Íþróttir

Þriðji sigur Grindvíkinga í röð
Sigurjón Rúnarsson bar fyrirliðabandið í fjarveru Gunnars Þorsteinssonar sem tók út bann. Sigurjón skilaði sínu hlutverki vel og skoraði seinna mark Grindvíkinga. VF-mynd: Pket
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 30. ágúst 2020 kl. 12:58

Þriðji sigur Grindvíkinga í röð

Grindavík vann Vestra í Lengjudeild karla þegar liðin mættust á Grindavíkurvelli í gær. Grindvíkingar hafa nú unnið þrjá síðustu leiki sína og sitja í sjötta sæti deildarinnar aðeins fjórum stigum á eftir Keflavík og ÍBV sem eru í öðru og þriðja sæti.

Það var Josip Zeba sem skoraði opnunarmark leiksins á 29. mínútu eftir hornspyrnu og kom Grindavík yfir.

Aðeins fimm mínútum síðar fengu Grindvíkingar dæmda vítaspyrnu eftir að markvörður Vestra braut klaufalega á Guðmundi Magnússyni. Aron Jóhannsson tók vítið og skaut í slá.

Staðan í hálfleik því 1:0 en ekki voru nema fimm mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar Grindavík fékk aukaspyrnu sem Aron tók, sendi boltann fyrir og þar var fyrirliði Grindvíkinga í þessum leik, Sigurjón Rúnarsson, mættur og skallaði í netið (50').

Staðan því orðin vænleg fyrir Grindavík en Vestra tókst að minnka muninn á 56. mínútu í 2:1. Misnotuð vítaspyrna hefði getað orðið dýrkeypt en Grindavík hélt þetta út og sigraði 2:1 að lokum.

Myndirnar í meðfylgjandi myndasafni tók Páll Ketilsson á leiknum.

Grindavík-Vestri Lengjudeildin í knattspyrnu 2020