„Fékk andarteppu af spenningi og átti mjög bágt …“
Arna Þórunn Björnsdóttir er heimavinnandi, gift Erlendi Sævarssyni sjómanni. Þau eiga 20 ára son, 29 ára dóttur og hundinn Fríðu, tíu ára fjórfætling. Hún á minningu tengda jólum frá því hún var 7 eða 8 ára. Hún segist hafa verið gríðarlega spennt fyrir pökkunum. Þrátt fyrir að hafa horft á barnaefni í sjónvarpinu og fengið að opna einn pakka um klukkan 15 fékk ég andarteppu af spenningi og átti mjög bágt.
Hvernig var árið 2025 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Árið 2025 hefur verið viðburðaríkt og að mestu leyti gott. Við héldum síðustu jól á Tenerife í fyrsta skipti og fannst það alveg æðislegt, þannig að árið byrjaði í raun á „Tene“. Jólunum þar áður eyddum við í Ölfusborgum en öll önnur jól höfum við hingað til haldið í Grindavík.
Við keyptum fallega íbúð hér í Innri-Njarðvík og gerðum hollvina- og gistisamning um heimilið sem við áttum í Grindavík, sem var mikill léttir. Við ferðuðumst líka aðeins um landið með hjólhýsið okkar og náðum meðal annars í frábært veður fyrir austan.
Dóttir okkar útskrifaðist með B.Ed. í leikskólafræðum og sonur okkar er að skoða lífið og stunda nám í lýðháskóla í Danmörku. Sjálf byrjaði ég í kór Njarðvíkurkirkju, sem hefur verið bæði lærdómsríkt og gefandi, og við höfum líka sótt flesta viðburði sem haldnir hafa verið í Grindavík.
Það er kannski ekkert eitt sem stendur sérstaklega upp úr en það var yndislegt að vera í viku á Austurlandi í yfir 20 stiga hita. Mikilvægast finnst mér samt að allir séu heilbrigðir og líði vel. Við höfum aðeins verið minnt á það, og það er aldrei of oft sagt: andleg og líkamleg heilsa er það allra dýrmætasta, allt annað er aukaatriði þegar upp er staðið.
Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?
Tónlist er stór hluti af hátíðleika og stemningu jólanna og aðventunnar. Mér finnst gott að sækja kirkjuviðburði á aðventunni og nú tek ég sjálf þátt í þeim líka með kórnum mínum. Mér finnst jólalögin og sálmarnir eiginlega allir fallegir en Heims um ból, Frá ljósanna hásal og Driving home for Christmas með Chris Rea koma fyrst upp í hugann.
Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?
Hmm… er Love Actually ekki jólamynd? Hún er alltaf krúttleg og fyndin og mér finnst hún mjög jólaleg.
Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?
Það eru nokkrar jólahefðir sem mér þykir vænt um en síðustu ár hafa svolítið breytt sýn minni. Aðalmálið er að fjölskyldan sé saman.
Almennt hef ég oftast bakað með krökkunum mínum, sérstaklega stráknum mínum. Mér finnst nánast ómissandi að hafa útiþurrkuð hrein rúmföt á Þorláksmessu og við hjónin förum alltaf í kirkjugarðinn á Stað um jólin, oftast á jóladag.
Við höfum nánast alltaf verið með foreldrum mínum á aðfangadag, framan af hjá þeim en síðari ár heima hjá okkur. Oftast höfum við haft hamborgarhrygg með tilheyrandi og ómótstæðilega rjómarönd með karamellusósu „ala mamma“ í eftirrétt. Þá mega jólin alveg koma.
Jólaundirbúningur og jólahald hefur líka orðið afslappaðra eftir að börnin urðu stór, minni væntingar til gjafa og meiri spenna fyrir mat, samveru og slökun.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum?
