Sara Rún körfuknattleikskona ársins í fimmta sinn
Keflvíkingurinn Sara Rún Hinriksdóttir og Tryggvi Snær Hlinason hafa verið valin körfuknattleiksfólk ársins 2025. Körfuknattleikskona og karl ársins eru valin í kosningu af stjórn og starfsmönnum KKÍ, afreksnefnd KKÍ og þjálfurum karla-og kvennalandsliðanna. Sara Rún er að hljóta nafnbótina í fimmta sinn og Tryggvi Snær í annað sinn.
Val á körfuknattleikskonu ársins 2025:
- Sara Rún Hinriksdóttir
- Danielle Rodriquez
- Þóra Kristín Jónsdóttir
Aðrar sem fengu atkvæði í stafrófsröð eru: Anna Ingunn Svansdóttir, Kolbrún María Ármannsdóttir, Rebekka Rut Steingrímsdóttir og Tinna Guðrún Alexandersdóttir.
Sara Rún Hinriksdóttir · Keflavík
Sara Rún var lykilleikmaður í liði Keflavíkur á síðasta ári sem endaði í 4 sæti Bónusdeildarinnar, en liðið féll svo út í undanúrslitum gegn Njarðvík í úrslitakeppninni í vor. Sara Rún var besti leikmaður liðsins og skoraði 18.3 stig að meðaltali í leik. Sara hefur stórbætt leik sinni á núverandi tímabili og er langstigahæsti íslenski leikmaður deildarinnar með 23.2 stig í leik það sem af er tímabili.
Danielle Rodriquez · Njarðvík
Danielle hóf árið út í Sviss þar sem hún lék með liði Fribourg í svissnesku úrvalsdeildinni og Eurocup evrópukeppninni einnig. Danielle var valinn í annað úrvalslið svissnesku deildarinnar með 13.1 stig og 4.9 stoðsendingar að meðaltali í leik. Fyrir þetta tímabil gekk hún til liðs við Njarðvík og hefur hún farið mjög vel af stað með sínu nýja liði. Njarðvík er á toppnum og Dani er næst framlagshæsti leikmaður deildarinnar með 19 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Þóra Kristín Jónsdóttir · Haukar
Þóra Kristín var stórkostleg með Hauka liðinu sem varð Íslandsmeistari í vor. Hún var valin besti leikmaður Íslandsmótsins á lokahófi KKÍ í mars, og leiddi svo lið sitt til titils í maí. Í úrslitakeppninni var hún með tæp 13 stig og 7 stoðsendingar, ásamt því að hitta úr 46% þriggja stiga skota sinna.
Val á körfuknattleikskarli ársins 2025:
- Tryggvi Snær Hlinason
- Elvar Már Friðriksson
- Ægir Þór Steinarsson
Aðrir sem fengu atkvæði í starfrófsröð: Haukur Helgi Pálsson, Hilmar Smári Henningsson og Martin Hermansson
Tryggvi Snær Hlinason · Surne Bilbao Basket
Tryggvi Snær átti stórkostlegt ár með félagsliði sínu Bilbao Basket og íslenska landsliðinu. Bilbao sigraði FIBA Europe Cup með glæsilegum sigri á PAOK frá Grikklandi í úrslitaeinvígi. Tryggvi átti sinn besta leik í undanúrslitum keppninnar, þegar hann var framlagshæstur sinna manna í sigri á Tofas frá Tyrklandi. Tryggvi var frábær fyrir íslenska landsliðið á Eurobasket í Póllandi. Hann leiddi íslenska liðið í stigaskorun og fráköstum, og var sjötti framlagshæsti leikmaður mótsins, ásamt því að enda í öðru sæti í 2 stiga skotnýtingu – á milli þeirra Giannis Antetokounpo og Nikola Jokic.
Elvar Már Friðriksson · Anwil Wloclawek
Elvar Már byrjaði árið í Grikklandi þar sem hann lék með Maroussi í grísku úrvalsdeildinni. Í haust færði hann sig yfir til Póllands þar sem hann hefur farið vel af stað með Anwil Wloclawek, sem sitja í 7. sæti pólsku deildarinnar þar sem Elvar er með 12 stig og 6 stoðsendingar. Elvar spilaði vel á Eurobasket í Póllandi þar sem hann endaði mótið með 12.4 stig að meðaltali í leik, næst stigahæstur íslenska liðsins.
Ægir Þór Steinarsson · Stjarnan
Ægir Þór leiddi Stjörnuna til síns fyrsta Íslandsmeistaratitils með stórkostlegri frammistöðu í úrslitakeppni Bónusdeildarinnar í vor. Ægir var bæði valinn besti leikmaður Íslandsmótsins og verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar. Í úrslitakeppninni skoraði Ægir 20 stig að meðaltali í leik, ásamt því að gefa rúmlega 8 stoðsendingar. Ægir Þór stóð sig með prýði á Eurobasket í Póllandi þar sem hann var fyrirliði íslenska liðsins.







