Reykjanesbær aðventugarðurinn
Reykjanesbær aðventugarðurinn

Mannlíf

„Viljum fyrst og fremst veita fólki gleði“
Þriðjudagur 23. desember 2025 kl. 04:06

„Viljum fyrst og fremst veita fólki gleði“

Rósmarý og Thelma Hrund með hlaðvarpið Tvær úr Tungunum

Í september ákváðu vinkonurnar Rósmarý og Thelma Hrund að láta sex ára gamlan draum verða að veruleika og stofna sitt eigið hlaðvarp. Úr varð Tvær úr Tungunum, létt og líflegt spjallhlaðvarp sem þær segja að snúist fyrst og fremst um að gleðja fólk og gefa því stutta pásu frá amstri dagsins.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

„Rósmarý kom í raun með þessa hugmynd aftur í ár eftir að pælingarnar um að halda úti hlaðvarpi höfðu legið í dvala í sirka sex ár,“ segir Thelma. „Tveimur vikum seinna var fyrsti þátturinn kominn í loftið,“ bætir Rósmarý við.

Tvær vinkonur í tveimur löndum

Hlaðvarpið þeirra er frábrugðið mörgum öðrum að því leyti að þær búa ekki í sama landi. Rósmarý býr á Íslandi en Thelma í Danmörku. Þrátt fyrir fjarlægðirnar segja þær þetta ekki hafa verið hindrun heldur fyrst og fremst skemmtilega áskorun.

„Við þurfum aðeins að skipuleggja okkur betur en það hefur bara gengið ótrúlega vel,“ segja þær og taka fram að tæknin geri þeim kleift að hittast „í loftinu“ þó að þær séu hvor í sínu landinu.

Nafnið úr æskuminningum

Aðspurðar hvaðan nafnið Tvær úr Tungunum kemur, segja þær báðar að það sé tilkomið úr æskuminningu tengdri Halla og Ladda.

„Við erum miklir aðdáendur Halla og Ladda og hlustuðum mikið á lagið Tvær úr Tungunum þegar við vorum börn,“ segir Thelma. „Þeir sem hlusta á þættina vita líka vel að nafnið er viðeigandi þar sem við tökum hlutunum ekki of alvarlega,“ bætir hún við.

Létt spjall og skemmtilegar umræður

Þættirnir byggja að mestu á léttu og skemmtilegu spjalli vinkvennanna, þar sem þær taka fyrir eitt ákveðið málefni í hverjum þætti. Þær hafa til dæmis fjallað um nágranna, misskilning og svindl – alltaf með húmorinn í fyrirrúmi.

„Allir þættirnir eru léttir og skemmtilegir, okkur langar að gefa fólki tækifæri til að gleyma sér og fá pásu frá daglegu amstri,“ segir Rósmarý. „Eða hamstri, eins og Rósmarý er gjörn á að segja,“ skýtur Thelma inn hlæjandi.

Viðbrögðin fram úr björtustu vonum

Rósmarý og Thelma segja viðbrögðin við þáttunum hafa farið langt fram úr væntingum. Þær fá reglulega skilaboð frá hlustendum og segja það líka gerast æ oftar að fólk stoppi þær á förnum vegi til að spjalla um hlaðvarpið.

„Það gefur okkur mjög mikið að heyra hvað fólki finnst, við erum mjög þakklátar fyrir það,“ segir Rósmarý. „Við reynum líka að eiga í samræðum við hlustendur á samfélagsmiðlunum okkar, það skiptir miklu máli, bæði fyrir okkur og hlustendurna,“ segir Thelma.

Framhald í kortunum

Vinkonurnar segjast spenntar fyrir framhaldinu og eiga ýmislegt eftir óunnið í Tvær úr Tungunum.

„Við höldum áfram að gefa út vikulega þætti og það er margt skemmtilegt fram undan,“ segir Thelma. „Við eigum von á nokkrum viðmælendum í þætti á næstunni, þið viljið ekki missa af því,“ segir Rósmarý að lokum.

VF jól 25
VF jól 25