„Það er ekki sjens að segja nei“
Ásgeir Magnús Hjálmarsson, safnamaður í Garði, heiðraður fyrir að koma byggðasafni á fót í Garði
Þegar 30 ára afmæli Byggðasafnsins á Garðskaga var fagnað nýlega var Ásgeir Magnús Hjálmarsson heiðraður fyrir áratugastarf við söfnun og varðveislu minja. Hann var meðal þeirra sem börðust fyrir því að byggðasafn yrði stofnað í Garði og veitti því forstöðu um árabil. Eftir að hann lét af störfum sem safnstjóri Byggðasafnsins á Garðskaga og fór á eftirlaun hefur hann byggt upp öflugt einkasafn í Bragganum í Garði þar sem líf og saga sjávarplássins lifir áfram á hverjum degi.
Við settumst niður með Ásgeiri í Bragganum hans til að fara yfir upphaf söfnunaráráttunnar, baráttuna fyrir byggðasafni á Garðskaga, félagsskapinn í kringum safnið og framtíðina sem hann vonast til að sjá.
Söfnunaráhuginn kviknar
Ásgeir þarf ekki að hugsa sig lengi um þegar hann er spurður hvenær söfnunaráhuginn kviknaði.
„Ég held að það sé eitthvað sem ég gleymi bara aldrei. Það er í kringum 1980 sem ég hef byrjað á þessu,“ segir hann. „En ástæðuna, því miður, hef ég ekki getað grafið upp enn þá, af hverju ég byrjaði á því.“
Hann man ekki nákvæmlega hver fyrsti gripurinn sem rataði í safnið var en telur líklegt að hann hafi tengst sjónum og gömlu sjómennskunni.
„Þetta snerist mest um að safna munum í kringum gamla sjómennsku. Úr gömlum sjóhúsum í Gerðum sem stóð til að rífa bjargaði ég ýmsum gömlum munum sem tengdust sjósókn, gamlir tjörubelgir og ýmis veiðarfæri og dótarí.“
Bragginn og fyrstu gripirnir
Um þetta leyti var Ásgeir nýbúinn að eignast húsin sem mynda í dag hjarta einkasafnsins.
„Þarna 1980 er ég nýbúinn að eignast þessi hús hérna, Braggann og fiskhúsið hér við hliðina,“ segir hann. „Og það var söfnunarstöðin. Ég var búinn að fylla þetta meira og minna á stuttum tíma. Svo fór allt saman hingað inn í Braggann.“
Gripirnir komu aðallega úr heimabyggð og nágrenni.
„Þetta var fyrst og fremst úr Garðinum en ekkert síður úr Sandgerði og Keflavík.“
Móðir Ásgeirs, Sigrún Oddsdóttir, átti óbeinan þátt í að ýta undir söfnunaráráttuna, þótt ekki hafi það endilega verið ætlunin.
„Hún var grjóthörð á því að láta fjarlægja allt sem mátti kalla rusl úr náttúrunni og var meinilla við þessa gömlu, ljótu skúra í Gerðum,“ segir hann og brosir. Sjálfur hefur hann lengi séð eftir gömlum byggingum sem hurfu, sérstaklega gamla skólahúsinu í Gerðum sem var rifið. „Það vantaði ekkert nema bara að smíða nýtt þak á þetta hús. Þá hefði það staðið enn.“
Bréfið sem aldrei var sent
Árið 1989–90 var safnið orðið það mikið að Ásgeir fór að hugsa um formlegt byggðasafn.
„Þá var ég kominn með helling af dóti hérna,“ rifjar hann upp. „Ég var búinn að skrifa heilmikið bréf sem ég ætlaði að senda hreppsnefnd og stinga upp á því að koma upp byggðasafni í kringum þetta dót sem ég var búinn að safna.“
Bréfið var handskrifað og móðir hans fór yfir textann, leiðrétti stafsetningu og annað. „En svo lagði ég aldrei í að senda það,“ segir hann og hlær.
Árið 1992 átti Gerðaskóli 120 ára afmæli. Þá var Ásgeir beðinn um að lána muni á sýningu í tilefni afmælisins.
