Íþróttir

Stórsigur Keflvíkinga í Ólafsvík
Keflvíkingar hafa haft næg tilefni til að fagna í upphafi Íslandsmóts, búnir að skora níu mörk í tveimur fyrstu umferðunum.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 29. júní 2020 kl. 02:51

Stórsigur Keflvíkinga í Ólafsvík

Frábær byrjun Keflavíkur í Lengjudeildinni

Það var hörkuviðureign þegar Keflvíkingar mættu Víkingum í Ólafsvík í gær. Fyrri hálfleikur var markalaus en Keflvíkingar hófu þann síðari af miklum krafti, sóttu stíft og áttu meðal annars skot í stöng. Það voru ekki liðnar tvær mínútur af seinni hálfleik þegar þeir fengu dæmda vítaspyrnu sem Joey Gibbs skoraði úr (47’) og kom Keflavík yfir.

Fjórum mínútum síðar gerðu Ólafsvíkingar taktíska breytingu á sínum leik, þreföld skipting og sóknarþunginn aukinn. Litlu munaði að þeir næðu að jafna leikinn þegar Víkingar áttu hættulega sókn sem endaði með skoti í innanverða stöng Keflvíkinga en Keflvíkingar vörðust vel, áttu góðar rispur fram á við og bæði lið áttu nokkur hættuleg færi. Á 80. mínútu tvöfaldaði Adam Árni Róbertsson forskotið eftir að Keflavík tók innkast til móts við vítateig Víkinga sem náðu ekki að hreinsa frá. Víkingar reyndu hvað þeir gátu en náðu ekki að svara þessu og þegar komið var í uppbótartíma skoruðu Keflvíkingar tvö mörk til viðbótar, fyrst var þar að verki Adam Ægir Pálsson og skömmu síðar Adam Árni með sitt annað mark, lokatölur 4:0.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Leikinn má sjá í spilaranum sem fylgir fréttinni.