Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Mannlíf

„Borðið þér orma frú Norma?“
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 8. september 2025 kl. 06:00

„Borðið þér orma frú Norma?“

Sjötugur maður ræktar ánamaðka sem eru ekki bara góð beita fyrir laxfiska heldur líka góður fyrir plöntur og blóm

„Ánamaðkar nýtast í svo miklu meira en bara sem beita,“ segir Guðmundur Óskar Sigurðsson, ánamaðkaræktandi, þú last rétt; hann er ánamaðkaræktandi. Guðmundur er búsettur á Ásbrú í Reykjanesbæ en vann lengi í Garði og bjó þar sömuleiðis. Hann hefur afdrep þar fyrir áhugamál sitt hjá bróður sínum sem býr í Garði og vonast til að áhugamálið geti leitt af sér atvinnurekstur.

Fyrir um tuttugu árum lagði Guðmundur land undir fót, settist á skólabekk í Englandi og lærði hvernig rækta eigi ánamaðka. Salan hefur ekki verið í takti við væntingar en ólíkt því sem blaðamaður hélt, þá er hægt að nota þessi dýr í margt annað en bara sem beitu í veiði. Ánamaðkar verja m.a. plöntur og geta því haldið görðum fögrum og Guðmundi langar til að breiða út fagnaðarerindið.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Guðmundur á ættir sínar að rekja til Garðs en bjó lengst af í Reykjavík en ákvað svo að flytja í Garð fyrir u.þ.b. tuttugu árum síðan.

„Ég er múrari og sá að ég gat haft mikla atvinnu hér á svæðinu og ákvað því að flytja hingað og leið strax vel hér. Ég flutti svo til Spánar og bjó þar í sex ár en hef búið á Ásbrú síðan ég flutti aftur heim. Bróðir minn hefur verið með mér í þessu ormaáhugamáli og ég hef getað stundað þetta áhugamál mitt hjá honum þar sem hann býr í Garðinum. Hann fór út í þetta með mér en sumarið gekk ekki nógu vel svo hvað verður um þetta hjá okkur er spurning, ég er ekkert að yngjast, orðinn 70 ára gamall.

Eftir að ég fékk þessa hugmynd varðandi ánamaðkana þá sótti ég um hjá Hugviti og fékk styrk til að fara til Englands og læra fræðin. Ég dvaldi í Halifax í norður Englandi, þar er nokkuð hlýrra en hér en ánamaðkar eru hitabeltisdýr sem líður best í 15-20 gráðu hita, þess vegna spyrja margir sig hvernig þeir lifa og þrífast á Íslandi. Þeir komu með útlenskum laxveiðimönnum fyrir 70-100 árum, þeim var sleppt og þeir byrjuðu að fjölga sér. Ormar þola ekki frost og lifa þess vegna ofan í jörðinni en þeir geta verið í u.þ.b. tíu mínútur uppi á yfirborðinu, ef þeir eru lengur þá lamast þeir. Fólk sér ormana oft koma upp þegar rignir en talið er að þeir geri það vegna hættu á drukknun. Ánamaðkar eru á ensku kallaðir „nightcrawler,“ þeir koma upp á nóttunni til að makast og einnig til að næra sig.“

Haugáni

Til eru hið minnsta tólf tegundir ánamaðka á Íslandi, ánamaðkurinn sem Guðmundur ræktar heitir Haugáni og er sá minnsti af ánamaðkategundunum hér á landi.

„Ég ákvað að rækta þessa tegund því okkur var að kennt að rækta hana í Englandi. Ávaxtaormurinn sem er hvítur slægist alltaf með en ég er ekki að reyna rækta þá tegund. Þegar ég lagði upp með þetta á sínum tíma sá ég fyrir mér að geta selt mikið til veiðimanna en ánamaðkur er fyrirtaks beita en hann er almennt ekki leyfður í laxveiði en í allri annarri veiði hentar ánamaðkurinn mjög vel. Það hefur bara dregið mjög úr sölu að undanförnu, hverju um er að kenna veit ég ekki en ánamaðkar nýtast í margt annað. Talið er að ánamaðkar séu það besta sem blóm og tré fá, þeir éta t.d. lúsina sem leggst á ræturnar og skíturinn úr ormum er besti áburður sem hægt er að fá. Ónæmiskerfið í plöntunum og trjánum lagast og þau lifa því lengur. Ánamaðkurinn heldur líka maurum og sniglum frá og vernda þannig blómin og trén. Því hvet ég alla garðræktendur sem vilja halda garðinum sínum vel við að gefa ánamaðkinum tækifæri. Ég get hjálpað til við að koma ánamaðkaræktun af stað, eftir það leyfi ég mér að fullyrða að garður viðkomandi blómstrar sem aldrei fyrr. Ég vonast eftir að komast í samstarf við skógræktarfélögin, ánamaðkar munu hjálpa til við skógræktina. Svo er annað sem blessaðir ormarnir geta nýst í, öllum Íslendingum þykir vænt um fuglana okkar, fólk er að gefa þeim á veturna, fuglarnir myndu elska að fá orma í staðinn fyrir brauð, það er miklu meiri næring í ormi en brauði fyrir fuglinn.

Ensími er efni sem er mikið notað í lækningum og er dýrt og ensímið sem ánamaðkur framleiðir er talið eitt það besta. Það kemur ekki nógu mikið frá hverjum ánamaðki og til að framleiða mikið magn slíks ensímis, þyrfti gífurlegt magn ánamaðka. Ennþá er of dýrt að fara í slíka framleiðslu en ég held að þeir muni uppgötva hagstæðar leiðir í því, ánamaðkurinn er fljótur að fjölga sér, milljón ánamaðkar geta verið orðnir að fjórum milljónum mánuði seinna svo það er allt hægt í þessu. Ormur verpir tvisvar sinnum í mánuði og það tekur orm einn mánuð að klekjast út. Til að fara í framleiðslu á ensími þarf hugvit sem aðrir en ég þurfa að finna út úr en þangað til mun ég líta á þetta sem áhugamál og mun glaður aðstoða fólk ef það vill prófa þetta, hægt er að hafa samband við mig í síma 775-8561,“ sagði Guðmundur að lokum.