„Það stóð ekki á mér,“ segir hann. „Ég fékk Guðleif Sigurjónsson, forstöðumann Byggðasafnsins í Keflavík, til aðstoðar. Við settum upp flotta sýningu og ég held að hún hafi kveikt ljós hjá yfirvöldum.“
Á sýningunni voru meðal annars bátalíkön í láni hjá Grími Karlssyni og gamlar vélar sem Guðni Ingimundarson, tengdafaðir Ásgeirs, hafði byrjað að gera upp. Sýningin fékk mikla athygli og hvatti Ásgeir til að dusta rykið af bréfinu.
„Eftir þessa sýningu dreif ég í að prenta bréfið og senda það upp á skrifstofu. Hreppsnefndin tók vel í þetta og setti strax á laggirnar byggðasafnsnefnd.“
Í fyrstu safnnefndinni sátu Ásgeir, Sigurður Ingvarsson og Jóhann Þorsteinsson, ásamt sveitarstjóranum, Sigurði Jónssyni.

Safnið á Garðskaga
Næsta skref var að finna hús undir safnið. Hugur Ásgeirs leitaði strax á Garðskaga.
„Ég var lengi búinn að vera með það í huga að útihúsin á Garðskaga gætu hentað sem starfsvettvangur safnsins. Fjósið og hlaðan, þetta voru svakalega flottar og vandaðar byggingar,“ segir hann.
„Við sendum Vitamálastofnun bréf og spurðum hvort þeir væru til í að lána okkur húsið. Það stóð ekki á svarinu. Þeir leyfðu okkur að vera þarna í næstum tíu ár án þess að borga neitt.“
Þá hófst gríðarlegt sjálfboðastarf við að gera húsakostinn hæfan fyrir byggðasafnið.
„Það var enginn hiti og ekki neitt í húsinu,“ segir Ásgeir. „Við þurftum að hreinsa allt út, mála, steypa og laga gólf. Ég var þarna í tíu ár nánast í sjálfboðavinnu. Ég fór úr vinnunni minni og beint út á Skaga og var fram á kvöld að koma húsinu í stand.“
Fljótlega fylltist húsið af munum. Meðal muna á safninu var meðal annars skipið Heggviður, áttæringur sem gerður var út í Garðinum í áratugi og var siglt alveg fram undir síðustu aldamót úr Kothúsavörinni.
„Heggviður er eina eintakið af svona skipi á Íslandi. Það tók alla hlöðuna og við gátum raðað sjómennskudótinu í kringum það.“

Vélasafnið sem er „nánast einsdæmi á heimsvísu“
Á sama tíma safnaðist að vélasafnið sem tengdapabbi Ásgeirs, Guðni Ingimundarson, byggði upp. Hann safnaði gömlum vélum og gerði upp. Eftir hann liggja yfir 100 vélar sem nær flestar eru gangfærar.
„Mér finnst vélasafnið vera langmerkilegasti hluturinn við safnið,“ segir Ásgeir. „Ég held að það sé nánast einsdæmi á heimsvísu að vera með hundrað vélar eða rúmlega það sem eru nær allar gangfærar.“
Guðni og Guðmundur bróðir hans björguðu meðal annars gufuvél úr strönduðu skipi og settu hana í lag. „Það var hægt að setja hana í gang með loftpressu. Þetta var alveg stórmerkilegt.“
Þegar nýja safnahúsið á Garðskaga var reist og vígt 2. júlí 2005 afhenti Guðni bæði vélasafnið og GMC-trukkinn sinn formlega til varðveislu.
„Ég er enn í dag óskaplega stoltur af hreppsnefndinni fyrir að hafa látið verða af þessu húsi,“ segir Ásgeir. „Þetta var glæsilegt verkefni, húsið og allt umhverfið, bílastæði og vegur. Ég held að kostnaðurinn hafi verið um hundrað milljónir á sínum tíma.“
Ásgeir starfaði síðan við safnið sem launaður starfsmaður frá vígslu nýja hússins 2005 og þar til hann lét af störfum vegna aldurs.

