Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Takk Gimli
Fimmtudagur 14. október 2021 kl. 14:50

Takk Gimli

Það þarf vart að taka það fram á þessum vettvangi að ég er dyggur lesandi Víkurfrétta – það gefur hreinlega auga leið. Og búandi í útlöndum er það auðvitað hluti af daglega fréttarúntinum um Internetið að athuga hvað helst er að frétta úr heimahögunum. Það hefur svo sem ekki vantað neitt upp á fréttirnar upp á síðkastið, eldgos, jarðskjálftar, kosningar og allskonar hrókanir og vistaskipti þeim tengdum hafa haldið Palla Ketils og félögum vel við efnið. 

Það var hins vegar önnur frétt sem hreyfði við mér og fyllti hjarta mitt af einskæru þakklæti, en það var frétt af 50 ára afmæli leikskólans Gimli. Ég veit að ég tala fyrir hönd margra núverandi og fyrrverandi Gimli foreldra þegar ég lýsi aðdáun minni og virðingu fyrir því öfluga starfi sem unnið er á þessum yndislega leikskóla. Það var eitthvað sérstakt andrúmsloft sem mætti okkur á fyrsta degi sonar okkar á Gimli – endalaus kærleikur, gleði og gagnkvæm virðing starfsfólks og barnanna sem var inngreypt í menningu skólans. Það var allt svo áreynslulaust og eðlilegt. Endalaus knús og faðmlög og börnin ávörpuð sem „kæri vinur“ eða „kæra vinkona“ sem skilaði sér þráðbeint til barnanna sem töluðu við hvort annað af sömu virðingu. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þetta skiptir einfaldlega máli, ekki síður en metnaðurinn í skólastarfinu sjálfu sem skein alls staðar í gegn og var ekki síst tryggður í gegnum farsælt samstarf við Hjallastefnuna. Það var afar áhugavert að lesa grein Karenar Valdimarsdóttur, rekstrar- og skólastýru Gimlis, þar sem hún fór yfir hálfrar aldar sögu skólans. Stórmerkileg saga og sannkallað heillaskref þegar bæjaryfirvöld gerðu þjónustusamning við Karenu sem gerðu henni og hennar góða fólki kleift að koma með nýja strauma inn í leikskólaflóru bæjarins.

Það er sagt að fjarlægðin geri fjöllin blá og kannski þess vegna sem þessi litla frétt hreyfði svo við mér. En okkur Helga Matthías langar einfaldlega bara að senda kærar afmælisóskir til Gimli héðan frá París og þakka innilega fyrir okkur – takk elsku Kæja, Gunna og þið öll hin. Megi allar góðar vættir fylgja Gimli um ókomna tíð.