Átti mjög erfitt með mjúku pakkana
Brynja Ýr Júlíusdóttir, gift og verðandi tveggja barna móðir, starfar sem grunnskólakennari í Heiðarskóla og hefur verið stjórnarmeðlimur Leikfélags Keflavíkur síðastliðin sex ár. Hún segir uppáhaldsjólahefðina ekki hafa staðið tímans tönn, að bera út jólakortin fyrir foreldra sína á aðfangadag.
Hvernig var árið 2025 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Árið 2025 var mjög skemmtilegt og líflegt eins og flest önnur ár. Það sem stóð upp úr var klárlega það að við komumst að því að við eigum von á öðru barni á næsta ári.
Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?
Það er erfitt að velja eitt uppáhalds, þau eru öll svo skemmtileg. Það sem á sérstakan stað í hjartanu er lagið Aleinn um jólin sem Stefán Karl söng svo eftirminnilega.
Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?
Það er hefð hjá mér að byrja aðfangadag á að horfa á How the Grinch Stole Christmas. Annars eru ekki jól nema ég horfi á Home Alone 1 & 2 og Christmas Vacation.
Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?
Uppáhaldsjólahefðin hefur því miður ekki staðist tímans tönn en það var að bera út jólakortin með mömmu og pabba á aðfangadag. Það var eitthvað svo spennandi að rúnta um bæinn á aðfangadag og fá þá ábyrgð að koma kortunum á réttan stað.
Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?
Jólaseríur - þær lífga líka upp á skammdegið sem er mjög mikilvægt í desember.
Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum – hvort sem það var sem þú gafst eða fékkst?
Það er svo margt sem kemur upp í hugann. Ég fékk einu sinni karaokevél í jólagjöf frá mömmu og pabba. Það var ekkert smá spennandi fyrir mig en ég get ímyndað mér að það hafi reynst fjölskyldunni mikil þolraun. Ég fékk líka einu sinni síma sem mamma og pabbi vöfðu inn í handklæði, sem ég átti nú þegar. Ég var ekkert sérstaklega ánægð að fá notað handklæði í jólagjöf. Við systkinin gáfum mömmu og pabba myndband fyrir u.þ.b. 16 árum þar sem við töluðum um uppáhaldsminningarnar okkar í tengslum við mömmu og pabba. Það var mjög dýrmæt og skemmtileg stund að horfa saman á það.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir, áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Ég er með svo lélegt minni að ég man ekki vel aftur í tímann. Mér hefur þó verið sagt að þegar ég var tveggja ára fengi ég bara mjúka pakka í jólagjöf, ekkert dót. Ég átti víst mjög erfitt með það, skiljanlega. Það er engin ein jólaminning sem stendur upp úr, jólin með fjölskyldunni þegar ég var barn voru alveg yndisleg. Það er líka dásamlegt að halda mín eigin jól með minni fjölskyldu.
Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð? Áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?
Ég er meira fyrir það sem er keypt í búð. Það er eitt jólaskraut sem fylgir mér frá því að ég var barn en ég tók það brotið upp úr kassanum þegar ég var að skreyta fyrir þessi jól. Það var mjög leiðinlegt.
Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?
Smám saman hvarf þessi gleði sem fylgdi alltaf jólunum þegar maður var krakki en eftir að ég eignaðist barn sjálf þá hefur gleðin komið aftur því það er svo dásamlegt að upplifa jólin í gegnum börnin sín. Það er auðvitað meiri ábyrgð og meira stress sem fylgir jólunum núna, maður þarf að passa upp á að allt sé klárt en það er líka mikilvægt að sýna sér mildi. Það gerist ekkert þó svo að eldhússkáparnir séu ekki skipulagðir í desember.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum? Eru einhverjar ómissandi uppskriftir á þínu heimili?
Ég er ekki mikið fyrir hamborgarhrygg og því er kalkúnn jólamaturinn á mínu heimili. Það er nauðsynlegt að vera með sveppasósuna hennar mömmu og auðvitað ljúffengt meðlæti með.
Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?
Ég er svo rosalega vanaföst og heimakær að ég get ekki ímyndað mér að vera ekki heima hjá mér um jólin. Það er þó eitthvað mjög heillandi við að vera í litlum skála í Englandi yfir jólatímann. Annars væri ég mjög til í að vera í New York í aðdraganda jólanna.
Trúir þú enn á jólaandann? Og hvað þýðir hann fyrir þig?
Já, klárlega. Ég held að hann sé eitthvað sem þú þarft að finna hjá sjálfum þér. Fyrir mér er hann að reyna að njóta og vera í slökun með fjölskyldunni, borða góðan mat og reyna að brjóta upp á hversdagsleikann t.d. með ferðum í Aðventugarðinn, verslunarferðum í Reykjavík eða bara göngutúr að skoða jólaljósin.
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
Við erum að flytja eftir jólin þannig að eitthvað nýtt og fallegt á heimilinu væri æðislegt. Ef pabbi er að lesa væri líka algjör snilld ef hann vilji mála íbúðina fyrir mig.
Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?
Mjög basic svar en auðvitað heimsfriður. Það er fátt mikilvægara en það.
Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?
Það eru nokkur ár síðan ég hætti að strengja mér áramótaheit þar sem ég stend aldrei við þau. Ég er að fara að taka þátt í næsta söngleik hjá Leikfélagi Keflavíkur núna í vor sem ég er mjög spennt fyrir, síðan ætla ég að leggja leiklistarskóna á hilluna í nokkur ár og einbeita mér að því að vera tveggja barna móðir en ég á von á mér í byrjun júní.