Við stórfjölskyldan höfum oftast verið í boði hjá foreldrum mínum og þá er yfirleitt boðið upp á dýrindis kalkúnabringu með amerískri kjöt- og brauðfyllingu og heimsins bestu sósu, líka „ala mamma og pabbi“. Það er uppáhaldsmaturinn minn, þar er ekkert til sparað og þetta er algjör veisla.
Þessi máltíð er alveg toppurinn. Ég hef eldað hana sjálf og tek það kannski upp aftur einn daginn, hver veit. Það þarf sko aðstoðarkokk og pottastráka í svona matargerð og við fáum seint þakkað foreldrum mínum fyrir allan góða matinn sem þau hafa framreitt fyrir okkur systkinin og fjölskyldur okkar.
Það er ómetanlegt sá sem býður, sá sem eldar og opnar heimilið, og að allir hittist. Það er jólaandinn í hnotskurn: góður matur sem alúð er lögð í, samvera fjölskyldu og vina, að enginn sé einn og að alltaf sé pláss fyrir einn disk í viðbót.
Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum?
Mér þykir sérstaklega vænt um það sem er gefið frá hjartanu, eins og það sem krakkarnir mínir bjuggu til þegar þau voru lítil. Slíkar gjafir geyma svo miklar tilfinningar og minningar. Þá man ég vel eftir gullúri skreyttu demöntum sem maðurinn minn gaf mér þegar við vorum ennþá bara tvö.
Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð? Áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?
Ég hef mjög gaman af heimagerðu skrauti og skrauti með sögu. Ég held mikið upp á keramikjólatré sem amma Ella gaf okkur og útsaumaðar jólamyndir frá ömmu minni. Þetta skraut er hluti af fjölskyldusögunni og mér þykir ómetanlegt að taka það fram á hverju ári.
Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?
Í seinni tíð höfum við tekið praktíkina aðeins meira inn í gjafamálin og gefum frekar það sem vantar, eða pening upp í stærri hluti. Væntingarnar um „mikið af pökkum“ hafa minnkað og fókusinn færst meira yfir í samveru, góðan mat og rólegheit.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir?
Þegar ég var lítil, líklega 7 eða 8 ára, var ég gríðarlega spennt fyrir pökkunum. Þrátt fyrir að hafa horft á skrípó og fengið að opna einn pakka um klukkan 15 fékk ég andarteppu af spenningi og átti mjög bágt.
Þetta er í dag mjög fyndin minning og eitt af því fyrsta sem ég man frá jólum, en á sínum tíma var þetta ekki sérlega skemmtilegt!
Áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Ég veit ekki hvort þetta voru sömu jól, en ein jólin var pabbi eitthvað seinn að redda jólatrénu. Allt var nánast uppselt þegar hann komst í það og úr varð að keypt voru tvö lítil grenitré; annað var reyrt ofan á hitt, vel skreytt og gert að einu tré. Ég veit ekki hversu lukkuleg mamma var með þessa lausn, en sagan er frábær og lifir góðu lífi í fjölskyldunni.
Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?
Ég gæti vel hugsað mér að vera á heitari slóðum yfir jól, til dæmis á Tenerife, Kanarí, Tælandi eða bara einhvers staðar þar sem er hlýtt og ljúft. En ég ætti svolítið erfitt með að hafa ekki börnin mín hjá mér yfir sjálfar bláhátíðirnar.
Við héldum „litlu jólin“ með foreldrum mínum fyrir síðustu jól áður en við fórum til Tenerife. Ég held að ég eigi alveg eftir að prófa aftur að vera á hlýjum slóðum yfir jól og áramót, það er mjög gott frí.
Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?
Ég er ekki vön að strengja formleg áramótaheit. Ef eitthvað er, þá væri gott markmið að gleðjast meira, grípa augnablikin oftar, ferðast meira – og jú, borða minna nammi.
Ef ég fengi einhverju ráðið um örlög heimsins myndi ég óska þess að enginn þyrfti að búa við stríð, hungur og ofbeldi og að allir gætu lifað lífi sínu í mannlegri reisn, nær og fjær.







