét GK var í Sandgerði og landaði 119 tonnum í 19 róðrum og mest 11 tonnum í einni veiðiferð.

Erlingur GK, fyrsti togarinn úr Garðinum

Fyrir nokkru birtist hér í Víkurfréttum frétt um togarann Erling GK sem var fyrsti togarinn í eigu fyrirtækis sem var staðsettur í Garðinum. Eigendur að Erlingi GK voru tvö fyrirtæki. Annars vegar var það Fjörður hf. sem Guðbergur Ingólfsson og synir hans áttu og hins vegar átti Jón Erlingsson í Sandgerði 20 prósent.

Fyrstu árin 1976 og 1977

Hvernig gekk svo Erlingi GK að veiða? Þar sem ég á aflatölur um öll íslensk skip langt aftur í tímann fór ég í gagnagrunninn minn og skoðaði Erling GK. Fyrsta löndun togarans var 5. janúar 1976 þegar hann kom með 47 tonn til Njarðvíkur. Togarinn landaði í Njarðvík alveg fram í ágúst það ár en þá færði hann sig til Sandgerðis.

Júlímánuður 1976 var nokkuð góður hjá Erlingi GK. Þá landaði hann 350 tonnum í fjórum löndunum og var stærsta löndunin 135 tonn. Rétt er þó að hafa í huga að Erlingur GK var talsvert minni en hinir togararnir sem þá voru í Sandgerði og Keflavík, til dæmis Dagstjarnan KE, sem síðar varð Sveinn Jónsson KE, og Framtíðin KE, sem síðar varð Haukur GK.

Á árinu 1977 landaði togarinn öllum sínum afla í Sandgerði. Þá voru nokkrar landanir þar sem togarinn var gjörsamlega kjaftfullur, sérstaklega í ágúst. Þá landaði hann tvisvar samtals 384 tonnum og voru báðir túrarnir um 192 tonn sem landað var úr togaranum. Þetta miðast við óslægt.

Góð ár 1979 og 1980

Ég á ekki tölur frá árinu 1978. Árið 1979 gekk Erlingi GK hins vegar mjög vel. Hann landaði öllum sínum afla í Sandgerði nema í sjö löndunum þar sem siglt var með aflann til Grimsby í Bretlandi, Hull og Bremerhaven í Þýskalandi. Nánast allar landanir togarans árið 1979 voru yfir 100 tonn og sú stærsta var 170 tonna löndun í mars. Í sama mánuði landaði Erlingur GK 449 tonnum í aðeins þremur löndunum.

Árið 1980 var svipað. Þá var öllum aflanum landað í Sandgerði en einnig siglt út í fjögur skipti á sömu staði og árið 1979. Mjög vel gekk að veiða og voru allar landanir árið 1980 yfir 100 tonn. Ansi margar voru yfir 150 tonn og sú stærsta 170 tonn. Mokveiði var hjá Erlingi GK í maí 1980 þegar togarinn landaði 540 tonnum í fjórum löndunum. Í einni þeirra kom hann með 156 tonn í land eftir aðeins fjóra daga á veiðum sem gerir um 39 tonn á dag.

Metár fyrir Erling GK árið 1981

Árið 1981 var feikilega gott fyrir Erling GK. Aflinn fór í um 4400 tonn yfir árið sem er mjög gott fyrir togara af þeirri stærð. Túrarnir voru oft mjög stórir, margar landanir voru yfir 150 tonn og sú stærsta 190 tonn. Aprílmánuður var sérstaklega aflahár. Þá landaði Erlingur GK 617 tonnum í fjórum löndunum og var sú stærsta 171 tonn. Meðalafli í túr var 154 tonn sem jafngildir fullfermi í hverjum túr. Mokveiði var í síðasta túrnum í apríl þegar Erlingur GK kom með 145 tonn í land eftir aðeins þriggja daga túr, sem gerir hátt í 48 tonn á dag. Öllum aflanum var landað í Sandgerði.

Dubliner
Dubliner