Töfraduft, jólaís og heimildarmyndir
Magnús Orri Arnarson, kvikmyndagerðarmaður og sjónvarpskynnir, átti ógleymanlegt ár 2025. Hann ferðaðist til Ítalíu og Kýpur til að gera heimildarmynd, lauk árinu með tveimur verðlaunum og sér nú fram á að sjá myndina Sigur fyrir sjálfsmyndina rata inn í íslensk heimili á RÚV 29. desember. Í þessu jólaviðtali ræðir hann um jólahefðirnar sem hann elskar, jólaandann sem hann trúir á, minninguna um litlu myndavélina sem kveikti kvikmyndaáhugann – og drauminn um að strá töfradufti yfir heiminn til að skapa frið á jörð.
Hvernig var árið 2025 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
„Árið 2025 var algjörlega magnað hjá okkur. Ég fór til Ítalíu og Kýpur til að mynda heimildarmynd og endaði svo árið á því að vinna tvö verðlaun fyrir hana. Það er eitthvað sem ég er ótrúlega stoltur af og stendur mjög upp úr.“
Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?
„Uppáhalds jólalagið mitt er Where Are You Christmas. Það nær einhvern veginn alveg utan um tilfinninguna sem jólin eiga að gefa.“
Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?
„Væntanlega myndin mín, Sigur fyrir sjálfsmyndina, sem verður sýnd á RÚV 29. desember. Það verða eiginlega jólin mín í ár – að sjá hana loksins hjá landsmönnum heima í stofu.“
Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?
„Besta jólahefðin er þegar mamma býr til jólaís og heita Marssósu. Ég enda alltaf á að klára það, það er bara eitthvað við þetta sem tengist bæði barnæsku og jólum fyrir mér.“
Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?
„Það sem er algjörlega ómissandi er þegar fjölskyldan kemur saman til að eiga notalega stund. Jólin eru ekki jólin án þess.“
Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum?
„Það besta sem ég fékk í jólagjöf var lítil myndavél þegar ég var bara átta ára gamall. Það var svolítið þar sem þetta allt byrjaði hjá mér – áhuginn á myndbandsgerð og kvikmyndum.“
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir, áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
„Fyrstu jólin sem ég man eftir voru þegar ég átti heima í Keflavík. Þar kom alltaf öll stórfjölskyldan saman og það var ótrúlega hlý og skemmtileg stemning.“
Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð? Áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?
„Ég er aðeins meira fyrir keypt jólaskraut, en mér finnst samt alltaf gaman að föndra eitthvað skemmtilegt. Það er svona barnalegi parturinn í manni sem lifnar við.“
Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?
„Jólin breyttust þannig að ég fór meira að njóta þeirra. Þegar maður er krakki er maður oft upptekinn af pökkunum og spennunni, en núna snúast jólin miklu meira um samveru, frið og það að stoppa aðeins.“
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum? Eru einhverjar ómissandi uppskriftir á þínu heimili?
„Uppáhaldsmaturinn er bara klassískur hamborgarhryggur og svo ís í eftirrétt. Jólaísinn hennar mömmu með heitu marssósunni er þar algjörlega ómissandi.“
Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?
„Ég væri alveg til í að upplifa svona „amerísk’ jól, þar sem það er mikill snjór og allt í brjáluðu skrauti – bara einu sinni. En annars er svarið einfalt: Ísland. Það er eitthvað við íslensk jól sem er ólýsanlegt.“
Trúir þú enn á jólaandann? Og hvað þýðir hann fyrir þig?
„Já, ég trúi klárlega á jólaandann. Fyrir mér þýðir hann friður og kærleikur, að fólk komi saman til að njóta og sýna hvert öðru umhyggju. Það er kjarni jólanna.“
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
„Ég er ekkert með neitt sérstakt efnislegt á óskalistanum í ár, nema það að eiga góðar stundir með fólkinu mínu. Það er það sem skiptir mestu.“
Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?
„Ef ég gæti gefið eina jólagjöf til heimsins þá væri það töfraduft til að búa til frið á jörð – ef það væri bara hægt. Að fólk fengi að lifa í friði væri stærsta gjöfin.“
Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?
„Áramótaheitið mitt er að reyna að skrifa handrit að annarri heimildarmynd og leggja mitt af mörkum til að vera góð fyrirmynd fyrir aðra. Mér finnst ég bera ákveðna ábyrgð sem skapandi manneskja og vil nýta það til góðs.“