Mynd frá því þegar Ásgeir var heiðraður á 30 ára afmæli safnisins. F.v.: Margrét I. Ásgeirsdóttir forstöðumaður safna í Suðurnesjabæ, Ásgeir M. Hjálmarsson og Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Suðurnesjabæ. VF-myndir: Hilmar Bragi
Bæði áhyggjur og ánægja
Ásgeir viðurkennir að hafa á tímabili haft áhyggjur af þróun mála á Garðskaga eftir að hann hætti. Hann vill þó ekki fara nánar út í það.
„En síðustu ár hefur verið unnið þarna kraftaverk,“ segir hann. „Margrét Ásgeirsdóttir og fólkið sem hefur starfað með henni hafa lyft Grettistaki. Safnið er til sóma.“
Hann segist þakklátur fyrir að nýtt fólk sýni honum og starfi hans virðingu.
„Þau hafa yfirleitt leitað til mín ef þau ætla að breyta einhverju, hvort þau megi það. Og ég hef alltaf verið sáttur við það sem hefur verið gert. Það má ekki ætlast til að safn verði alltaf eins og jarðfast hús, það þarf að breytast.“
Það sem særir hann þó enn er að stór hluti gripanna er í geymslu.
„Það eru tveir merkilegir bátar í geymslu og helmingurinn af vélasafninu. Það er sárt að þetta skuli ekki vera til sýnis.“
Áskorun til bæjaryfirvalda um viðbyggingu
Á 30 ára afmæli safnsins nýtti Ásgeir tækifærið til að skora á bæjaryfirvöld að byggja við safnið.
„Ég veit bara að það verður að byggja við safnið,“ segir hann ákveðinn. „Það er nóg pláss þarna til að byggja. Það hafa verið hugmyndir um þetta í nokkur ár en ekki farið lengra.“
Hann hefur skilning á því að bærinn hafi margt á sínu borði en minnir á að lausnir geti verið einfaldar.
„Ef byggt er einfalt hús fyrir báta þarf ekki steypt gólf. Það er bara verra. Miklu betra er að hafa jarðveg, fína sjávarmöl undir bátana. Það sparar helling og leyfir þessu að anda.“
„Það er ekki sjens að segja nei“
Þótt Ásgeir hafi látið af störfum sem safnstjóri er söfnunin hvergi nærri hætt. Nú fer hún fram í Bragganum.
„Það er eiginlega ekki hægt að hætta þessu,“ segir hann og hlær. „Það er ekki sjens.“
Hann segir sögu úr apóteki í Keflavík daginn áður en viðtalið var tekið.
„Ég hitti gamlan skipsfélaga sem sagði við mig: Ég á eitt bátslíkan, viltu ekki fá það? Ég sagði auðvitað já. Það er ekki sjens að segja nei þó að plássið sé orðið takmarkað fyrir stærri muni.“
Gripirnir koma hvaðanæva að, ekki bara af Suðurnesjum heldur líka úr Reykjavík og víðar. Fólk hefur samband, býður gripi og vill að þeir lendi á réttum stað.
„Ég hef reynt að segja nei við stærri hlutum, bara af því að ég hef ekki pláss,“ segir hann. „En það er erfitt. Ég vil helst hafa allt þar sem fólk sér það, ekki hulið í einhverjum geymslum.“
Á hverju ári koma nokkur hundruð manns í Braggann. „Ég verð bara grútfúll ef menn hætta að koma. Þetta er svo mikils virði. Hálfur dagurinn fer stundum í kaffi og kjaftagang, og það er dásamlegt.“
Félagsskapurinn í Bragganum og merking húsa
Í kringum Braggann hefur myndast sérstakur félagsskapur, Merkir menn.
„Við hittumst hér lágmark einu sinni í viku,“ segir Ásgeir. „Ég mæti klukkan sex á föstudagsmorgni til að hella upp á kaffi. Svo koma menn milli korter yfir sex og hálf sjö og sitja til átta eða hálf níu.“
Úr þessum hópi hefur sprottið merkilegt verkefni. Tíu manna hópur hefur merkt gömul hús í Garði og Sandgerði, sett upp skilti með nafni hússins, byggingarári og fyrstu ábúendum ásamt gömlum myndum.
„Við ákváðum að merkja hús sem voru byggð fram undir 1960,“ segir hann. „Í Garðinum voru öll hús með nöfn, sem er alveg sérstakt. Í Sandgerði þurftum við oftar að nota götunöfn og húsnúmer.“
Í dag eru um tvö hundruð hús merkt og verkefnið heldur áfram með styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.
