Þjófurinn vildi ekki norska lambakjötið
Ólöf Einarsdóttir er flugfreyja og er því mikið í háloftunum og heimsækir mörg lönd. Hún kann því vel við sig heima á jólunum og hefðirnar eru allnokkrar hjá fjölskyldunni sem býr í Langholti í Keflavík. Ólöf segir okkur skemmtilega sögu af því þegar norska lambakjötið, sem er áramótamatur hjá fjölskyldunni, hvarf úr garðinum hjá þeim.
Hvernig var árið 2025 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Árið 2025 var gott, mikið um ferðalög og ævintýri. Fyrstu íbúðarkaup og háskólanám hjá ungviðinu, golfferð til Marrakech, EM karfa í Katowice í Póllandi og ættarmót en ég verð að segja að Suðurskautið standi upp úr á árinu. Ég fór óvænt í byrjun árs í mánaðar vinnuferð til Suður-Ameríku. Vorum staðsett í Punta Arenas, syðstu borg í heimi, og flugum þaðan til Suðurskautsins með ferðamenn, vísindamenn og starfsfólk. Þessi ferð var búin að vera á „bucket“-listanum mínum eða klára að heimsækja allar heimsálfurnar sjö. Þvílík forréttindi.
Ert þú mikið jólabarn?
Já, mjög mikið jólabarn og hef verið það alla tíð.
Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?
Þegar börnin voru lítil settum við upp lifandi tré nokkrum dögum fyrir jól sem við völdum sjálf í Heiðmörk. Eftir að við fengum okkur gervitré við lítinn fögnuð heimasætunnar er tréð sett upp fyrstu aðventuhelgina.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir, áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Fyrstu jólin og minningarnar eru frá Tunguveginum í Njarðvík. Það er aðfangadagur, mikil tilhlökkun og gleði í loftinu. Pabbi er að koma heim og því mikill gestagangur. Við systurnar erum að horfa á teiknimyndir í Kanasjónvarpinu til að stytta okkur stundir. Mamma er á fullu í eldhúsinu, eflaust þreytt eftir jólatörnina í Kaupfélaginu, en alltaf tókst henni að gera jólin fullkomin.
En eru skemmtilegar jólahefðir?
Sörubaksturinn með systrum og æskuvinkonu á aðventunni og Þorláksmessurúnturinn niður í bæ er ómissandi.
Þegar ég var yngri og bjó heima þá var það alltaf hefð hjá okkur systrum að fara í miðnæturmessu í Njarðvíkurkirkju, það er svo hátíðlegt og gaman að hitta alla vinina.
Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
Ég er yfirleitt frekar snemma í því og búin með mikið í byrjun desember en skil alltaf eina eða tvær gjafir eftir og klára þær rétt fyrir jól.
Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?
Náttfatadagurinn á jóladag.
Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?
Ætli það séu ekki bara litlu fallegu gjafirnar sem börnin mín bjuggu til sjálf í skólanum og gáfu mér.
Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?
Last Christmas með Wham og Jólin eru okkar með Baggalút.
Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?
Christmas Vacation.
Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?
Heima í Langholtinu, ég ferðast svo mikið í vinnunni minni og gisti reglulega á hótelherbergjum þannig að heima um jólin með fjölskyldunni er best í heimi.
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
Það er ekkert sérstakt á óskalistanum fyrir þessi jól, mér finnst orðið skemmtilegast að fá og gefa upplifanir með ástvinum.
Hvað verður í jólamatnum hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?
Á aðfangadag má engum hefðum breyta á mínu heimili. Við höfum haft sama matinn síðan börnin fæddust, humarsúpa í forrétt, hamborgarhryggur í aðalrétt og Toblerone-ís í eftirrétt. Það er mjög skemmtileg hefð hjá okkur um áramótin.
Stórfjölskyldan kemur til okkar og fagnar nýju ári og afmælisdegi húsbóndans. Við höldum í norska hefð þar sem maðurinn minn er norskur í aðra ættina. Aðalréttur kvöldsins er Pinnekjött (Ribbe). Þetta er lambakjöt sem lagt er í saltpækil og látið hanga í tvo mánuði úti hjá okkur, síðan er það gufusoðið á birkikubbum og með þessu er geggjuð rófustappa og að sjálfsögðu þarf að vera bjór og Linie norskt ákavíti með. Það hafa ekki allir hætt sér í norska kjötið þannig að húsfreyjan hefur haft kalkún fyrir gikkina en alveg ótrúlegt hversu margir eru búnir að færa sig yfir í norska!
Þessu tengt langar mig að segja ykkur litla sögu. Eitt árið varð uppi fótur og fit þegar uppgötvaðist að kjötið var horfið úr garðinum. Það var sendur af stað leitarflokkur því þetta varð að finnast, annars væri úti um áramótin. Leitað var einnig til lögreglunnar en ekkert hafði fundist. Þegar öll von var úti tók húsbóndinn síðasta röltið með vonleysi og tárvot augu. Gleðin var mikil þegar þýfið fannst í plastpoka við göngustíg í nágrenninu. Líklega hefur sökudólgurinn orðið svekktur þegar hann sá hvað var í pokanum.
Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?
Ég er ekki vön að vera með nein sérstök áramótaheit önnur en þau að gera næsta ár betra en það fyrra og njóta hvers dags.
Á næsta ári langar mig að ferðast og skapa minningar með fjölskyldu og vinum, svo má heldur ekki gleyma að rækta sál og líkama með útiveru og golfi.







