Kvennakór Suðurnesja býður konum á opna æfingu
Kvennakór Suðurnesja heldur opna æfingu í KK salnum miðvikudaginn 10. september og býður konum á öllum aldri að koma og starfa með kórnum. Þetta er tækifæri fyrir bæði reyndar og óreyndar söngkonur sem vilja taka þátt í fjölbreyttu og metnaðarfullu kórstarfi. Æfingar eru á miðvikudagskvöldum kl. 19:30 og raddæfingar hjá hverri rödd þriðja hvern mánudag.
Það er mikið af skemmtilegum verkefnum framundan, m.a. er kórinn næsti gestgjafi Landsmóts íslenskra kvennakóra. Mótið verður haldið í Reykjanesbæ 11.-13. júní 2026 og verður mikið líf og fjör þegar kvennakórar alls staðar að af landinu koma í heimsókn.
Kvennakór Suðurnesja var stofnaður 22. febrúar 1968 og er elsti starfandi kvennakór á landinu. Kórinn hefur á þessum tíma tekið virkan þátt í menningarlífi á Suðurnesjum og stuðlað að þátttöku kvenna í tónlistarlífi á svæðinu. Kórinn hefur einnig farið í söngferðalög innan lands og utan, síðast fór kórinn til Kalamata í Grikklandi í október 2024 þar sem hann tók þátt í alþjóðlegri kórakeppni og vann til tvennra silfurverðlauna. Stjórnandi kórsins er Dagný Þórunn Jónsdóttir söngkennari með meiru.
Þetta er frábært og gefandi áhugamál og eru áhugasamar konur hvattar til að mæta á opnu æfinguna til að kynna sér starf kórsins. Opna æfingin verður eins og áður sagði miðvikudaginn 10. september í KK salnum, Vesturbraut 17-19 og hefst hún kl. 20, segir í tilkynningu frá kórnum.