Margir bátar á færum í nóvember
Þá er nóvember kominn í gang og það þýðir að línubátarnir sem hafa verið á veiðum fyrir norðan og austan land, fara að koma sér suður. Þá er ég þá að tala um minni línubátanna. Fyrsti báturinn til að koma suður var Dúddi Gísla GK sem kom um miðjan október. Fjölnir GK kom til Sandgerðis núna snemma í nóvember.
Það er nú iðulega þannig að þegar komið er fram í nóvember, svona seint í ári að handfærabátarnir eru mjög fáir og stundum er enginn bátur á handfærum svona seint á árinu. Því vekur það ansi mikla athygli hversu margir bátar hafa verið á færum núna í nóvember.
Á landinu öllu hafa 16 bátar farið á sjó með handfæri og af þeim hafa sjö bátar verið að róa frá Sandgerði, sem er nokkuð athyglisvert. Og til að bæta ofan á þetta þá eru tvær aflahæstu handfærabátarnir núna það sem af er nóvember báðir úr Sandgerði. Séra Árni GK er með 6,7 tonn í 2 róðrum og mest 4,4 tonn og Hawkerinn GK með 4,6 tonn í 2 róðrum og mest 3.2 tonn. Veður í byrjun nóvember hefur verið virkilega gott, algjör blíða á miðunum og báðir þessir bátar fóru nokkuð langt út til að ná í ufsa og það gekk svona gríðarlega vel hjá báðum bátunum.
Það líður reyndar að jólum og núna hefur einn bátur stoppað, en það er Maggý VE sem stoppaði undir lok október og mun ekki hefja veiðar fyrr enn eftir áramótin. En þó þessi bátur sé skráður í Vestmannaeyjum þá á hann ansi mikla tengingu við Suðurnesin og þá sérstaklega Sandgerði.
Tómas Sæmundsson eða Tommi á Hafnarbergi RE kaupir bátinn árið 2001 og gefur honum nafnið Hafnarberg RE 404. Hann gerði bátinn út til 2007 en þá keypti Einar Magnússon eða Einar á Ósk KE bátinn og gefur honum nafnið Ósk KE og er með bátinn fram til 2011 þegar báturinn er seldur til Vestmannaeyja og fær þar nafnið Maggý VE. Skipstjórinn á Maggý VE er líka frá Sandgerði, Karl Ólafsson, sem lengi var skipstjóri á dragnótabátnum Erni KE og þar áður Haferni KE. Og meira um tengingar því einn af þessum sjö handfærabátum sem hafa róið frá Sandgerði núna í nóvember er Ósk KE sem títtnefndur Einar Magnússon gerir út.
Aðalveiðarfæri bátanna Maggý VE, Örn KE og Haförn KE var alltaf dragnót og núna það sem af er nóvember hafa nokkrir bátar verið á dragnótaveiðum, til dæmis Aðalbjörg RE sem hefur landað 22,4 tonnum í 3 róðrum í Sandgerði og Reykjavík. Sigurfari GK er með 10 tonn í tveimur róðrum, Benni Sæm GK 28 tonn í 4 og Siggi Bjarna GK 26 tonn í 4, allir í Sandgerði. Margrét GK hefur landað 5 tonnum í 2 róðrum í Þorlákshöfn og Grindavík.
Einn bátur hefur verið að veiða sæbjúgu, Jóhanna ÁR, sem er gerður út frá Þorlákshöfn. Báturinn hefur verið á veiðum á sæbjúgu í Garðsjó og landað í Njarðvík, og hefur landað tæpum 18 tonnum í 2 róðrum og mest 11,5 tonn í einni löndun. Þessi bátur Jóhanna ÁR hét áður Sigurfari GK og var gerður út af Nesfiski frá 1993 til 2019 eða í 26 ár. Allan þennan tíma sem þessi bátur hét Sigurfari GK landaði hann langmest í Sandgerði og byrjaði á trolli, enda þegar að báturinn var keyptur árið 1993, hét hann Sigurfari VE og var þá trollbátur.
Báturinn var á trolli alveg fram í ágúst árið 2002 en þá hætti hann og stóð til að leggja eða selja bátinn. Árni Ólafur Þórhallsson var búinn að vera skipstjóri á bátnum frá því hann kom 1993 og hann kom með þá hugmynd hvort ekki væri sniðugt að breyta bátnum fyrir dragnótaveiðar, en þessi bátur hafði aldrei verið á dragnót. Í apríl 2003 fór báturinn sem í dag heitir Jóhanna ÁR í fyrsta skipti á dragnótaveiðar og landaði þá alls 25 tonnum í 2 róðrum. Báturinn var síðan alla sína tíð á dragnót alveg fram að þeim tíma þegar báturinn var seldur og fékk nafnið Jóhanna ÁR.
Og svona í lokin að árið 2003 sem var fyrsta árið sem að Sigurfari GK var á dragnót var stærsta löndun bátsins það ár 45 tonn sem var í júlí og landað í Sandgerði.







