VF jólalukka 25
VF jólalukka 25

Mannlíf

Hápunkturinn að hitta Friðrik Danakonung
Þriðjudagur 23. desember 2025 kl. 04:24

Hápunkturinn að hitta Friðrik Danakonung

Halla Benediktsdóttir í Jónshúsi í Kaupmannahöfn

Keflvíkingurinn Halla Benediktsdóttir er forstöðukona í Jónshúsi í Kaupmannahöfn og hefur í sextán ár tekið á móti gestum frá Íslandi. Hápunktur ársins hjá henni var þegar hún hitti Friðrik konung og hann nældi riddaraorðu í barm hennar. Hún man eftir jólum sem lítil stelpa þegar faðir hennar mætti með kassa af jólaeplum í hús fyrir jólin.

Hvernig var árið 2025 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Þetta er búið að vera gott ár. Við höfum fengið marga góða gesti í heimsókn, sem er alltaf gaman, og eins höfum við farið aðeins út fyrir landsteinana. Við hjónin fórum til dæmis í frábæra lestarferð frá Kaupmannahöfn suður eftir Þýskalandi og enduðum hjá góðum vinum í Sviss. Eins var stórskemmtilegt þegar við fórum með börnum okkar og tengdabörnum til Póllands til að fylgjast með Íslandi á Evrópukeppninni í körfubolta.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Með góðu fólki tók ég á árinu þátt í að standa fyrir Þjóðhátíðarskemmtun Íslendinga í Tívolíi þann 17. júní og stærstu prjónahátíð Kaupmannahafnar í haust. Hvoru tveggja tókst mjög vel. Svo mun ég líklegast aldrei gleyma að hafa fengið tækifæri til að hitta sjálfan Friðrik konung og þakka honum fyrir að hafa veitt mér Dannebrog-riddaraorðuna í fyrra. Það er mikil upplifun að fara í Kristjánsborgarhöll, prúðbúin með hvíta hanska, vera kölluð upp, hitta kónginn og spjalla við hann.

Ert þú mikið jólabarn?

Já og nei, minn uppáhalds tími er aðventan, tíminn frá miðjum nóvember og fram að aðfangadegi. Kaupmannahöfn er mikil jólaborg sem skiptir um ham á þessum tíma.

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

Bara rétt fyrir aðfangadagskvöld, undanfarin ár höfum við sett upp lítið jólatré sem auðvelt er flytja á hjóli. Tréð fær að standa nokkra daga, svo fer það út á þriðja degi jóla. Í Danmörku klárast jólin milli jóla og nýárs og flest jólatré fara út úr húsi 2. jóladag, þau standa ekki fram á þrettándann, eins og á Íslandi.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir, áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Nú finnst ég hljóma mjög gömul, en þegar ég var krakki fékk pabbi alltaf kassa með jólaeplum rétt fyrir jól sem ilmuðu og smökkuðust mjög vel.

En eru skemmtilegar jólahefðir?

Við erum búin að búa í rúmlega 16 ár í Kaupmannahöfn og höfum tileinkað okkur danskar jólahefðir, sem eru margar. Við fáum okkur jólaglögg og eplaskífur, sjá Hnotubrjótinn, fara í tívolí og á jólamarkaði. Svo er stórskemmtilegt að fara í júlafrokosta með vinum og fjölskyldu, leika pakkaleiki og borða góðan mat. Þar er mikið líf og fjör.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Reyni að ganga frá öllum jólainnkaupum í byrjun desember.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Samvera með fjölskyldunni, leikir, hangikjöt og laufabrauð.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

Skór sem ég fékk í jólagjöf frá Hrannari fyrir tæpum 40 árum. Þetta voru skór með stórum pallíettum. Ég skilaði skónum en það féll ekki í góðan jarðveg hjá mínum manni, enda hef ég aldrei skilað gjöf sem ég hef fengið frá honum.

Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?

Danskt jólalag með SOAP og Remee sem heitir Let love be love. Æðislegt lag.

Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?

Ég horfi alltaf á Love Actually sem er sannkölluð jólaklassík með öllum tilfinningaskalanum. Svo horfum við hjónin alltaf á Die Hard rétt fyrir jól á hverju ári. Hann eldist bara vel. Bruce Willis kemur öllum í jólaskap.

Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?

Þetta er skemmtileg spurning, ég hef svo sem aldrei velt því fyrir mér. En heima er best. Gott að vera heima um jólin, vera með fjölskyldunni og geta stjórnað því hvað er á boðstólum og njóta þess að vera í fríi. Og núna eigum við heima í Kaupmannahöfn, svo ég vil hvergi annars staðar vera.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Nei, ég reyni eins mikið og í mínu valdi stendur að draga úr neyslu. Ef ég fæ gjafir þá er það helst eitthvað sem hægt er að borða eða drekka, eða gjafakort á einhverja upplifun. Gjafakort á upplifun með þeim sem gefur er í uppáhaldi.

Hvað verður í jólamatnum hjá þér á aðfangadagskvöld?

Líklegast rækjuréttur í forrétt, í aðalrétt verður önd með brúnuðum kartöflum, appelsínusósu og granateplasalati. Í eftirrétt verður væntanlega konfekt.

Eru hefðir í mat?

Undanfarin mörg ár höfum við haft önd á aðfangadagskvöld og hangikjöt á jóladag, svo náttúrulega klassískur danskur jólamatur, júlefrokost, nokkrum sinnum á aðventunni.

Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?

Já, heilsurækt er í fyrirrúmi, en ég var reyndar duglegri að stunda líkamsrækt í ár en í fyrra og það verður kannski ekki auðvelt að gera betur. En ég stefni á að viðhalda því að fara að jafnaði fimm sinnum í viku í líkamsrækt. Ég á stórafmæli á næsta ári og ætla að nýta allt árið til að fagna þeim áfanga.

Hvernig hefur aðventan verið í Jónshúsi og Köben?

Aðventan í Jónshúsi er bæði skemmtileg og annasöm. Auk fastra liða hafa verið bókakvöld, jólabingó, jólaföndur og á eftir íslenskri aðventustund í kirkju er boðið upp á heitt skúkklaði í húsinu. Á aðventunni koma margir íslenskir ferðamenn í húsið og fá leiðsögn um húsið og um heimili Ingibjargar og Jóns. Eins eru jólatónleikar kóranna sem æfa í Jónshúsi ómissandi á aðventunni.

Aðventan í Kaupmannahöfn er alltaf stórskemmtileg, nú sem endranær. Jólatímabilið hefst eiginlega fyrstu helgina í nóvember með komu jólabjórsins og síðan er stanslaust líf og fjör um alla borg næstu sjö vikurnar. Það er sérlega skemmtilegur tími.

VF jól 25
VF jól 25