Bygg
Bygg

Íþróttir

Víðismenn með sigur á toppliðinu
Víðismenn geta glaðst þessa stundina, enda efstir í 3. deild. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 22. júní 2022 kl. 09:13

Víðismenn með sigur á toppliðinu

Dalvík/Reynir, topplið 3. deildar, mætti á Nesfisk-völlinn í gær í áttundu umferð deildarinnar. Heimamenn í Víði reyndust sterkari og uppskáru 2:1 sigur sem kemur þeim úr þriðja sæti og á toppinn sem stendur.

Þetta var hörkuleikur eins og við var að búast þegar liðin í toppbaráttunni mætast. Cristovao A. F. Da S. Martins kom heimamönnum yfir í fyrri hálfleik (17') en gestirnir náðu að jafna skömmu fyrir leikhlé (38') og staðan því jöfn í hálfleik. Aðeins eitt mark var skorað í seinni hálfleik og það gerðu gestirnir ... í eigið mark (59'). Sjálfsmark réði því úrslitum og fyrir vikið sitja Víðismenn nú einir í efsta sæti en umferðin klárast um helgina.

Víðir er efst með sextán stig og Dalvík/Reynir kemur næst með fimmtán, bæði lið hafa spilað átta leiki. Í þriðja sæti er KFG, einnig með fimmtán stig, og Sindri og Elliði eru með þrettán, þessi lið hafa leikið sjö leiki svo toppsætið er ekki öruggt hjá Víðismönnum.

Bílakjarninn
Bílakjarninn