Heilög stund á Þorláksmessukvöldi
Hildur María Magnúsdóttir, grunnskólakennari er mikið jólabarn
Hildur María Magnúsdóttir, grunnskólakennari er mikið jólabarn og heldur í jólahefðir. Ein af þeim er að Þorláksmessukvöld er heilagt hjá fjölskyldunni sem sest þá saman fyrir framan sjónvarpið og horfir jólamynd. Óskalistinn hjá Hildi Maríu fyrir þessi jól er þunnur að hennar sögn en þá kemur eiginmaðurinn sterkur inn. Hvernig var árið 2025 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Árið 2025 var mjög gott ár. Við fjölskyldan vorum á ferð og flugi, bæði innanlands og utan, og fylgdum börnunum okkar á ótal skemmtilega íþróttaviðburði. Það sem stendur upp úr er að Gabríel Aron útskrifaðist sem stúdent úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Heiðrún Lind var valin í U15 landsliðið í körfubolta og fylgdum við henni á mót í Finnlandi í sumar.
Ert þú mikið jólabarn?
Já, algjörlega! Ég elska þennan tíma – kertaljós, jólatónlist og allt sem fylgir.
Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?
Við höfum skapað okkur hefð fyrir lifandi jólatré, og síðustu ár höfum við verið með stafafuru sem er ótrúlega falleg. Yfirleitt setjum við tréð upp um annan í aðventu, en í ár fór það upp 10. desember.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir?
Ætli það séu ekki jólin 1986 þegar við bjuggum í Noregi – líklega líka af því að það eru til svo margar myndir frá þeim tíma!
Hvaða jólahefð er í uppáhaldi?
Þorláksmessukvöld er heilög stund hjá okkur. Þegar allt er klárt kveikjum við á kertum, hellum upp á heitt súkkulaði og horfum á „Christmas Vacation“.
Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
Ég set mér alltaf markmið um að klára snemma… en það hefur aldrei tekist!
Hvað er ómissandi á jólunum?
Möndlugrauturinn hjá mömmu á aðfangadag og gott spilakvöld með góðu fólki.
Eftirminnilegasta jólagjöfin?
Dúkkurnar sem við systur fengum frá mömmu og pabba eitt árið. Ég skírði mína Maggý í höfuðið á pabba – hún er ennþá til og liggur uppi á háalofti.
Uppáhaldslagið?
„Jólin eru okkar“ með Baggalút, Bríet og Valdimar.
Ómissandi jólamynd?
„Christmas Vacation“ – alltaf!
Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum?
Ég myndi velja Ísland. Jólin eru bara best heima – með öllum mínum. Ef ég þyrfti að velja annað land þá þyrfti ég að taka ansi marga með mér.
Óskalisti í ár?
Hann er óvenju þunnur í ár, en maðurinn minn er snillingur í að velja fallegar gjafir, svo ég er mjög spennt.
Hvað verður í jólamatinn?
Humar í forrétt (uppskrift frá tengdafjölskyldunni), hamborgarhryggur í aðalrétt og svo brownies með vanilluís og karamellusósu í eftirrétt.
Áramótaheit?
Ég hef aldrei verið góð í hefðbundnum áramótaheitum, en ég reyni alltaf að vera aðeins betri útgáfa af sjálfri mér á nýju ári. Tökum því sem kemur – með gleði!






