Erla segir að mig langi í lampa
Sveinn Ólafur Magnússon, kennari í Myllubakkaskóla, fagnaði fimmtugsafmæli á árinu og gerði það með ýmsum hætti. Hann er kvæntur Erlu Guðmundsdóttur, sóknarpresti Keflavíkurkirkju og þau búa nánast í næsta húsi. Þau halda í jólahefðir og eru dugleg að sækja kirkju og Sveinn hefur boðið frúnni ráðgjöf í jólagjafainnkaupum sem hann segir lítið nýtta.
Hvernig var árið 2025 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Árið hefur verið mér farsælt. Ég varð 50 ára í sumar og hélt nokkrar veislur af því tilefni. Vinir mínir eru enn að fagna mér með óvæntum 50 ára glaðningi, síðast núna á aðventunni. Við fórum nokkrar ferðir yfir hafið með mörgum vinum. Fjölskyldan varð ríkari þegar lítill frændi, Guðjón Óli, fæddist síðsumars. Margir halda reyndar að hann sé afabarnið mitt. Svona er að vera fimmtugur.
Ert þú mikið jólabarn?
Já, við fjölskyldan gerum mikið úr aðventu og jólahátíð og viljum kalla fram jólaanda á heimilið svo börnin finni það sérstaka sem fylgir þessari árstíð.
Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?
Jólatréð er skreytt þegar örfáir dagar eru í aðfangadag.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir, áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Einstök jólaminning er þegar við Erla urðum foreldrar kl. 19:09 á aðfangadagskvöld 2002 í Danmörku. Önnur eftirminnileg jól voru þegar við Erla vorum nýflutt til Kaupmannahafnar. Jólagjafirnar týndust í sendingu, maturinn misheppnaðist og við enduðum svöng á að horfa á þátt í danska ríkissjónvarpinu sem fjallaði um kosningabaráttu Guðrúnar Pétursdóttur til forsetakosninga á Íslandi 1998.
En eru skemmtilegar jólahefðir?
Okkur hjónunum finnst ánægjulegast að bjóða vinum og fjölskyldu heim á Brunnstíg í margvíslegan mat á aðventu. M.a. smörrebrödskvöld, hádegisskötu, möndlugraut og gjafir fyrir alla krakkana. Svo er alltaf gott að fara til mömmu og pabba á Þorláksmessu og fagna afmæli föður míns. Sterkasta hefðin síðustu 23 ár er sú að við hjónin vöknum kl. 06 á aðfangadagsmorgun, undirbúum afmæli frumburðarins sem byrjar með heitu súkkulaði kl. 11. Það þarf svo að vera búið að ganga frá áður en Erla fer í vinnu. Jólamessurnar eru okkar sérstakar. Að fara saman í kirkju og með börnunum er okkar hefð.
Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
Konan mín klárar þær alltaf tímanlega. Ég veiti þó ráðgjöf, sem er sjaldan þegin.
Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?
Skata og hangikjöt. Ég sýð sjálfur skötu úti á palli fyrir vini mína. Erla hitar eplaskífur með hindberjasultu. Eftir uppvask fer hangikjötið í pott til að ná skötulykt í burtu. Síðan er eitthvað heilagt við kirkjuklukkur og Heims um ból þegar jólin ganga í garð.
Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?
Það er Guðsgjöfin hún Helga. Við Erla áttum engan pening til að kaupa jólagjöf handa hvort öðru árið sem hún fæddist. Vorum að undirbúa komu barns með öllu tilheyrandi. Ég gleymi ekki þegar Erla sagði: „Guð gefur okkur eitthvað gott.’ Helga átti að fæðast í lok janúar þannig að ekki var í plönum að koma með jólabarn. Næstbest er Kraftgallinn sem Erla gaf mér. Hún á það til að senda mig oft út að þvo glugga, hús, bíla og brasa. Þá er gott að eiga Kraftgalla.
Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?
Það má vera þegar Skrámur skrifar jólasveininum. Ég meira að segja kann það utan að.
Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?
Fjölskyldan horfir alltaf saman á Christmas Vacation og Home alone 1/2. Við feðgarnir horfum saman á Die hard.
Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?
Ég gæti ekki hugsað mér annað en að vera heima um jólin og halda í hefðir með fjölskyldunni.
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
Mig langar í bókina Helförina. Erla segir að mig langi í fallegan lampa.
Hvað verður í jólamatnum hjá þér á aðfangadagskvöld?
Svínahamborgarhryggur, ár eftir ár.
Eru hefðir í mat?
Við erum mjög fastheldin á matar- og eftirréttahefðir yfir jólahátíðina.
Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?
Ég strengi aldrei heit en hugsa oft hvert ég vil stefna með fjölskyldu og vinum. Við Erla ætlum m.a. til Færeyja og Mauritius. Síðan ætlum við að ferma örverpið, þjálfa miðlunginn á bíl og útskrifa frumburð og tengdason úr háskólanámi.







