Kalka
Kalka

Íþróttir

Víðismenn með sigur á toppliðinu
Víðismenn geta glaðst þessa stundina, enda efstir í 3. deild. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 22. júní 2022 kl. 09:13

Víðismenn með sigur á toppliðinu

Dalvík/Reynir, topplið 3. deildar, mætti á Nesfisk-völlinn í gær í áttundu umferð deildarinnar. Heimamenn í Víði reyndust sterkari og uppskáru 2:1 sigur sem kemur þeim úr þriðja sæti og á toppinn sem stendur.

Þetta var hörkuleikur eins og við var að búast þegar liðin í toppbaráttunni mætast. Cristovao A. F. Da S. Martins kom heimamönnum yfir í fyrri hálfleik (17') en gestirnir náðu að jafna skömmu fyrir leikhlé (38') og staðan því jöfn í hálfleik. Aðeins eitt mark var skorað í seinni hálfleik og það gerðu gestirnir ... í eigið mark (59'). Sjálfsmark réði því úrslitum og fyrir vikið sitja Víðismenn nú einir í efsta sæti en umferðin klárast um helgina.

Víðir er efst með sextán stig og Dalvík/Reynir kemur næst með fimmtán, bæði lið hafa spilað átta leiki. Í þriðja sæti er KFG, einnig með fimmtán stig, og Sindri og Elliði eru með þrettán, þessi lið hafa leikið sjö leiki svo toppsætið er ekki öruggt hjá Víðismönnum.

Nýsprautun sumardekk
Nýsprautun sumardekk