Nýjaland, Presthús og æskuár í salfiski
Ásgeir er fæddur og uppalinn á Nýjalandi í Garði og á rætur í sterku sjávarplássi. Afi hans reisti bragga og fiskhús árið 1950 og þar var þurrkaður saltfiskur.
„Ég byrjaði að vinna hjá afa sjö ára gamall,“ segir hann. „Það voru allir krakkar á vinnualdri í Útgarðinum sem komu í saltfisk.“
Hann eignaðist síðar Presthús sem ber nafn sitt af uppruna sínum. Húsið var upphaflega byggt sem heimili fyrir prestsekkjur í Útskálasókn.
„Það var lengi ekki vitað,“ segir Ásgeir. „Prestur sem var í afleysingu gróf þetta upp og fann heimildir um að presthús hafi verið byggð fyrir prestsekkjur.“
Bílarnir, Hagamúsin og vörubíllinn á rúntinum
Einkasafnið í Bragganum snýst ekki bara um báta og vélar heldur líka gamla bíla. Þar hefur Ásgeir unnið náið með syni sínum, Guðna.
„Við erum búnir að gera upp fjóra traktora og að minnsta kosti þrjá bíla,“ segir hann. Nýjasta verkefnið er gamall vörubíll, af sömu árgerð og sá sem faðir hans átti.
„Ég er sjálfur ’46 módel,“ segir hann brosandi. „Pabbi átti svona vörubíl þegar ég fékk bílpróf 1960. Fyrsti bíllinn sem ég keyrði var svona. Við fórum á honum í bíó í Keflavík. Það var enginn annar bíll á Nýjalandi.“
Sérstakan sess í hjarta fjölskyldunnar á líka litli Renault-bíllinn, Hagamúsin, árgerð 1946, sem kona hans Sigga fékk þriggja ára gömul í happdrætti 1948.
„Bíllinn hefur alltaf verið í fjölskyldunni,“ segir hann. „Þegar við kláruðum að gera hann upp 2016 þá komu blaðamenn og með úrklippu úr Alþýðublaðinu frá 1948 þar sem tilkynnt var að hún hefði unnið bílinn í happdrætti.“
Óvæntir gripir, Óðinsmenn og Haffari
Ásgeir segir að stórir og smáir gripir hafi ratað í safnið með óvæntum hætti. Þar má nefna skipsklukku og skilti af varðskipinu Ægi sem Óðinsmenn komu með og hafa þeir meðal annars komið siglandi í heimsókn.
Annan daginn rakst hann á grein í Morgunblaðinu um Njörð Jóhannesson á Siglufirði sem smíðar líkön af gömlum bátum.
„Í restinni stóð að ef væri eitthvert safn á Suðurnesjum sem vildi varðveita bátinn Haffara væri hann falur fyrir eina krónu,“ segir Ásgeir. „Ég hringdi í hann og sagðist vera til í að varðveita gripinn.“
Að lokum mætti Njörður með bátinn til Garðs.
„Ég mætti með tvær krónur, eina venjulega og eina flotkrónu, og spurði hvora hann vildi,“ segir Ásgeir hlæjandi. „Og hann valdi auðvitað flotkrónuna.“
Framtíðin er tryggð í góðum höndum
Þegar spurt er um framtíð safnsins í Bragganum og á Garðskaga svarar Ásgeir án þess að hika.
„Ég ætla að halda áfram á meðan ég get,“ segir hann. „En ég veit að Guðni, elsti sonur okkar, hefur fullan áhuga á að halda þessu gangandi.“
Hann segir að það rói sig að vita að safnið muni lifa áfram þegar hann sjálfur stígur til hliðar.
„Ég hef sagt við hann að hann eigi að keyra mig á vörubílnum í kirkjugarðinn,“ segir Ásgeir og glottir. „Það væri fallegur endir.“
Þangað til verður Bragginn áfram lifandi miðstöð sagna, muna og menningar. Þar streyma gestir inn, kaffi er heitt og sögurnar margar. Og ef einhver býður Ásgeiri góðan grip til varðveislu er svarið enn hið sama.
„Já, það er ekki sjens að segja nei.“

