Reykjanesbær aðventugarðurinn
Reykjanesbær aðventugarðurinn

Mannlíf

Óttaðist höglin í rjúpunum
Þriðjudagur 23. desember 2025 kl. 08:47

Óttaðist höglin í rjúpunum

Það er mikið af jólahefðum hjá Sigrúnu Gróu Magnúsdóttur en hún er tónlistarkennari í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Ein af þeim er t.d. að fara með pabba gamla að kaupa jólatré hjá Kiwanis. Önnur rík hefð er samvera hjá fjölskyldunni þegar kveikt er á kertunum á aðventukransinum. Þá er sunginn aðventusöngurinn í kósý birtu og rólegheitum. Svo á Sigrún Gróa sérstaka minningu frá því þegar hún var lítil að borða rjúpu á aðfangadag.

Hvernig var árið 2025 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Árið var mjög viðburðaríkt, ég fór t.d. á alls kyns tónleika, horfði á marga fótboltaleiki, fór í þó nokkrar utanlandsferðir og átti margar góðar samverustundir með stórfjölskyldunni og vinum. Upp úr stendur ferð til London núna í lok ágúst þar sem fjölskyldan fór á tónleika með Coldplay. Alveg mögnuð upplifun!

Ert þú mikið jólabarn?

Já ég hef alltaf verið mikið jólabarn, en börnin mín eru eiginlega að taka við af mér, hér er byrjað að hlusta á jólalögin og telja niður til jóla fljótlega eftir að skólinn byrjar á haustin.

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

Lengi vel var það sett upp 22. eða 23. des. en síðustu ár höfum við flýtt þessu aðeins og tekst það oftast svona viku fyrir jól eða fljótlega eftir að það er keypt.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir - áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Fyrstu jólin sem ég man eftir eru í kringum 5 eða 6 ára aldurinn. Það voru rjúpur í matinn á aðfangadag og mamma sagði okkur að borða rólega og passa okkur því það gæti verið hagl í kjötinu. Ég fölnaði skyndilega og gat ekki borðað meir, held að ég hafi haldið að ég myndi deyja ef ég fengi hagl. Það tók nokkur ár að venjast rjúpunum.

En skemmtilegar jólahefðir?

Það er sko nóg af jólahefðum hjá okkur. Við systkinin ásamt fjölskyldum förum t.d. alltaf með pabba að kaupa jólatré hjá Kiwanis og höfum svo gaman á eftir. Svo er ómissandi að fá afganga af kalkúninum hjá tengdó í hádeginu á jóladag. En uppáhalds jólahefðin okkar er þegar við fjölskyldan kveikjum á kertunum á aðventukransinum. Þá gefum við okkur tíma og syngjum Aðventusönginn og spjöllum og hlæjum í kósý birtu og rólegheitum. Það verða allir að vera heima þannig að stundum þurfum við að fresta  þessu um einn eða tvo daga.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Úff, ég hef mjög oft verið að vinna í þessu eftir að skólarnir fara í jólafrí, er svolítið mikið á haus fram að því í tónlistarskólanum. En síðustu ár höfum við verið að nýta afsláttardagana í nóvember. Það er nú mikið til dótturinni að þakka.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Malt og appelsín og smákökur, sem ég er farin að kaupa tilbúnar í búðunum frekar en að baka sjálf.



Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

Hmm… ansi margar gjafir sem eru eftirminnilegar, en mér þykir mjög vænt um fyrstu gjöfina sem við hjónin fengum frá dóttur okkar, frumburðinum, árið 2003. En það var lófafarið hennar á leir, sem Óla, dagmamman hennar, bjó til. Já það var mjög falleg gjöf.

Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?

Nú er Gunna á nýju skónum með Hauki Morthens, það markaði yfirleitt byrjunina á jólahátíðinni í gamla daga, þar sem pabbi setti alltaf Hauk á fóninn upp úr kl.18. Annars elska ég lagið Það snjóar með Sigga Guðmunds.

Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?

Christmas Vacation er náttúrulega algjör klassík, en líka The Grinch með Jim Carrey, hún er í uppáhaldi.

Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?

Ég held að París yrði fyrir valinu, uppáhalds borgin mín, og allir í fjölskyldunni þyrftu að vera með. Annars vil ég bara vera heima hjá mér um jólin, en það er samt aldrei að vita.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Já ég er búin að óska þess að fá lítinn spegil með stækkunar fítus svo ég geti plokkað augabrúnirnar, maður er nú alveg að detta í fimmtugt.

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Rjúpur eru sko uppáhalds jólamaturinn minn en síðan við fórum að halda jólin heima hjá okkur hefur verið hamborgarhryggur í matinn. Ég held við séum ekki að fara að breyta neinu, ég er líka alveg að verða sérfræðingur í því.

Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?

Set mér yfirleitt ekki áramótaheit, nema kannski bara að halda áfram að hafa gaman af lífinu. En já, ég ætla í fyrsta sinn að fara til útlanda í skíðaferð með góðum vinahópi, hef ekki farið á skíði síðan ég var í framhaldsskóla. Það verður án efa ógleymanleg ferð. Ef allt gengur vel er aldrei að vita nema að við tökum börnin okkar með í næstu ferð.

VF jól 25
VF jól 25