Anya Shaddock með tónleika í Berginu mánudagskvöldið 15. september
Tónlistarkonan Anya Shaddock er eins íslensk og þær gerast þrátt fyrir amerískt nafn en hún ólst upp frá átta mánaða aldri austur á fjörðum, n.t. á Fáskrúðsfirði. Hún man ekki eftir sér öðruvísi en með áhuga á tónlist, skráði sig strax í tónlistarskólann þar og var farin að spila á píanó og gítar jöfnum höndum áður en hún náði fyrsta áratugnum í aldri. Hugurinn leitaði suður til frekara náms og hún skráði sig í MÍT (Menntaskólinn í tónlist) og hefur unnið sem tónlistarkona frá útskrift árið 2023. Hún gerði samning við Iceland Sync, gaf út sína fyrstu plötu og vinnur að þeirri næstu.
Anya mun gleðja Suðurnesjafólk á mánudagskvöld en þá heldur hún tónleika í Berginu í Hljómahöllinni. Þar mun hún í bland flytja lög af fyrstu plötunni sinni sem ber nafnið Inn Í Borgina, í bland við nýtt efni.
Anya var ánægð með nám sitt í MÍT en blaðamaður hafði ekki heyrt um þann skóla og eins var Anya ánægð með sumarvinnuna í fyrra hjá Kópavogsbæ.
„Ég frétti af þessum menntaskóla, MÍT og það kom ekkert annað til greina hjá mér. Ég flutti suður þegar ég var sextán, það tók tíma að finna hentugt leiguhúsnæði svo ég flakkaði á milli sófa en byrjaði samt í náminu 2018 og útskrifaðist 2023. Nemandinn velur sér aðalhljóðfæri og auka ef hann vill, ég byrjaði í klassísku píanónámi og var með ryðmapíanó sem auka en áhuginn á píanóinu dvínaði og ég færði mig yfir í sönginn. Ég hafði aldrei gefið mig neitt að söng og því var þetta frábært skref fyrir mig sem tónlistarkonu. Ég var byrjuð að semja mjög ung, sem fyrsta lagið rúmlega tólf ára og hef jöfnum höndum samið á píanó og gítar, finnst bæði betra ef þú skilur mig. Ég komst á samning árið 2024 hjá Iceland Sync og gaf út fyrstu plötuna mína ,,Inn Í Borgina” og er að vinna að þeirri næstu núna. Ég kynntist þeim Kjalari Martinsson Kolmar og Benedikt Gylfasyni í MÍT og við vorum öll í söngnámi og það athyglisverða og fyndna, kennarinn okkar var með krullur eins og við þrír nemendurnir. Hún kallaði okkur ,,krullu börnin sín” og þegar við stofnuðum hljómsveit, kom ekkert annað nafn til greina en Krullur! Við sóttum um hjá Kópavogsbæ í fyrra, um skapandi sumarstarf og í stað þess að vera í bæjarvinnu eða einhverju slíku, gátum við unnið að tónlist og ef Reykjanesbær er ekki nú þegar að bjóða ungu tónlistarfólki í Reykjanesbæ upp á þetta, þá hvet ég Bítlabæinn eindregið til að fylgja þessu fordæmi.“
Hvernig verða tónleikarnir í Berginu?
„Ég mun koma fram sem sóló listakona, þ.e. við Krullurnar erum ekki á þessum tónleikum. Ég verð samt ekki ein á sviðinu, fæ vini mína með mér og hlakka mikið til að spila í þessum frábæra sal sem bæði býður upp á fínan fjölda í sæti, en þessi yndislega nánd myndast milli tónlistarfólksins á sviðinu og þeirra sem njóta. Ég mun bæði flytja lög af fyrstu plötunni minni og nýtt efni og lofa Suðurnesjafólki og öðrum góðum tónleikum,“ sagði Anya að lokum.
