Sigvaldi með stærsta lax sumarsins
Keflvíkingurinn Sigvaldi Lárusson veiddi stærsta lax sumarsins hér á landi þegar hann landaði 106 sm. hæng í Höfðahyl í Laxá í Aðaldal í gær. Sigvaldi hefur veitt reglulega með góðum árangri í þessari mögnuðu á norður í landi en nú negldi hann einn risastóran.
Sigvaldi sem er kunnur lögreglumaður í Keflavík og mikill laxveiðimaður segir svo frá á Facebook-síðu sinni:
„Ég fór svo með Áslaugu, nýja uppáhalds guide-inum mínum á ferðina og enduðum við í Höfðahyl. Metallica #10 var sett undir og Áslaug byrjaði að útskýra staðinn fyrir mér….„sko það eru 3 speglar hérna og algengast að hann taki á miðjuspeglinum.“ Ég var búinn að kasta nokkrum sinnum á fyrsta spegilinn og var byrjaður að vinna í spegli nr 2………BÆNG…..flugan negld og fiskurinn afar rólegur og gerði lítið annað en að synda rólegur (sem er einmitt einkenni stórlaxa).
Allt í einu tók hann roku og stökk. Við Áslaug gerðum okkur strax grein fyrir því hvað var að gerast þegar við sáum hann langt úti í á. Áslaug fór að hringja eftir aðstoð enda vorum við með minnsta háf á Norðurlandi og ljóst að við þyrftum stærri
Ég ákvað að taka frekart hart á honum og náði að koma fisknum inn í lygnt vatn og eftir dágóðan tíma náði Áslaug loksins að koma tröllinu í háfinn og stóð fiskurinn hálfur út úr honum. Í því barst aðstoð frá öllum sem voru við ána að veiða (hugsanlega heyrðu fleiri öskur samt í sveitinni)
Einhverjir voru á Mjósundi og var róið yfir á spíttbátahraða, sumir skemmdu fjöðrunina í bílnum sínum á leiðinni. Þegar þau komu svo að ánni voru þar skælbrosandi Silli og Áslaug með þennan líka Greifa.
Eftir ótal mælingar hjá okkur og myndatökur kom í ljós að Greifinn mældist 106 cm langur og 52 cm í ummál sem reiknast rétt tæp 28 pund. (Innskot blm.: Samkvæmt Sporðaköstum á mbl. er var stærsti lax sumarsins til þessa 102 sm.)
Að þessu loknu var honum sleppt lausum og hann synti rólegur út í dýpið þar sem hann hefur fundið hrygnuna sína aftur eftir að hafa jafnað sig….sleppt að sjálfsögðu og megi aðrir veiðimenn verða jafn heppnir og ég og ná honum seinna,“ segir Sigvaldi í þessari skemmtilegu lýsingu.
Tinna dóttir Sigvalda fékk Maríulaxinn sínn í veiðiferðinni á Knútstaðartúni í Laxá í Aðaldal og landaði 70 cm laxi eftir að hafa misst 90+ cm fisk. Villa frænka hans (4 ára) fékk líka Maríulax á sama stað. Sannkallað laxa-fjölskyldufjör í Aðaldal!
Sigvaldi og Tinna með Maríulaxinn.