ReykjanesOptikk
ReykjanesOptikk

Pistlar

Hvað var um að vera  í nóvember 2008?
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 21. nóvember 2025 kl. 06:59

Hvað var um að vera í nóvember 2008?

Núna er nóvember hálfnaður og lítið fer fyrir því að vetur sé kominn. Það er lítill sem enginn snjór og veðrið hefur verið nokkuð gott enn sem komið er, þannig að færabátarnir hafa náð að fara í nokkra róðra.

Reyndar er einn færabátur dottinn úr leik í bili. Það er Dímon GK, sem hefur róið nokkuð duglega núna í haust, en hann fór til Njarðvíkur þar sem verið er að skipta um vél í bátnum. Núverandi vél hefur verið í Dímoni GK alveg frá því að báturinn var smíðaður árið 1997.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Að þessu sinni ætla ég aðeins að breyta út af vananum. Ég geri það stundum að fara aftur í tímann og núna langar mig aðeins að kíkja örlítið til baka. Ekki langt, heldur skoða nóvember árið 2008, frá 1. til 17. nóvember, sem er svipaður tími og núna þar sem nóvember er svo til hálfnaður.

Það fyrsta sem ég tek eftir er að þá voru svo til engir færabátar á veiðum í nóvember, samanborið við 13 færabáta sem hafa róið núna í nóvember 2025.

Lítum aðeins á hvað var í gangi í höfnum á Suðurnesjum hluta úr nóvember árið 2008.

Í Grindavík var Farsæll GK með 23 tonn í 9 róðrum og Askur GK með 15 tonn í 8 róðrum, báðir á dragnót. Milla GK var með 14 tonn í 7 róðrum á línu með bölum. Tómas Þorvaldsson GK landaði 128 tonnum í 2 róðrum á línu með beitningavél og netabáturinn Marta Ágústdóttir GK landaði 26 tonnum í 5 róðrum.

Töluvert mikið var um að vera í höfnunum í Keflavík og Njarðvík í nóvember 2008, því þá voru dragnótabátarnir á veiðum í bugtinni og ansi margir lönduðu þar. Þar voru til dæmis Arnþór GK með 26 tonn í 6 róðrum, Njáll RE með 25 tonn í 7, Siggi Bjarna GK með 40 tonn í 10 og Benni Sæm GK með 25 tonn í 7, allir á dragnót.

Nokkrir bátar lönduðu afla á línu og voru allir með balalínu. Diddi GK var með 11,4 tonn í 5 róðrum og Ebba GK með 9,5 tonn í 6 róðrum. Núna árið 2025 er mestur hluti bátanna sem róa og landa í Keflavík og Njarðvík netabátar, og það voru nokkrir bátar á netum. Til dæmis var Maron GK með 24 tonn í 10 róðrum, Hraunsvík GK með 10 tonn í 8 og Árni í Teigi GK með 6 tonn í 5 róðrum. Enginn togari landaði í Keflavík/Njarðvík.

Í Sandgerði var einnig töluvert mikið um að vera. Þar landaði meðal annars trollbáturinn Óskar RE sem var með 23 tonn í 1 róðri. Það má geta þess að þessi bátur hét lengi vel Óskar Halldórsson RE og skipstjóri á honum árið 2008 var aflakóngurinn Sævar Ólafsson í Sandgerði, sem á sér mjög langa sögu sem trollskipstjóri, að mestu frá Sandgerði.

Nokkuð margir bátar voru á línu frá Sandgerði í nóvember 2008, til dæmis Steini GK sem var með 25 tonn í 8 róðrum, Kiddi Lár GK með 15 tonn í 3, Máni GK með 10 tonn í 4 og Freyja KE með 10 tonn í 5 róðrum.

Netabáturinn Ósk KE, sem landaði til skiptis í Keflavík og Sandgerði en þó mest í Sandgerði, var með 53 tonn í 11 róðrum. Það má einnig geta þess að þessi bátur heitir árið 2025 Maggý VE og er að mestu gerður út á dragnót frá Sandgerði.

Töluvert margir bátar voru á netaveiðum á skötusel árið 2025 en árið 2025 var enginn netabátur á netaveiðum. Ársæll Sigursson HF var með 9,1 tonn í 7 róðrum, Svala Dís KE með 9,2 tonn í 6 og Maggí Jóns KE með 4,8 tonn í 4 róðrum.

Núna árið 2025 hefur einn bátur verið að landa sæbjúgu í Njarðvík og er það Jóhanna ÁR. Enginn bátur landaði sæbjúgu í Keflavík/Njarðvík árið 2008 en þeir voru tveir í Sandgerði: Sæfari ÁR 2 tonn í 2 róðrum og Dalaröst GK 4 tonn í 4 róðrum.

Núna árið 2025 er ansi mikið um báta frá Suðurnesjum sem eru á veiðum fyrir austan og norðan, og þá eru það að mestu 30 tonna bátar. Árið 2008 voru engir 30 tonna línubátar til og mjög fáir bátar frá Suðurnesjum voru á veiðum fyrir norðan og austan land.

Dubliner
Dubliner