Bílrúðuþjónustan
Bílrúðuþjónustan

Pistlar

Minnkandi heimur
Laugardagur 29. febrúar 2020 kl. 08:14

Minnkandi heimur

Ellefu ára sonur minn er mikill áhugamaður um sögu, sérstaklega um allt sem viðkemur hernaði og styrjöldum. Heimsstyrjaldirnar báðar eru sérstakt áhugamál, sem og byltingar af öllu tagi, hvort sem um ræðir ameríska borgarastríðið eða rússnesku byltinguna. Reyndar er stráksi svo áhugasamur um þá rússnesku að hann er búinn að vera að læra rússnesku á netinu í tæpt ár með ljómandi góðum árangri, alla vega finnst mömmunni hann vera altalandi!

En hernaðaráhuginn varðar ekki bara herkænsku og bardagatækni, heldur er afar fróðlegt að fylgjast með því hvað hann lærir mikið af þessu um fólk og mismunandi samfélög. Hann setur sig í spor fólks og veltir fyrir sér mismunandi aðstæðum. Hann spyr mig endalaust hvort ég hefði frekar viljað vera barn í Frakklandi eða Þýskalandi á tímum heimsstyrjaldarinnar, hvort ég hefði frekar viljað vera japanskur eða þýskur hermaður eða hvað ég myndi gera ef við fjölskyldan yrðum aðskilin í fangabúðum og ég þyrfti að velja á milli þeirra bræðra. Ég svara því alltaf til að ég sé mjög fegin því að hafa ekki þurft að standa frammi fyrir slíku vali og reyni að verjast spurningaflóðinu með einhverjum hætti. Ég kemst upp með að afgreiða þetta svona vegna þess að þetta er okkur Íslendingum svo fjarlægt og nánast óhugsandi að við stæðum einhvern tímann frammi fyrir slíkum aðstæðum. Heimurinn er sem betur fer svo stór og svona vondir hlutir gerast bara í útlöndum.

Mér datt þetta í hug af því að hann hefur líka verið að lesa sér til um alls konar faraldra sem herjað hafa á heimsbyggðina í gegnum aldirnar – svarta dauða, spænsku veikina, bólusótt, berkla og hvað sem þetta heitir nú allt saman. Og meira og minna allt þetta barst til Íslands þrátt fyrir einangrun og erfiðar samgöngur fyrr á öldum.

Nú fylgist heimsbyggðin af athygli með fréttum af kórónaveirunni svokölluðu, COVID-19, nýjasta skaðvaldinum sem nálgast það að fá skilgreininguna heimsfaraldur. Fyrst þegar fréttir fóru að berast af þessu höfðum við kannski takmarkaðan áhuga, og því síður áhyggjur, þar sem þetta var að gerast einhvers staðar rosalega langt í burtu, í miðri Kína. Og heimurinn er sem betur fer svo stór og svona vondir hlutir gerast bara í útlöndum.

En svo færist þetta nær. Fregnir berast af smiti á skíðasvæði í frönsku ölpunum og af því að Þóra Arnórs sé farin að hamstra mat á Ítalíu. Þá er þetta farið að snerta fólk sem við þekkjum og er komið ótrúlega nálægt okkur. Þegar við mæðginin sátum yfir morgunmatnum í morgun dæsti sonurinn stundarhátt: „Mamma, þetta er búið. Nú er kórónaveiran pottþétt að koma til Íslands“. Hann heyrði sem sagt í fréttunum að hún væri komin til Tenerife, fyrirheitna landsins hans, en hann hefur endalaust kvartað yfir því að hann sé eini strákurinn í bekknum sem ekki hefur komið til Tene. Og miðað við það hlutfall var hann algjörlega viss um að hún væri á leiðinni. Vonandi fer þetta nú allt vel og góðu fréttirnar eru þær að menn hafa nýtt tímann vel í undirbúning og gerð viðbragðsáætlana.

En  allt í einu er heimurinn orðinn agnarsmár.